Búfjárhald

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 15:17:57 (1155)

[15:17]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég lagði það til á sínum tíma í meiri hluta fjárveitinganefndar að

þessar skuldir yrðu gerðar upp þegar vegalög voru á dagskrá. Það fékk ekki náð. En vitandi það að löggjafinn hefur fjárveitingavaldið og vitandi það að þetta hefur ekki verið gert, þá hlýt ég að spyrja sjálfan mig: Stenst það eðlileg viðhorf til jafnræðis þegnanna að líta svo á að það sé gert upp við suma en aðra ekki? Og hver væri áhugi Vegagerðarinnar á því að láta klára þessi uppgjörsmál? Hver yrði áhugi Vegagerðarinnar á því á eftir? Ætli hann yrði ekki harla lítill? Og ekki virtist gæta mikils samviskubits hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. þó að hann hefði ekki haft mikinn áhuga á að gera þetta upp. Ekki varð nú vart við mikið samviskubit.
    Ég frábið mér allan útúrsnúning í þessu máli, hoppandi út og suður og milli bílbelta og stóðhesta. Hvorugt er á dagskrá. Við erum að tala um reglur á lausagöngu búfjár og það varðar girðingar. Það eru ákvæði um girðingar í ýmsum lögum. Annars vegar er það að sjálfsögðu í vegalögunum sjálfum og svo í sérstökum girðingarlögum þar sem talað er um rétt manna til að krefjast girðingar á landamerkjum jarða. Hér er verið að tala um það að skylda menn að sitja uppi með þann kost að girða annaðhvort af smásvæði fyrir sínar skepnur eða þeir verði að fella þær eða girða allt sitt land. (Forseti hringir.) Og nú glymur bjallan. Ég geri ráð fyrir því að forseti gæti tímans vel hjá öllum sem hér tala.