Nýting síldarstofna

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 16:24:50 (1167)

[16:24]
     Björn Bjarnason :
    Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þessa tillögu. Ég tel að það sé mjög tímabært að menn hugi að því hvernig staðið verður að nýtingu síldarstofnanna þegar fram líða stundir þegar allt bendir til þess að þeir kunni að stækka. Og með skynsamlegri stjórn á undanförnum árum hafi tekist að byggja þá upp og eins og sagt er nú og fréttir eru fluttar af, þá kann norsk-íslenski síldarstofninn að vera að ná sér á strik og kunni að verða veiðanlegur hér fyrr en síðar. Ég tel því að þessi tillaga sé athyglisverð að því leyti að það er hugað, eins og fram hefur komið, að langtímahagsmunum og hugað að því hvernig unnt sé að vinna að þessu máli og vinna að nýtingu síldarstofnanna með sem skynsamlegustum hætti.
    Um efni tillögunnar ætla ég ekki að fjalla sérstaklega, það á eftir að gera það í nefnd. Og hvort það sé skynsamlegt endilega að skipa þriggja manna nefnd til þess að móta þessa stefnu og annað verður fjallað um sérstaklega í nefnd, en ég tel að það sé athyglisvert að þessu máli er hreyft hér.
    Ég vil aðeins gera einn þátt þess að umtalsefni sem ekki kemur beint fram í tillögugreininni sjálfri heldur í greinargerðinni og þá spurningu sem kannski hlýtur að vega þyngst ef menn huga að nýtingu síldarstofnanna og hvort veiða eigi síld til manneldis eða annarrar vinnslu. Það þarf náttúrlega að huga að markaðsöfluninni og hvernig að henni sé staðið og hvort það sé ekki jafnbrýnt og það að setja ákveðnar reglur hér innan lands varðandi nýtinguna, að menn hafi sem víðasta og besta markaði til þess að geta selt þessa mikilvægu afurð okkar á.
    Ég sé hér í greinargerðinni að flm. vekja athygli á því að Rússar hafi verið stærstu kaupendur okkar á síldarafurðum og það er rétt. En það sem ég vil vekja athygli á, og er það erindi sem ég geri mér hér upp í ræðustólinn af þessu tilefni, er að það eru að opnast markaðir í Evrópu vonandi með aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu og einnig í Eystrasaltsríkjunum, sjálfstæðir markaðir sem við ættum að huga að og nýta í þessu sambandi. Við skulum muna eftir því að á sínum tíma, fyrir nokkrum öldum, þá voru viðskipti með síld forsenda þess að hið mikla samstarf, sem kennt er við Hansasambandið, í viðskiptum hófst og byggðist á þeim grunni að menn áttu þar viðskipti með síld og það voru þjóðirnar við Eystrasalt, í norðurhluta Þýskalands og við Eystrasalt, sem stunduðu þau viðskipti og stóðu að Hansasambandinu. Nú eru þessar þjóðir að taka saman höndum að nýju í viðskiptamálum og viðskipti á milli þeirra eru að stóraukast og þær hafa stofnað til margvíslegra samskipta sín á milli til þess að stuðla að innbyrðis viðskiptum. Mér finnst að við Íslendingar ættum að huga að því að tengjast þessu samstarfi sem best og með þeim hætti að við eigum þar greiðan aðgang að mörkuðum og þá ekki síst vonandi fyrir síld og að síldin geti að nýju orðið sú uppistaða í viðskiptum á þessu svæði sem hún var á tímum Hansasambandsins sem flosnaði upp árið 1669, eins og menn e.t.v. muna. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að huga að því við framtíðarstefnumótun varðandi síldveiðar að nýta okkur þau tækifæri til markaðsöflunar sem eru að skapast á þessum slóðum og við tökum þátt í því samstarfi sem fer fram á milli Eystrasaltsríkjanna

og snýst ekki síst um verslun og viðskipti og að gera það svæði að vaxtarsvæði í viðskiptamálum. Þar gegna Þjóðverjar sérstöku hlutverki, ríkin í norðurhluta Þýskalands, bæði í vesturhlutanum og austurhlutanum. Ég vil hvetja hv. sjútvn. til þess að huga að þessu máli þegar hún fjallar um þetta atriði og einnig vildi ég leyfa mér við þessar umræður að spyrjast fyrir um það hjá hæstv. sjútvrh. hvort það hafi verið sérstaklega hugað að því af hálfu stjórnvalda að Íslendingar tengdust þessu nýja samstarfi sem er að takast á Eystrasaltssvæðinu á milli þjóða um viðskiptamál. Og ef svo er ekki, hvort það væri þá vilji til þess af hálfu sjútvrh. að beita sér fyrir því að við ættum aðild að því og markvisst yrði unnið að því að afla þar markaða fyrir einmitt síld og síldarafurðir. Því þetta er hið gamla og sögulega markaðssvæði sem var helsta síldarneyslusvæðið fyrr á öldum og vafalaust eru tækifæri til þess að byggja þar upp markaði að nýju og skapa þar góða og haldgóða markaði fyrir þessa mikilvægu afurð okkar.