Vegasamband allt árið milli Austurlands og Norðurlands

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 17:31:05 (1181)

[17:31]
     Jón Kristjánsson :

    Virðulegi forseti. Það eru aðeins örfá orð varðandi þetta mál sem hér er til umræðu. Ég átti því miður ekki kost á því vegna skyldustarfa annars staðar í þinginu að hlusta á framsögu fyrir málinu eða umræðuna um það. Það er aðeins eitt atriði sem ég vildi undirstrika. Það hefur vafalaust komið fram í þessari umræðu að það er undirbúningsvinna í gangi varðandi þessa vegatengingu milli Norður- og Austurlands en það hefur verið lögð ný áhersla í því máli upp á síðkastið og það liggur nokkuð ljóst fyrir hvar vegurinn á að liggja austur að Jökulsá að Grímsstöðum enda eru framkvæmdir hafnar á því svæði. En framhaldið er ekki ráðið og það eru ákveðin áform í gangi um samráð og ákvarðanatöku í því efni. Þessi tillaga fellur í sjálfu sér að þeirri vinnu þannig að hún er innlegg í þessa umræðu og mun auðvitað fá meðferð í hv. samgn. og ég hef ekkert nema gott um hana að segja.
    Það sem ég vildi leggja áherslu á er að jafnframt því sem tengingin er leyst milli Norður- og Austurlands þá má ekki gleymast að tengja þá þéttbýlisstaði á norðausturhorninu sem búa illa að samgöngum núna og á ég þá t.d. við Vopnafjörð, Skeggjastaðahrepp eða Bakkafjörð og Þórshöfn og síðan auðvitað Raufarhöfn, en þá á ég einkum við veginn um Brekknaheiði sem hefur orðið út undan á síðustu árum. Það verður auðvitað að huga að lausn í þeim efnum, jafnframt því sem menn finna tengingu milli Norður- og Austurlands til frambúðar. Hvort sú tenging liggur um Vopnafjörð eða ekki er háð því hvaða lausn menn finna til frambúðar á tengingunni milli Vopnafjarðar og Héraðs. Sú lagfæring sem nú er á þeirri leið, þó hún hafi vissulega tekist vel og miklu betur heldur en spáð var fyrir, er ekki tenging um alla framtíð. Eins og hv. 6. þm. Vestf. kom að þá er sá vegur í mikilli hæð og reyndar er tengingin um fjöllin í mikilli hæð. Það skiptir auðvitað miklu máli í heilsárstengingu í hvaða hæð sá vegur er, það þarf ekkert að útskýra það fyrir hv. þm. og það skiptir auðvitað mjög miklu máli þegar leiðir eru valdar.
    Ég ætla ekki á þessu stigi að orðlengja um þetta mál frekar, þessi mál eru í skoðun og ég vil taka það fram að það er í sjálfu sér ekki neinar deilur uppi um þetta mál, það er ætlunin að þingmenn þessara tveggja kjördæma ræði þetta mál, reyni að finna lausn á því. Þetta er stórmál sem ekki er leitt til lykta enn og ég held að sú tillaga sem hér er til umræðu sé gott innlegg í þá umræðu, veltir upp hugmyndum sem auðvitað verða teknar til skoðunar bæði í samgn. og í þeirri vinnu sem þingmenn kjördæmanna eiga fram undan í þessum efnum.