Nýting síldarstofna

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 16:49:26 (1173)

[16:49]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Ég vil aðeins vegna þeirra orða sem hv. síðasti ræðumaður hafði um samninginn um EES, þótt ég ætli ekki að setja neinar deilur um það mál hér, það er algjörlega ástæðulaust, þá hef ég ekki þau nákvæmu gögn við höndina sem við fengum varðandi síldina í þeim samningum. En það er náttúrlega of sterkt að orðið kveðið hjá hv. þm. þegar hann segir að ekkert hafi breyst með aðildinni að EES. Það var liðkað til varðandi sölu á síld en þó voru vissar vinnsluaðferðir og söltunaraðferðir og notkun á vissum efnum, það náðist ekki alltaf fram sem við kannski vildum. Ég tel þó að það hafi verið liðkað til í viðskiptunum með síld með EES-samningnum. Auk þess er náttúrlega sjálfsagt fyrir hv. ræðumann að minnast þess sem kom fram í ræðu hæstv. sjútvrh. að Evrópubandalagið fylgir svipaðri stefnu í þessum málum og hv. þm. vill að við tökum upp, að síld má bara veiða til manneldis á því svæði, þannig að þar er beinlínis stjórnað með þeim hætti að bannað er að veiða síld nema hún sé nýtt til manneldis. Það er kannski það fyrirkomulag sem hv. þm. kýs helst, en ég held að við hljótum að sættast á að það sé ekki skynsamlegt fyrir okkur og hefur að vissu leyti skapað okkur nokkur vandkvæði vegna aukinnar samkeppni á þessu sviði. En ég vildi aðeins minna á að í samningunum um EES náðist nokkur breyting okkur til hagsbóta, þó ekki næðist allt fram sem við kysum.