Vegasamband allt árið milli Austurlands og Norðurlands

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 17:36:12 (1182)

[17:36]
     Egill Jónsson :
    Virðulegi forseti. Ég hef ekki neitt við þennan tillöguflutning að athuga og mér er fullkomlega ljóst að hann er tilkominn vegna áhuga flm. á að bæta samgöngur um norður- og austurhorn landsins sem stendur meira út af að takast á við en annars staðar í okkar samgöngukerfi. Hins vegar finnst mér þessi umræða vera nokkuð sérstæð. Hv. 6. þm. Vestf. furðar sig á að það skuli vera til umræðu sérstaklega núna að tengja Austur- og Norðurland um Möðrudalsöræfi til Norðurlands og talar sérstaklega um afstöðu samgrh. og ríkisstjórnarinnar í þeim efnum. Á Alþingi var eins og hv. alþm. væntanlega muna afgreidd vegáætlun á síðasta þingi. Þar voru teknar býsna mikilvægar ákvarðanir. Ég man ekki eftir sérstöðu hv. 6. þm. Vestf. í sambandi við þá afgreiðslu. Þá var tekin ákvörðun um að þessi vegagerð yrði greidd af stórverkefnasjóði og fyrstu framkvæmdirnar hafnar á þessu ári. Á sl. vetri var tekin ákvörðun um það af núv. samgrh. að gera nokkra athugun á því hvernig gengi að halda vegi yfir fjöllin opnum með ruðningi að því er mig minnir einu sinni í viku. Sú ráðstöfun lukkaðist vel.
    Það var líka tekin ákvörðun um að byggja brú á Jökulsá á Dal og þeirri framkvæmd var flýtt og auðvitað er það þáttur í þessum framkvæmdum.
    Á langtímaáætlun, sem eins og aðrar áætlanir hefur ekki verið afgreidd á Alþingi þó hún hafi hins vegar hlotið umræðu í þingmanna- og kjördæmahópum, var hins vegar

gert ráð fyrir því að þessar áherslur yrðu teknar upp árið 2002, á síðasta ári þessarar langtímaáætlunar. Satt að segja þá finnst mér eins og umræðan hefur gengið hér fram að menn séu býsna fastir í þeim áherslum nema ef vera kynni að öðruvísi væri um hv. 2. þm. Austurl. sem greindi rétt frá gangi mála að því er ég veit til. Það er alveg augljóst mál og það liggur fyrir á grundvelli vegáætlunar sem nú er í gildi að það hefur verið tekin ákvörðun um heilsárstengingu milli Norður- og Austurlands um Möðrudalsöræfi og framkvæmdir eru hafnar í þeim efnum. Ég held að það sé að því leyti alveg óþarft að vera með miklar slaufur í kringum þá ákvörðun. Það er svo annað mál hvað framtíðin kann að fela í sér í þessum efnum og ég er vissulega í hópi þeirra alþingismanna eins og væntanlega flm. þessarar tillögu eru líka sem vilja sjá það fyrir að það yrðu gerð jarðgöng til Vopnafjarðar. En það er allt of langsótt og allt of löng bið með að taka ákvarðanir og byggja upp traust samband á milli þessara landsfjórðunga með því að grundvalla það á framkvæmd eins og veggöngum milli Héraðs og Vopnafjarðar.
    Ég held nefnilega að það komi í hlut þessa þings sem nú situr við endurskoðun á vegáætlun sem fer væntanlega fram á næsta þingi að taka ákvörðun um tímasetningu á byggingu eða tengingu þessara tveggja landsfjórðunga og ég vildi mega sjá það fyrir á þeirri vegáætlun sem gildir til ársins 1998 að þá væri fyrir því séð að þessi vegaframkvæmd yrði tímasett og unnin. Það yrði sem sagt ein af meginákvörðunum við næstu endurskoðun að tryggja fjármagn til vegagerðar milli Austur- og Norðurlands um Möðrudals- og Mývatnsöræfi. Mér finnst að það þurfi ekki svo afskaplega miklar slaufur í kringum þá ákvörðun og það þurfi ekki svo afskaplega margar nefndir né heldur afskaplega marga fundi þó ég sé fús að taka þátt í því fundarhaldi. Það er hárrétt sem hér hefur komið fram að Vegagerð ríkisins mun á næsta ári leggja fram tillögur um staðsetningu þessa vegar og það er alveg ljóst mál að þar verða teknar grundvallarákvarðanir um það hvar þessi vegur verður lagður.