Nýting síldarstofna

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 15:52:49 (1160)

[15:52]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég kem hér í ræðustól fyrst og fremst til þess að taka undir varlegt orðalag í tillögutextanum. Ég held að það skipti einmitt máli að fara þannig að sem hv. 1. flm. tillögunnar mælir fyrir, að það verði athugað gaumgæfilega hver stefnan á að vera við nýtingu síldarstofna og að leggja sérstaka áherslu á að nýta möguleika bæði til atvinnusköpunar og verðmætasköpunar.

    Það eru geigvænlegar tölur sem fram koma í fskj. með þessari tillögu og tek ég dæmi úr töflu sem er á bls. 4 um ráðstöfun síldaraflans á vertíðum 1975 til 1992--1993, en þar kemur fram að sífellt meira fer í bræðslu og sífellt minna einkum til söltunar. Fyrir þessu eru að sjálfsögðu, eins og við vitum, margar ástæður og m.a. náttúrlega markaðshrunið í Rússlandi eða Sovétríkjunum fyrrverandi og þar er ákveðin eyða sem þarf að athuga gaumgæfilega hvernig best verður fyllt upp í.
    Að vísu vil ég taka fram varðandi mjölvinnsluna að það er ekki sama mjöl og mjöl. Það er til mikil gæðavinnsla hér á landi sem gefur meiri verðmæti heldur en annars staðar, t.d. í hinni nýju og vel búnu verksmiðju á Seyðisfirði. Þannig að út af fyrir sig, ef hluti af síldinni fer í bræðslu og vinnslu á gæðamjöli, þá getur það skilað ákveðnum tekjum. En ég tek undir það, að mestu leyti, að þetta er alveg afleit þróun sem orðið hefur, að sífellt minna fer til söltunar og frystingin gerir þá ekki meira heldur en að standa í stað.
    Hins vegar hef ég svolitlar efasemdir, án þess að ég loki nú alveg á það, að það eigi að stefna sérstaklega að því að selja Rússum síld beint af skipum. Ég held að þar sé ekki gætt nákvæmlega þess sjónarmiðs sem kemur fram í tillögutextanum, að það eigi að líta á atvinnumöguleikana í kringum síldarvinnsluna. En gott og vel, þetta mundi slík nefnd athuga og ef þessi háttur er hafður á varðandi viðskipti milli Rússa annars vegar og svo Íra, Breta og Kanadamanna hins vegar, eins og fram kemur í greinargerð, að hægt sé að nota þetta sem beitu til þess að fá jafnframt möguleika á að selja fullunna síld, þá er sjálfsagt að líta á slíkt. En ég vil vekja athygli á því að ef þessi nefnd á að sinna því hlutverki sínu að hugsa sérstaklega um atvinnusköpun, þá verður að staldra við þetta atriði.
    Hvað verndunarsjónarmið varðar þá tek ég undir með hv. 1. flm. að við þurfum að athuga gaumgæfilega hvaða veiðarfæri eru á ferðinni og hvaða skaða þau geta valdið eða ekki. Við höfum að sjálfsögðu hörmulega reynslu af þeim skaða sem ofveiði er og ég held að það sé þá hollara að fara frekar of hægt en of hratt af stað ef norsk-íslenski síldarstofninn er að rétta úr kútnum eða ef það eru teikn á lofti um það eins og nýjustu fréttir herma.
    Það er eitt varðandi vinnsluna sem ég held að skipti miklu máli og það er að kortleggja og gera sér grein fyrir mörkuðunum því það hefur viljað brenna við að jafnvel þótt fyrirtæki í landi hafi verið reiðubúin til þess að taka síld í vinnslu þá hefur það staðið vinnslunni mjög fyrir þrifum að það er ekki hægt að skipuleggja verkið sem skyldi vegna þess að ekki er fyrir fram vitað fyrir hvaða markað er farið að vinna. Smekkur kaupenda okkar er nefnilega mjög misjafn. Það er ekki sama hvort verið er að vinna fyrir t.d. Rússlandsmarkað eða Svíþjóð og þetta þarf að vita í upphafi. Ég vil því gjarnan fá að bæta því við til athugunar fyrir sjútvn. sem tekur þetta mál til umfjöllunar þar get ég nú komið að málinu raunar. Ég vil varpa því fram að það verður jafnframt að vera til ákveðin kortlagning á mörkuðum þannig að hægt verði að hefja vinnslu þegar síld berst að landi. Það getur líka orðið til þess að gott hráefni fari í bræðslu ef það er ekki klárt fyrir hvaða markað er verið að vinna. Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að um þetta eru frekar nýleg dæmi, ekki nema nokkurra ára gömul, þar sem ekkert var að vanbúnaði, það var vitað af mörkuðum en ekki til nákvæm kortlagning af því hvað þurfti að taka mikið á hvern markað. Auðvitað veit ég að það er ekki hægt að ganga frá þessu svo að óyggjandi sé, en ég er alveg sannfærð um að hægt er að gera betur í þessum efnum heldur en gert hefur verið.
    Að öðru leyti vil ég í megindráttum lýsa stuðningi mínum við þessa tillögu og vona að hún fái vandaða umfjöllun innan hv. sjútvn.