Nýting síldarstofna

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 16:51:15 (1174)

[16:51]
     Flm. (Jóhann Ársælsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér láðist að nefna þetta atriði sem hv. 3. þm. Reykv. nefndi síðast. Það er alveg hárrétt hjá honum, ég er alls ekki á EB-línunni í þessu máli. Ég tel að við eigum að nýta okkur þann hluta síldarstofnsins sem við ekki nýtum til manneldis og teljum að við megum nýta, við eigum að nýta hann auðvitað í mjölvinnslu og það er ekkert sjálfsagðara en að gera það. Bann við nýtingu til annars en manneldis er að mínu viti mjög óskynsamlegt frá okkar hálfu. Ég tel þá leið reyndar ekki koma til greina. En ég tel

að hömlur komi til greina og við þurfum mjög nauðsynlega að snúa því við sem virðist vera núna að það sé beinlínis nánast hvatning til loðnuskipanna að verða sér úti um síldarkvóta og landa í bræðslu. Málin standa þannig núna og langstærsti hluti síldarinnar sem veiddur er hefur farið á milli, frá þessum bátum yfir til loðnuskipanna og verið landað til bræðslu.
    En ég verð að viðurkenna að mitt minni er ekki svo gott nákvæmlega hvernig það endaði með þessa síld í EES-samningunum. En ég man þó að undir lokin var mjög mikil gagnrýni frá þeim sem hér vinna síld og selja, vegna þess að þeir töldu að þeirra hagsmunir hefðu verið gjörsamlega fyrir borð bornir í samningunum. Ég varð bæði var við það beint frá þeim aðilum og sá það í blöðum og umfjöllun um EES-málið að þar fannst mönnum að við stæðum nánast í sömu sporum og þess vegna hafði ég þau orð hér um. En til þess að vita það nákvæmlega þurfum við auðvitað að fletta upp á samningunum og fara yfir það hvað hefur breyst.