Nýting síldarstofna

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 16:07:26 (1162)

[16:07]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Það er rétt sem fram hefur komið í máli hv. þm. sem talað hafa í þessari umræðu að það er ástæða til að hafa nokkrar áhyggjur af því hversu stór hluti af síldinni fer til mjölvinnslu og lítill til manneldis. Fyrir þessu eru margar ástæður en auðvitað fyrst og fremst sú að verð fyrir manneldissíld er mjög lágt og það er meginástæðan fyrir því að stór hluti af síldinni hefur farið til mjölvinnslu. Síldarmarkaðir hafa hrunið eins og Rússlandsmarkaðurinn og verð er mjög lágt víðast hvar á Evrópumarkaði. Evrópubandalagið hefur bannað mjölvinnslu á síld sem aftur leiðir til þess að það er mjög mikið framboð af manneldissíld og verðinu haldið þannig niðri. Allar þessar aðstæður hafa áhrif á stöðu mála hér hjá okkur.
    Við ráðgerum að það verði veiddar um 110 þús. lestir af síld. Það er ráðgert eða áætlað að það þurfi um 45 þús. lestir til manneldis. Á síðustu vertíð vantaði um 5 þús. lestir til þess að unnt væri að salta upp í gerða samninga. Ráðuneytið hefur fyrir sitt leyti kallað saman til fundar í ráðuneytinu bæði kaupendur og seljendur til þess að ræða þetta vandamál. Við höfum haldið fjóra fundi með aðilum. Ekki hefur fengist ákveðin niðurstaða þannig að menn hafi komið auga á einhverja einfalda lausn en viðfangsefnið hefur verið rætt mjög ítarlega. Það var ákveðið á þessum fundum að setja á fót sérstakan hóp með fulltrúum kaupenda og seljenda til þess að fylgjast með þróuninni og koma á framfæri upplýsingum um framboð og eftirspurn og ég geri ráð fyrir því að frá þessum hópi komi einnig tillögur um aðgerðir ef þeirra er talin þörf. Það varð einnig niðurstaða á þessum fundum að hvetja til þess að menn leituðu eftir föstum viðskiptasamböndum til að tryggja síld til vinnslu.
    Á því eru annmarkar að setja ákveðnar reglur um það hversu miklu megi landa til mjölvinnslu. Í gildandi lögum eru ekki heimildir þar að lútandi og ég hygg að flestir sjái á því mikla annmarka að framkvæma þessi mál með þeim hætti, enda hefur það reyndar komið fram hér í ræðum manna eins og ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e.
    Hugmyndir hafa komið fram um einhvers konar bónus í kvótaúthlutunum ef menn lönduðu til manneldis. Það þarf auðvitað að skoða ýmsar hliðar á því máli. Kallar það á að það þurfi að tryggja að allir eigi sama rétt á að landa síld til manneldis? Hvernig ætti þá að tryggja það ef jafnræði ætti að gilda í þessu efni, hvernig færi með verðlagningu á þvinguðum viðskiptum? Yrði að hverfa frá frjálsri verðmyndun og taka upp gamla lagið um miðstýrðar verðákvarðanir? Ýmis atriði af þessu tagi yrði að skoða í þessu sambandi.

En á það er að líta að gert er ráð fyrir því að nú hafi veiðst um 60 þús. lestir og þar af um 20 þús. farið í söltun og frystingu. Af þeim 50 þús. lestum sem óveiddar eru, eru 40 þús. lestir í höndum aðila sem eru einnig að einhverju leyti eða öllu að vinna síld. 40 þús. lestir af þessum 50 þús. sem eftir eru, eru í höndum aðila sem vinna síld til manneldis og þá er auðvitað stór spurning, á að þvinga þessa aðila til að vinna síldina með öðrum hætti en þeir telja hagkvæmast hverju sinni? Þessir aðilar ráða yfir þetta miklu magni af því sem eftir er óveitt af síldarkvótanum og geta þess vegna ráðstafað kvótanum til vinnslu ef þeir kjósa svo. En verðlagið skiptir hér auðvitað miklu máli. Það er algengast að menn fái 9 eða 10 kr. fyrir hvert kg af landaðri síld til manneldisvinnslu, en 5,50--6 kr. fyrir síld sem landað er til mjölvinnslu. Þess munu vera einhver dæmi nú upp á síðkastið að síldarbátar hafa fengið viðbótarkvóta ef þeir hafa landað síld til mjölvinnslu. Í raun og veru eru menn þá að tala um í framkvæmd alveg öfugt kerfi við það sem menn hafa verið að tala um hér, að hvetja menn til þess að landa til manneldis. Og þegar þannig stendur á, þá er orðinn lítill verðmunur fyrir sjómennina.
    Það er líka rétt sem hér kom fram hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. að stundum stendur síldin þannig að það þarf einfaldlega stærri og öflugri skip til þess að ná henni en gömlu hefðbundnu síldarbátana. Þess er líka að gæta að línutvöföldunin hefur hvatt síldarbátana til þess að hverfa frá síldveiðum þegar línutvöföldunartímabilið hefur byrjað. Það er því að ýmsu að hyggja í þessu efni en á það er að líta líka að á ýmsum stöðum hefur gengið nokkuð vel að fá síld til manneldis. Á Eskifirði hefur mikill meiri hluti síldarinnar farið til manneldisvinnslu og á Höfn í Hornafirði hefur mikill meiri hluti síldarinnar farið til manneldisvinnslu og eins í Vestmannaeyjum. Verulega stór hluti síldarinnar hefur farið til manneldisvinnslu í Neskaupstað, þó meiri hlutinn hafði farið í mjölvinnslu. Á ýmsum stöðum hefur því gengið nokkuð vel að fá síld til manneldisvinnslu.
    Ráðuneytið hefur fyrir sitt leyti viljað leita leiða í þessu efni og með stöðugum fundum með þessum aðilum reynt að koma því á þann veg að sem stærsti hluti síldarinnar færi til manneldisvinnslu. Og ég má segja að það hafi tekist gott samstarf að þessu leyti á milli kaupenda og seljenda þó að það hafi ekki leitt til þess að fyrir liggi einhverjar einfaldar lausnir á því hvernig tryggja eigi meiri síld til manneldisvinnslu. Ég hygg að þær séu í sjálfu sér ekki til þó að full ástæða sé til að skoða þessi mál frekar.