Búfjárhald

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 14:19:59 (1143)

[14:19]
     Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara í einhvern meting við hv. þm. um það hvor okkar þekki betur til meðfram vegum landsins og í sveitum. Hann þekkir mjög vel til í Borgarfirði veit ég og ég kannski betur annars staðar.
    Um efnisatriði frv. þýðir hins vegar ekkert að þrátta, hv. þm. Jafnvel hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson hlýtur að skilja að landeigandi, bóndi, sem á nokkur hross, og síðan gildir í því sveitarfélagi eða eru sett með landslögum ákvæði sem bannar lausagöngu þeirra gripa, honum standa mörg úrræði til boða önnur en að girða af endilanga veglengju sem liggur í gegnum hans land. Hann getur girt og á kannski fyrir helda hagagirðingu, þess vegna einhvers staðar langt frá vegi, þar sem hann getur látið sín hross ganga árið um kring og þar með eru þau ekki í lausagöngu og þarf ekki að hafa nokkur einustu áhrif á það hvort girt er eða ekki girt meðfram þjóðvegi í því tilviki. Auðvitað getur hagað svo til að hagagöngulandið liggi meðfram þjóðvegi, en það þarf ekkert endilega að gera það og ég þekki fjölmörg dæmi að svo er ekki. Algengast er að bændur hafi sína stórgripi í girðingum allt árið og þeir hagar liggja eftir atvikum eða liggja ekki að þjóðvegum eins og gengur.
    Mjög margar landmiklar jarðir búa kannski við það að þjóðvegirnir liggja í gegnum landið á köflum sem skipta jafnvel tugum km, ég þekki dæmi slíkt, og þar vantar auðvitað mikið á að girt sé meðfram öllum vegunum. En eftir sem áður geta viðkomandi bændur átt hagaheldar girðingar og látið sína stórgripi ganga þar þegar þeir eru utan húss. Ég held því að þetta sé ósköp einfalt, hv. þm., og engin ástæða til að þvæla þessu neitt fyrir sér. Málið liggur svona. Það er ekki verið að þvinga hér fram, umfram það sem aðstæður á hverri jörð gera þá kröfu til, einhverjar girðingar meðfram vegum umfram það sem í gildi er nú þegar eða breyta þeim ákvæðum sem um það gilda.