Vegasamband allt árið milli Austurlands og Norðurlands

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 17:26:28 (1180)

[17:26]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er athyglisverð tillaga sem hér er að koma fram um að tengja Austurland og Norðurland og einnig nokkuð athyglisvert að hlusta á hv. síðasta ræðumann sem lýsti því átaki sem gert var af hálfu ríkisstjórnarinnar í vegabótum, þá var einmitt tenging Norðausturlands og Austfjarða inni í. Ég hygg að það hafi verið gert án þess að búið hafi verið að fjalla um það nægilega áður og búið að fjalla um það í þingmannahópum eins og venjan hefur verið að þingmenn mótuðu þá stefnu þegar svona stórar vegaframkvæmdir færu fram eða hvar þær ættu að koma.
    Nú þekki ég ekki nægilega til og ætla ekki að blanda mér í þær deilur sem kannski eru uppi um það hvaða leið skuli farin þarna. Miðað við þá teikningu sem fylgir með á fskj. þá sýnist mér að þarna sé verið að tengja þær byggðir sem núna eru algerlega út undan, þ.e. Þórshöfn og Raufarhöfn þó að það nái ekki alveg til Raufarhafnar og síðan Vopnafjörð við Hérað og við aðalþjóðveginn. Þetta eru einmitt byggðir sem hafa farið af mjög bættu vegakerfi á undanförnum árum og þar að auki virðist vegurinn sem þarna kemur ekki vera í mikill hæð yfir sjó, en aftur sá vegur sem við erum að tala um yfir fjöllin er allt að 600 m yfir sjó.
    Nú vil ég minna á það að eftir jarðgöng á Vestfjörðum var rætt um að næst yrði tekið til við jarðgöng á Austfjörðum og einmitt á Vestfjörðum er verið að taka af slíka vegi eins og þarna er verið að tala um að leggja sem heils árs vegi yfir fjöllin, þ.e. í 600 m hæð. Það er einmitt verið að taka slíka vegi af á Vestfjörðum og tengja saman byggðir með jarðgöngum. Við fyrstu sýn, og ég tek það fram að ég hef ekkert skoðað þetta mál svo vel að ég hyggst nú gera það nánar inni í samgn., þá finnst mér það skjóta svolítið skökku við þá stefnu að reyna að taka af þá vegi sem eru í vona mikilli hæð og tengja byggðir á annan hátt, að hér sé verið að leggja til að leggja nýjan veg sem eigi að halda opnum allt árið í þessari hæð. Ég þykist vita það að ekki sé neitt betra veðurfar í vetrarveðrum á þessum öræfum og á þessum heiðum en er á Vestfjörðum, þar sem ég þekki til.
    Það er mjög eðlilegt að þetta sé skoðað rækilega og í raun og veru er frekar ástæða til að harma það ef ríkisstjórnin með samgrh. í broddi fylkingar skuli hafa tekið ákvörðun um að það eigi að fara þá leið sem virðist vera byrjað á núna án þess að þetta sé skoðað nógu rækilega, bæði kostir og gallar við þetta, kostnaður og annað sem verður að koma inn í þegar verið er að ræða um svo stóra framkvæmd sem hér er gert.
    Ég vil að það komi fram að mér finnst dálítið einkennilegt að vera að leggja til að það sé farið að byggja upp nýjan veg í svona mikilli hæð á sama tíma og annars staðar er stefnt að því að leggja slíka vegi af. En ég fæ vonandi tækifæri til að skoða málið betur í samgn. og þar verður það sjálfsagt gert á næstu vikum.