Vegasamband allt árið milli Austurlands og Norðurlands

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 17:49:19 (1187)

[17:49]
     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það kom reyndar fram í ræðu hv. 3. þm. Austurl. að þingmannahópurinn á Austurlandi hefur ekki tekið ákvörðun um legu vegarins svo ég þarf í sjálfu sér ekki að endurtaka það. Ég vil aðeins í þessu sambandi endurtaka að það er byrjað að leggja veginn frá Mývatnssveit og austur að Jökulsá á Fjöllum. Ég hef ekki viljað kveða upp úr með vegarstæði áfram vegna þess að þau mál eru enn þá í athugun, hvort vegurinn liggur norðar eða hina hefðbundnu leið um Möðrudalsöræfi. Það er líka til fleiri en ein leið um fjöllin og það hef ég hreinlega viljað ræða þegar sú skýrsla liggur fyrir sem er í vinnslu núna þannig að ég held að það þurfi í sjálfu sér engar deilur um þetta atriði. Það er verið að reyna að finna þarna heppilegustu leiðina og ég vil taka þátt í því, finna þarna bestu lausnina og ég vil ekki kveða upp úr með ákveðna leið fyrir fram fyrr en sú athugun liggur fyrir sem í vinnslu er.