Vegasamband allt árið milli Austurlands og Norðurlands

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 17:20:56 (1179)

[17:20]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Mig langar að segja nokkur orð í sambandi við þá tillögu sem hér er flutt vegna þess að það kom fram hjá hv. frsm., hv. 4. þm. Norðurl. e., að kostirnir hefðu ekki verið rækilega skoðaðir sem hér eru tilgreindir, en sannleikurinn er sá, eftir því sem ég best veit, að nefnd er að störfum hjá Vegagerðinni sem er einmitt að fjalla um tengingu Norður- og Austurlands og hún mun skila af sér núna í vetur. Og auk þess get ég sagt frá því að hv. 1. þm. Austurl. og hv. 1. þm. Norðurl. e. hafa verið að undirbúa fundi eða fund með Vegagerðinni þar sem tækju þátt þingmenn beggja kjördæma og jafnvel að sá fundur yrði haldinn einhvers staðar á svæðinu og þá á vordögum þannig að hv. þm. gætu virkilega sett sig niður í málið og skoðað aðstæður. Það er rétt sem hv. frummælandi segir að hér er um mjög stórt mál að ræða og mikilvægt að það sé skoðað gaumgæfilega áður en ákvarðanir eru teknar, en mér finnst að það liggi nú nokkuð ljóst fyrir að sá vegur sem nú eru hafnar framkvæmdir við, þ.e. þjóðvegur 1 yfir Mývatnsöræfi og fjöllin, sá vegur verði byggður upp. En hins vegar hefur mér skilist á hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni og reyndar las ég blaðagrein hans að hann er að velta því fyrir sér að sá vegur yrði ekki heilsársvegur heldur frekar vegurinn með ströndinni sem er óneitanlega miklu lengri, en hann mundi að sjálfsögðu eins og allir sjá nýtast Norðurl. e. miklu betur. Þarna er verið að tala um að fara yfir heiðar sem varla er hægt að segja að sé nokkur vegur á í dag, Öxarfjarðarheiði og Reykjaheiði og það er því alveg ljóst að það er gífurlega kostnaðarsamt að koma því vegasambandi á. Eins er verið að tala um jarðgöng í gegnum --- ja, nú er ég ókunnugri á Austurlandi, en það sem við köllum Hellisheiði, ég veit ekki hvort fjallið ber eitthvað annað nafn, en það er alla vega verið að tala um að til þess að um heilsársveg geti verið að ræða þurfi að fara í jarðgöngum þar í gegn og það er náttúrlega mjög stórt mál. Eftir því sem ég best veit er ekki komin nein niðurstaða í það mál hjá Austfirðingum hvar þeir vilja hafa sín fyrstu jarðgöng og mér þykir ekki ólíklegt að næstu jarðgöng verði á Austurlandi, en það er ekki þar með sagt að það verði samstaða um það á Austurlandi að það verði endilega undir Hlíðarfjöll/Hellisheiði sem er um 600 metra hátt fjall. Um heilsársveg getur því ekki orðið að ræða með ströndinni nema það séu komin jarðgöng og það finnst mér stóra málið og stóri óvissuþátturinn í þessu máli. Hins vegar er náttúrlega mikilvægt hvað sem verður um Hellisheiðina að vegasamband við Vopnafjörð sé gott. Þær heiðar sem eru á milli Norðurl. e. og Vopnafjarðar eru ekki eins erfiðar viðureignar en þær eru miklu lægri en vegurinn náttúrlega langt frá því að vera nógu góður. Og það vegakerfi sem notast er við í Norður-Þingeyjarsýslan er alveg til háborinnar skammar. Mér finnst nú að þar eigum við svo mikil verk fram undan áður en kemur að Öxafjarðarheiði og Reykjaheiði að þetta sé allt saman dálítið langt frammi í framtíðinni, en ég get þó tekið undir með hv. 4. þm. Norðurl. e. hvað það snertir að auðvitað þarf að skoða þessa kosti ákaflega vel áður en ákvarðanir eru teknar þar sem hér er um milljarða verkefni að ræða.
    Ég vildi fyrst og fremst koma því að hér að það er verið að vinna að þessu máli en hins vegar er alls ekki verra að fá málið til umfjöllunar hér á hv. Alþingi.