Vegasamband allt árið milli Austurlands og Norðurlands

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 17:07:32 (1178)

[17:07]
     Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Í fjarveru 1. flm. ætla ég að mæla fyrir þessari till. til þál. á þskj. 100 um vegasamband allt árið milli Austurlands og Norðurlands. Flm. eru, eins og áður hefur komið fram, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og ræðumaður. Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að láta Vegagerð ríkisins gera athugun á tengingu Austurlands og Norðurlands með öruggu vegasambandi allt árið um byggðir á Norðausturlandi og um Vopnafjörð, með jarðgöngum undir Hlíðarfjöll.
     Við athugun málsins verði haft samráð við heimaaðila í báðum landshlutum og lokaáliti skilað til Alþingis fyrir 1. október 1994.``
    Það er engin deila um það að mikil þörf er á því að bæta vegasamband milli Austurlands og Norðurlands og hefur iðulega verið til umræðu á undanförnum árum. Núverandi vegur yfir fjöllin er afar langt frá því að uppfylla þær kröfur sem gera verður um þjóðbraut milli landshluta. Eins og menn þekkja þá liggur hann á löngum köflum í 500--650 m hæð yfir sjávarmáli og tiltölulega litlu hefur verið til hans kostað um áratugi þangað til núna á þessu ári og hinu síðasta.
    Afleggjari liggur svo frá þessum vegi til Vopnafjarðar skammt austan við Möðrudal, sem kemur af þjóðleiðinni yfir fjöllin skammt austan við Möðrudal og er sá leggur um 70 km langur. Hann nýtist hins vegar lítið þeim byggðum sem norðar liggja og eru ekki öruggar samgöngur um hann yfir vetrartímann fyrir Vopnfirðinga.
    Heilmiklar umræður hafa farið fram um það á undanförnum árum hvernig vænlegast væri að tengja Norðurland og Austurland og hvernig væri best að haga vegasamgöngum á norðausturhluta landsins. Hefur þá ekki síst stærsta byggðarlagið á þessu svæði, Vopnafjörður, komið inn í þá umræðu og samgönguhagsmunir þess. Eðlilega hafa Vopnfirðingar sem hluti af Austfirðingafjórðungi lagt mikla áherslu á að fá sínar samgöngur bættar í austurátt, yfir á Hérað, en einnig hafa samgöngur þeirra við nágrannabyggðirnar í norðri og tenging þeirra inn á hringveginn, eða þjóðveg 1, verið til umræðu.
    Þingmenn Austurlands komu því til leiðar að starfshópur komst á laggirnar, skipaður fulltrúum frá Vegagerð ríkisins, og athugaði ýmsa möguleika í vegasambandi á þessum slóðum og skilaði um það áliti í apríl í 1990. Ber sú skýrsla heitið ,,Vegasamband byggða á Norðausturlandi`` og þar er að finna ýmsan fróðleik um þessi mál sem vísa má í. Síðan má nefna að ákveðin endurbót hefur farið fram á vegasambandi milli Vopnafjarðar og Héraðs í gegnum framkvæmdir á Hellisheiði undanfarin sumur þó að ljóst sé öllum sem til þekkja að þær framkvæmdir nægja ekki til að skapa mönnum heilsárssamgöngur og því brenna áfram á mönnum spurningar um varanlega framtíðarúrlausn sem í reynd er nokkuð ljóst að fæst ekki í þessu tilviki nema með jarðgöngum á milli ofangreindra byggðarlaga, þ.e. Héraðs og Vopnafjarðar. Síðan hafa komið fram hugmyndir á þessu ári um að skynsamlegt gæti verið að heilsárstenging Norður- og Austurlands lægi um Vopnafjörð með þeim hætti að jarðgöng kæmu til frá Héraðinu og í Vopnafjörð og síðan lægi þjóðleiðin áfram vestur, annaðhvort með ströndinni yfir Öxarfjarðarheiði og Reykjaheiði sem þá yrðu byggðar upp og áleiðis til Akureyrar eða þá upp úr Vopnafirði yfir að Grímsstöðum á Fjöllum og inn á þjóðveginn þar. 1. flm. þessarar tillögu skrifaði um þetta atriði ágæta blaðagrein sem birtist m.a. í Tímanum og Degi á sl. sumri og má vísa til

hennar um hugmyndir í þessu sambandi.
    Þá ber að nefna að samtök sveitarstjórna í báðum kjördæmum, bæði SSA, Samtök sveitarfélaga á Austurlandi, og Eyþing, samtök sveitarstjórna í Norðurl. e., hafa ályktað um nauðsyn þess að gerð verði úttekt á þessari tengingu Norðurlands og Austurlands. Í grófum dráttum er ljóst að möguleikarnir sem til skoðunar eru eru þrír, þ.e. leiðin með ströndinni um Norðausturland og Vopnafjörð og þá með í framtíðinni jarðgöngum undir Hellisheiði eða Hlíðarfjöll. Þar er Jökuldalsheiðin og fjöllin, þ.e. í grófum dráttum núverandi þjóðvegur 1 eins og hann liggur yfir Möðrudalsöræfi og Jökuldalsheiði. Í þriðja lagi tilbrigði við það stef sem væri leið um Vopnafjörð og Einbúasand til Grímsstaða. Ástæða fyrir því að flm. leggja á það mikla áherslu og leggja til að athugaður verði vandlega fyrsttaldi kosturinn er einfaldlega sá að áður en lagt er í kostnaðarsamar framkvæmdir á þessu svæði er að okkar mati alveg óhjákvæmilegt að vandleg úttekt fari fram á samgönguhagsmunum þessa svæðis í heild sinni og einstakra byggðarlaga sem þar liggja, hvernig þeim verði best fyrir komið og koma þá inn til skoðunar samgönguhagsmunir norðaustursvæðisins allt frá Húsavík til og með Vopnafirði. Á því svæði búa um 2.500 íbúar og þess vegna hlýtur af sjálfu að leiða að mikilvægt er að þeir kostir sem valdir verða nýtist þessu landsvæði. Í öðru lagi ber að nefna sérstaklega samgönguvandamál Vopnfirðinga sem lengi hafa verið erfið úrlausnar og í þriðja lagi og ekki síst er það alveg ljóst að ýmsir kostir fylgja því ef það reynist farsæl eða ásættanleg leið að velja leiðina með ströndinni. Má þar margt til nefna, svo sem það að verulegur kostnaður mundi sparast við það að aðeins yrði þá haldið opinni einni leið í stað tveggja milli landshluta og þetta er þá borið saman við það að jafnframt yrði byggður upp vegur yfir fjöllin og honum haldið opnum með vetrarþjónustu allt árið. Það er alveg ljóst að stofnkostnaður við lagfæringar og uppbyggingu á vegi yfir fjöllin yrði til muna lægri ef ekki yrði stefnt þar á heilsársveg. Af sjálfu leiðir að það að byggja upp öruggan heilsársveg í jafnmikilli hæð yfir sjó og þarna á í hlut, 500--650 metra hæð eða a.m.k. milli 500 og 600 metra jafnvel þó fjallgörðunum yrði sleppt, er mjög kostnaðarsamt fyrirbæri. Jarðgöng sem þar með mundu varanlega leysa tengingu Vopnafjarðar og Héraðs yrðu auðvitað arðbærari framkvæmd og kæmust væntanlega framar í forgangsröð slíkra verkefna ef þau þjónuðu jafnframt tilgangi sem hluti af heilsárstengingu Norðurlands og Austurlands. Og síðast en ekki síst ber auðvitað að nefna hina almennu samgönguhagsmuni norðaustursvæðisins, allrar leiðarinnar frá Suður-Þingeyjarsýslu eða Húsavík gegnum Norður-Þingeyjarsýslu og Norður-Múlasýslu yfir á Hérað. Það skiptir auðvitað gífurlegu máli að ná þeim samgöngubótum og þeirri þjónustu sem því mundi fylgja að þessi leið yrði valin sem aðaltengileið milli landshluta.
    Á móti kemur að sjálfsögðu sem gjarnan er bent á að þessi leið verður óhjákvæmilega nokkuð lengri eða væntanlega um 100 km lengri heldur en stysta leið yfir fjöllin og engin tilraun er gerð til þess að draga dul á það af hálfu okkar flm. en reynslan sýnir að þegar komnir eru vel uppbyggðir vegir með bundnu slitlagi, þá mikla menn oft fyrir sér vegalengdirnar í þessu sambandi borið saman við hitt að samgöngurnar séu öruggar, það séu forsendur til að halda uppi heilsársþjónustu og tryggja að jafnvel um hávetrartímann haldist leiðirnar færar. Þetta eru að okkar mati allt kostir sem leið 1 hefur fram að færa. Það er ljóst að sú leið færi óvíða yfir 200 metra hæð yfir sjó nema á örstuttum köflum. Hún liggur að langmestu leyti um byggð og á láglendi, stóran hluta leiðarinnar við sjó og er þar af leiðandi auðveldari viðfangs hvað alla þjónustu og vetrarviðhald snertir. Til vara mætti svo líta á leiðirnar fyrir Melrakkasléttu og Tjörnes sem öryggisleiðir í mestu snjóavetrum en þar liggur a.m.k. hvað Melrakkasléttu varðar er þegar fyrir hendi uppbyggður vegur sem tiltölulega lítilla lagfæringa er þörf á.
    Þessa kosti er að mati okkar flm. nauðsynlegt að bera rækilega saman. Það hefur ekki verið gert, a.m.k. ekki með sambærilegum hætti og valkostir í samgöngumálum Vopnfirðinga hafa verið rækilega skoðaðir og bornir saman. Þessa vinnu á eftir að vinna hvað varðar tenginguna milli landshlutanna og hvað varðar sem sagt samgöngumynstrið á norðausturhorni landsins.
    Nú er það svo að þetta verkefni, að tengja Norðurland og Austurland, er eitt af

stærri verkefnum sem eftir eru í almennri vegagerð í landinu. Þarna er um að ræða alllanga leið svo að skiptir hundruðum km og vegurinn þarfnast nánast allur uppbyggingar, þ.e. ef efri leiðin væri farin og þetta er jafnframt það svæði landsins þar sem lengstu vegalengdirnar eru á þjóðvega- eða stofnbrautakerfi án þess að þar sé bundið slitlag. Þarna er því um mikið verkefni að ræða, milljarðaverkefni sem nauðsynlegt er að undirbúa vel áður en ráðist er þar í kostnaðarsamar framkvæmdir. Stór hluti þessa kostnaðar lendir hver leiðin sem valin er í Austfjarðakjördæmi eða fellur til þeim megin kjördæmismarka þó svo að einhverju leyti kynni að takast samkomulag um að þessi framkvæmd yrði meðhöndluð með sérstökum hætti og þá sem stórverkefni eða eitthvað í þeim dúr. En þeim mun traustari forsendur sem eru fyrir hendi í ávörðunartöku í þessu máli, þeim mun betra að okkar mati. Og ég vil þess vegna leyfa mér að vona að um þessa tillögu geti tekist góð samstaða hér á þinginu og ekki síst í hópi þingmanna viðkomandi kjördæma sem eðlilega hafa umfram aðra sérstakan áhuga á úrlausnarefni þessa máls þar sem hlýtur að koma inn í það hlutverk sem þeir hafa með höndum sem vinnuhópar er varðar skiptingu vegafjár á sínum svæðum.
    Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að lokinni þessari umræðu, hæstv. forseti, að tillögunni verði vísað til síðari umr. og hv. samgn. og vænti þess og treysti því að hún fái þar góða og greiða umfjöllun.