Nýting síldarstofna

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 16:57:58 (1176)

[16:57]
     Flm. (Jóhann Ársælsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hæstv. sjútvrh. gerði mér upp orð áðan. Ég gerði ekki lítið úr hagsmunaaðilum sem eiga þarna hlut að máli, ég sagði einfaldlega að ég teldi að það ætti einmitt að hafa við þá samráð um þessi mál. En ég vakti athygli á því sem ég tel að íslensk stjórnvöld þurfi að hafa meira í huga en þau hafa gert á undanförnum árum, það verður auðvitað að meta afstöðu hagsmunaaðila út frá þeim sporum sem þeir standa í. Menn hafa gengið allt of langt í því við afgreiðslu mála á hv. Alþingi og í ríkisstjórnum undanfarinna ára að ganga þá götu sem hagsmunaaðilar hafa sagt þeim að ganga. Það er mín skoðun og þá sérstaklega í sambandi við sjávarútvegsmál, alls ekki þau mál sem við erum að ræða hér núna, þ.e. nýtingu síldarstofnanna. En ég tel að það sé full ástæða til þess að gæta að sér og það eigi menn að gera þegar verið er að fjalla um mál af þessu tagi.
    Hæstv. ráðherra sagði að menn teldu ekki ástæðu til að grípa inn í nú til þess að stjórna þessum málum sérstaklega fyrir veturinn í vetur. Ég vonast til þess að það reynist vera rétt hjá honum og ætla alls ekki að halda því fram að það eigi að gera það, það hef ég ekki sagt í dag. Ég tel að menn eigi að meta aðstæður og þessi tillaga snýst ekki um vertíðina í vetur fyrst og fremst heldur um framtíðina og ég tel að það sé um hana sem við eigum að tala. Ég fagna því að hæstv. ráðherra upplýsir það að hann hafi opnað á þann möguleika við Rússa að semja við þá með öðrum hætti en menn hafa fallist á að ræða fram að þessu um skipti á loðnu og síld við þá. Þó að þeir hafi ekki tekið undir það nú þá get ég vel ímyndað mér að það hafi verið vegna þeirra aðstæðna sem hæstv. ráðherra var í, þ.e. rétt eftir að deilan um Smuguna hófst, og það kann vel að vera að það breytist og vonandi fyrr en varir.