Búfjárhald

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 15:12:30 (1154)

[15:12]
     Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég þarf í sjálfu sér ekki að lesa þá skýrslu, við þekkjum innihald hennar bæði ég og hv. þm. Hér er á ferðinni langur og gamall hali sem rúllað hefur á undan Vegagerðinni í óuppgerðum skuldbindingum vegna girðinga meðfram vegum. Ef eitthvað er, þá hygg ég að þessi hali hafi eitthvað styst nú síðari árin, sérstaklega vegna þess að nokkurt fé hefur á hverju ári verið lagt í þetta verkefni, en nýjar girðingar eru eins og hv. þm. reyndar réttilega benti á yfirleitt teknar inn í framkvæmdina og þeim lokið samtímis enduruppbyggingu vega eins og hún gengur fyrir sig núna. Ég veit ekki betur en hv. þm. hafi tekið þátt í því hér og borið ábyrgð á því m.a. með ríkisstjórnum sem hann hefur stutt mestallan tímann sem hann hefur setið á Alþingi að skipta vegafé með tilteknum hætti og þar hafa krónurnar verið færri en hugur manna hefur staðið til verkanna og ég veit ekki hvort einn ber eitthvað sérstaklega meiri ábyrgð eða sök á því en annar. Ég minnist þess a.m.k. ekki að hv. þm. hafi flutt brtt. um það að hækka ætti sérstaklega liðinn girðingar í vegáætlun undanfarin ár og lækka þá eitthvað annað á móti, en ef það er misminni

þá bið ég hv. þm. að leiðrétta það.
    Ég held að þessi málflutningur, að það sé eitthvert sérstakt gerræði af hálfu Alþingis ef það leyfir sér að setja lög sem banna lausagöngu stórgripa, gangi ekki upp hjá hv. þm. vegna þess að þetta sama Alþingi, þessi sami löggjafi er búinn að fela sveitarstjórnum slíkt vald og hvers eiga þá bændur gjalda í þeim sveitarfélögum sem hafa ákveðið að beita því og fyrirskipað bann við lausagöngu? Og það er frekar reglan heldur en undantekningin að það hafi verið gert. Þeir geta þá vitanlega haldið allar sömu ræðurnar og hv. þm. hefur gert hér um fátækt og erfiðleika og að verið sé að troða á rétti þeirra. Auðvitað vitum við það að í þeim sveitarfélögum þar sem fyrirskipuð hefur verið varsla stórgripa, þá hafa örugglega einhverjir einstakir bændur en ekki landeigendur verið ósáttir við þá breytingu en þeir hafa orðið að kyngja henni. Þeir voru að taka þessa kvöð á sig. Og það sem hér er eingöngu verið að leggja til er að þetta verði gert að almennri reglu, að landslögum, það sem hefur verið í sjálfsvaldi sveitarstjórnanna að gera. Og hvers vegna er þetta lagt til? Það er vegna þess að nokkrar sveitarstjórnir í landinu af einhverjum ástæðum treysta sér ekki til að fyrirskipa þá vörslu sem brýn nauðsyn er að koma á og allir eru sammála um. Ég hef rætt þetta við lögreglustjórana í viðkomandi umdæmum og þeir segja: Það lífsnauðsynlegt að ná þessu fram, en af einhverjum staðbundnum ástæðum eru hér nokkrar sveitarstjórnir sem greinilega treysta sér ekki í svona ákvörðun og þær þurfa bara á stuðningi og hjálp að halda. Þá á löggjafinn að hafa kjark til þess að grípa í taumana. Og auðvitað er það þannig að svona hlutum er alltaf ráðið til lykta með blöndu af annars vegar af lagaákvæðum og hins vegar þá einhverju sjálfsvaldi lægra setts stjórnstigs sem eru sveitarfélögin. Lögin um búfjárhald eru einmitt þannig. Þau setja sumt í vald sveitarstjórnanna og annað ákveður ríkið. Má ekki t.d. með nákvæmlega sama hætti segja að það sé þá gerræði af löggjafanum að fyrirskipa vörslu stóðhesta? Af hverju er ekki sveitarstjórnunum hverri fyrir sig sett það í vald hvort það skuli vera vörsluskylda á stóðhestum eða ekki? Nei, þar hefur löggjafinn ákveðið að það sé rétt að hafa ein lög sem gilda um allt landið. Eins er þetta með umferðina. Það gilda ákveðin umferðarlög en síðan setja sveitarstjórnirnar sérsamþykktir um þau atriði sem eru staðbundin og eðlilegt er að séu í þeirra valdi þannig að þó að löggjafinn ákveði að breyta þannig lögum um búfjárhald að í staðinn fyrir vörsluskyldu sé heimildarákvæði til handa sveitarstjórnum þá verði þeim málum skipað með ákvörðun héðan, þá er það að sjálfsögðu ekki stílbrot á nokkurn hátt við þau samskipti og þær reglur sem tíðkast hafa í svona tilvikum, ef menn meta málið svo mikilvægt eða almannahagsmunina svo brýna að það sé rétt að gera það svo. Og ég tel að mannslíf séu það. Ég tel að umferðin og varnir gegn slysum í henni sé eitt af þeim málum sem löggjafinn á tvímælalaust að taka á ef honum býður svo við að horfa og það hefur verið gert hér á undanförnum árum með alls konar ákvæðum. Og þessi leiðindamálflutningur minnir mig helst á það þegar menn stóðu hér á Alþingi og töluðu gegn því að lögleiða notkun bílbelta og fluttu jafnvel fram þau rök að það væri skerðing á persónufrelsi manna að fá ekki að sitja lausir í bílunum og drepa sig ef svo bar undir í bílslysum. Þetta er ekki frambærilegur málflutningur, hv. þm. Við erum að tala hér um ákaflega alvarlega hluti sem ég held að best sé að ræða með rökum.
    Og varðandi að bera svo saman lausagöngu kinda og stórgripa, þá minni ég ósköp einfaldlega á að þar er algerlega ósambærilegum hlutum saman að jafna. Upprekstur hrossa er nánast aflagður í landinu. Þetta snýst þess vegna fyrst og fremst um hagagöngu þeirra á láglendi og þar ætti mönnum ekki að verða skotaskuld úr að sjá til þess að þau haldi sig innan girðinga. Rekstur á mjólkurkúm yfir þjóðveg undir eftirliti kúasmala er ekki lausaganga, hv. þm.