Nýting síldarstofna

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 16:35:52 (1171)

[16:35]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka flm. fyrir að hreyfa þessu máli þar sem öllum er ljóst að hér er um mjög mikilvægt mál fyrir okkur að ræða, þ.e. vinnsla á þessum verðmæta fiskstofni við þær aðstæður sem við búum nú við að helsta von okkar til bættrar afkomu er að vinna og nýta sem best þær afurðir sem hægt er að afla í landinu.
    Það hefur verið bent á að það er ýmsum annmörkum háð að skipuleggja þetta svo að því markmiði verði náð, að allir möguleikar verði nýttir. Það má samt sem áður ekki gefast þar upp. Hæstv. sjútvrh. hefur lýst því að þetta mál hafi verið rætt við hagsmunaaðila á vegum sjútvrn. og verið þar til skoðunar og umfjöllunar, eins og hann orðaði það. En ég vil þá hvetja hæstv. ráðherra til þess að gefast ekki upp heldur vinna að því að árangur verði.
    Þessi umræða kemur gjarnan upp um þetta leyti árs þegar hávertíðin er og menn óttast að fari eins og í fyrra, að ekki fáist nægilegt hráefni til að vinna þannig að mest verðmæti fáist fyrir þjóðarbúið. Það má búast við því að erfitt verði að setja einhverjar nýjar reglur sem eiga að gilda fyrir þessa vertíð. Ég vil beina því til hæstv. ráðherra að málið falli ekki niður þó að þessari vertíð ljúki, heldur verði unnið að málinu þannig að það sé ekki tímaskorti um að kenna fyrir næstu vertíð að ekki náist árangur. Þessi tillaga gerir einmitt ráð fyrir því að þannig verði unnið.
    Það hefur komið fram að hörð barátta er á mörkuðum. Þar þarf að gæta þess að leita allra leiða til að koma okkar vöru á framfæri og hljóta allir að taka undir það. Ég veit ekki hvort við getum skapað okkur einhverja sérstöðu fyrir þá síld sem veidd er í hafinu í kringum Ísland. Í fljótu bragði getur maður ætlað að það sé hreinni afurð heldur en sú sem veidd er við strendur Evrópu og ekki fjarri þeim fljótum sem bera mengun þar til sjávar. Við vitum að það er ört vaxandi áhersla lögð á að afurðir séu sem hreinastar og við verðum að vona að okkur takist í samvinnu við aðrar þjóðir að koma í veg fyrir mengunarslys í hafinu í kringum landið og þá vonast ég til að það geti orðið okkur til framdráttar á þessu sviði í framtíðinni.