Nýting síldarstofna

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 16:18:27 (1164)

[16:18]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að hafa stjórn á þessum síldveiðum. Það er mjög mikilvægt að við göngum ekki svo að þessum stofni á nýjan leik að hann hverfi heldur getum við haldið áfram að byggja hann upp. Það hefur komið hér fram í umræðunni að það er engan veginn svo að hægt sé að skella allri skuldinni í þessu efni yfir á loðnuskipin. Þvert á móti hefur komið fram, og hv. 4. þm. Norðurl. e. benti mjög ágætlega á það, að mörg loðnuskipanna hafa tryggt það að við næðum þó síldinni því a.m.k. var það svo um tíma á vertíðinni í fyrra að síldin stóð svo djúpt að hún náðist einfaldlega ekki nema með þessum stóru skipum. Mörg þeirra hafa einnig tryggt að síld hefur komið til manneldisvinnslu, bæði til söltunar og frystingar, og ný tækni við löndun hefur mjög auðveldað þetta. Ég held því að menn verði að horfa á þær aðstæður sem við búum við að þessu leyti og of miklir fjötrar og of rígbundið skipulag getur leitt til takmörkunar sem er óheppilegt fyrir síldarútveginn í heild sinni. Þetta þurfa menn að hafa í huga og gera sér grein fyrir því að meginástæðan fyrir þessum vanda er auðvitað það lága verð sem er á unnum síldarafurðum. En það hefur verið mikil viðleitni til þess að ná hér meiri árangri. Menn eru að vinna að lausnum á þessu í greininni sjálfri og þannig held ég að við verðum að vinna okkur fram í þessu efni.