Búfjárhald

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 14:30:18 (1146)

[14:30]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vil að það komi fram að ég er frekar jákvæð gagnvart þessu máli og tek undir með síðasta ræðumanni að það þarf að ráða bót á núverandi ástandi og koma skepnunum út af þjóðvegunum, sérstaklega vegna þeirrar slysahættu sem er af ástandinu eins og það er og eins og við þekkjum það. Hv. þm. minntist á vegalög í því sambandi og það er eflaust rétt og það hefur reyndar komið fram hjá fleiri ræðumönnum að þetta kemur líka inn á vegalög. En ég er ekki frá því að þó svo að vegalögum yrði breytt þannig að ríkinu væri skylt að girða meðfram öllum vegum þá þurfi samt sem áður að breyta búfjárlögum, eða lögum um búfjárhald, vegna þess að það er a.m.k. þannig þar sem ég þekki best til að þar er oft svo mikill snjór að það er ekki alveg hægt að treysta því að girðingarnar geri sitt gagn. Og þá finnst mér að bændur verði að bera ákveðna ábyrgð, ekki bara vegna hættu heldur líka vegna þess að eins og búskaparhættir eru orðnir nú þá er hey í rúllum við næstum því hvern sveitabæ í landinu og það er mikill skaði af því þegar hross komast í rúllur og geta skemmt þær stórkostlega. Þess vegna verður að koma þeim reglum á að mínu mati að bændur beri meiri ábyrgð á sínum gripum heldur en nú er.
    Nú er það rétt sem hér hefur komið fram að sveitarstjórnum er heimilt að setja reglur hvað þetta snertir og hafa margar gripið til þess ráðs, en ég er ekki frá því að löggjafinn mundi gera sveitarstjórnarmönnum nokkurn greiða með því að taka af þeim ómakið og setja lög í landinu sem kvæðu á um þetta þar sem oft er þetta erfiðara í návíginu.
    En ég vildi að það kæmi fram að mér finnst þetta vera mál sem verður að taka á og ég er frekar jákvæð gagnvart frv. en auðvitað verður það skoðað betur í hv. landbn.