Vegasamband allt árið milli Austurlands og Norðurlands

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 17:51:47 (1189)

[17:51]
     Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka þær umræður sem hér hafa orðið um tillöguna og stuðning sem hún hefur fengið á köflum en ágæt skoðanaskipti að öðru leyti. Ég held að það geti varla sakað að farið sé yfir þessi mál og þá frá þeim sjónarhóli sem hér er lagt til. Engar ákvarðanir eru svo merkilegar, ég tala nú ekki um ef þær hafa ekki verið teknar, að það megi ekki endurskoða þær og ég held að það hljóti að eiga við um þá ákvörðun sem sumir vilja meina en aðrir ekki að hafi verið tekin um það að byggður skuli upp heilsársvegur til að tengja Norðurland og Austurland yfir öræfin. Ég kem betur að því síðar.
    Í fyrsta lagi til að eyða öllum misskilningi varðandi hæð þessa vegastæðis yfir sjó þá liggur það auðvitað fyrir og verður ekki á móti mælt að núverandi þjóðvegur 1 yfir Möðrudalsöræfi og Jökuldalsheiði liggur á yfir 100 km kafla í yfir 300 m hæð yfir sjó, þar af um á 70 km kafla í milli 500 og 600 m hæð, nálgast 600 eða er um 600 þar sem mest er á Möðrudalsfjallgarði. Þó svo að farin verði önnur leið þar á kafla og fjallgörðunum sleppt mun hluti leiðarinnar eftir sem áður lenda yfir 500 m hæð yfir sjávarmáli, það er óhjákvæmilegt ef fara á yfir þetta landsvæði þar sem það liggur hæst og þarf ekki frekari vitna við um það. Sama mundi eiga við ef valin yrði leiðin upp úr Vopnafirði um Einbúasand, þá er óhjákvæmilegt að hún lendi í upp undir 600 m hæð á kafla.
    Varðandi það sem hefur komið fram í umræðunni þá sagði hv. 3. þm. Norðurl. e. að Vegagerðin væri að athuga þessi mál og þess vegna væri einhver nefnd að störfum á hennar vegum. Ég segi þá bara ósköp einfaldlega að ég fagna því þá ef Vegagerðin er að láta líta á þetta sérstaklega en það er þá tiltölulega nýlega til komið, a.m.k. höfðu samtök sveitarstjórnanna ekki frétt af því þegar þau ályktuðu hvor á sínum vettvangi á sl. sumri um þörfina á því að sú úttekt færi fram. Hér má ekki rugla saman því sem til skoðunar hefur verið hjá Vegagerðinni varðandi vegatengingu til Vopnafjarðar sérstaklega, hér er nokkuð annað mál á ferðinni þar sem ætlast er til að heildarsamgönguhagsmunir á öllu norðausturhorni landsins séu teknir til skoðunar.
    Í öðru lagi varðandi sameiginlegan fund sem réttilega kom hér fram að áformað hafði verið að halda þá situr síst á mér að lasta það því í 2--3 ár er ég búinn að óska eftir því að slíkur sameiginlegur fundur þingmannahópa Norðurl. e. og Austurl. yrði haldinn, hann hefur ekki komist á enn þá og ekki meira um það að segja en að sjálfsögðu fagna ég því ef það stendur til að drífa hann á.
    Varðandi samanburð á þessum leiðum og þó kannski fyrst það hvort tekin hafi verið með afgreiðslu síðustu vegáætlunar einhver prinsippákvörðun um það að heilsársvegur verði lagður upp yfir öræfin þá svara ég því neitandi vegna þess að það sem afgreitt var voru tilteknar fjárveitingar á þriggja ára tímabili eða fjögurra til að byggja upp veginn í austurátt, frá Mývatni og austur að Jökulsá. Það þarf ekki að jafngilda því að leiðin verði kláruð og allra síst á núverandi vegastæði ósköp einfaldlega vegna þess að efri brú á Jökulsá á Fjöllum ætla menn sér væntanlega ekki að flytja heldur nota og þá hlýtur vegurinn frá Mývatni að liggja í grófum dráttum þaðan og austur að brúnni. Þess vegna munu þær framkvæmdir sem þar eru á leiðinni nýtast mönnum hvert sem framhaldið verður og hvernig sem þjóðleiðin yfir fjöllin verður nýtt, hvort sem það verður sem heilsársvegur eða að hluta til sem sumarvegur eða átta, níu mánaða vegur eða hvað sem það nú er.
    Ég fullyrði það, sem ég stend hér í þessum ræðustóli, að það hefur ekki farið fram fullnægjandi úttekt á þessum valkostum í tengingu Norðurlands og Austurlands, það hafa ekki farið fram rækilegir útreikningar og samanburðarkannanir á þessum þremur, fjórum mismunandi leiðum. Ég hef hvergi séð á blaði neina útreikninga á því t.d. hver yrði mismunandi kostnaður af vetrarþjónustu á þessum tveimur leiðum. Nú er það svo að þær framkvæmdir sem hér hafa verið nefndar og vissulega kosta peninga eins og jarðgöng undir Hlíðarfjöll til að tengja Vopnafjörð, eins og uppbygging vegarins yfir Öxafjarðarheiði og þess vegna yfir Reykjaheiði. Auðvitað kosta þær peninga en þetta eru allt framkvæmdir sem hvort sem er er verið að tala um ráðast í og munu þá nýtast þeim byggðarlögum sem

að þeim liggja. Það sem mikilvægt er að fá á hreint er í hvaða röð menn ætla að ráðast í þessa kosti og ætla menn að stefna á til framtíðar litið og lengri tíma litið heilsárstengingu Norðurlands og Austurlands leiðina með ströndinni eða yfir öræfin. Auðvitað er enginn að tala um að þetta komi allt í einu vetfangi, hvorki jarðgöngin né uppbyggingin yfir þessar heiðar en það hlýtur að skipta miklu máli þegar menn taka hinar stóru ákvarðanir um það hvaða jarðgöng á Austurlandi verði fyrst og um það hvort ráðist verður í milljarðaframkvæmdir á Möðrudalsöræfum og þá sérstaklega á Jökuldalsheiði þar sem lengsti hluti leiðarinnar liggur og í Austurlandskjördæmi, hvaða framtíðarkost menn eru að stefna á í þessum efnum. Ég hafna því að því hafi verið svarað með fullnægjandi og rökstuddum og ítarlegum hætti að bera þessar leiðir saman. Það hefur ekki verið gert, e.t.v. er verið að vinna að því hjá Vegagerðinni, guð láti gott á vita, en ég bíð eftir því a.m.k. að fá að sjá þá hluti og tel að ég hljóti að hafa nokkra heimtingu á því sem þingmaður í Norðurl. e. að vera hafður a.m.k. með í ráðum. Ég tek að sjálfsögðu ekki mark á því sem stefnumörkun þegar unnið er að þeim hlutum eins og gert var með aukafjárveitingum ríkisstjórnar eða látökum ríkisstjórnar í tengslum við atvinnuskapandi aðgerðir hér á sinni tíð þegar slíkum framkvæmdum til samgöngumála var skipt algjörlega fram hjá Alþingi og samráði þingmannahópa kjördæmanna. Mér kemur það ekki við hvort hugsanlega hafi verið haft samráð við einhverja einstaka hv. stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar úr viðkomandi kjördæmum, það gerir málin verri ef eitthvað er í mínum huga ef þingmannahópunum hefur þannig verið mismunað, að menn hafa verið að makka þetta við einhverja einstaka stjórnarþingmenn en látið stjórnarandstöðuna ekkert vita um það. Það væri verra af tvennu illu heldur hitt að allir þingmenn hefðu verið hunsaðir jafnt. Ef verið er að vísa í eitthvað slíkt hér þá frábið ég mér það.
    Það er vissulega rétt hjá hv. þm. Agli Jónssyni að að svo miklu leyti sem þessir hlutir hafa komið inn í vegáætlun þá er þar um tiltekna stefnumörkun að ræða en hvorki meira né minna en þar er ákvarðað. Það sem var ákvarðað við afgreiðslu síðustu vegáætlunar voru þessar framkvæmdir á Mývatnsöræfunum, frá Mývatni og í áttina austur, en þar var ekki á ferðinni endurskoðun á langtímaáætlun og þar var ekki á ferðinni að mínu mati prinsippákvörðun um vegarstæðið í heild sinni.
    Svona lít ég á málin og ég tel réttast að það liggi alveg tæpitungulaust fyrir.
    Svo er rétt að minna hv. þm. á það að með sama hætti og núv. hæstv. ríkisstjórn hefur á köflum ekki talið sér skylt að starfa í anda stefnumörkunar og tekinna ákvarðana fyrri stjórnar þá gæti það gerst aftur að stjórnarskipti yrðu. Ég er ekki að segja að ríkisstjórnin sem þá kann að taka við völdum verði jafnábyrgðarlaus og sú sem nú situr, gangi jafnlangt í þeim efnum í vissum tilvikum að henda lögmætum og rétt teknum ákvörðunum þar til bærra stjórnvalda sem sátu á undan henni, vonandi ekki, vonandi tekur sú ríkisstjórn sem næst kemur á eftir þessari og fyrr en síðar öðruvísi á málum vegna þess að það er ekki hægt að haga stjórnsýslunni þannig að menn hendi á fjögurra ára fresti öllum ákvörðunum sem teknar hafa verið og allri stefnu, eins og hún sé ónýt. Slíkt á auðvitað ekki að gerast. En þessi ríkisstjórn hefur vissulega unnið sér ýmislegt til óhelgi, sú sem nú situr, varðandi t.d. meðferð stefnumörkunar í málaflokkum eins og vegamálum og það er slæmt og ekki til eftirbreytni og vonandi verðum við þingmenn menn til að láta það ekki endurtaka sig. En ég minni rétt si svona á þetta ef þessir hættir verða almennt teknir upp þá verður auðvitað núv. ríkisstjórn að átta sig á því að hún getur ekki bæði sleppt og haldið. Hún getur ekki annars vegar hent þeim ákvörðunum sem fyrir lágu þegar hún kom til valda en hins vegar ætlast til þess að það sem hún ákveður verði svo virt af þeim sem við taka. Það gengur ekki upp. Það er hugsunarháttur sem á íslensku heitir að reyna bæði að sleppa og halda og gengur aldrei. Það er nú þannig, hv. þm.
    En það sem mér finnst mestu máli skipta í þessu og ætla að ljúka mínu máli á því að segja það, það er að menn séu menn til þess að setjast fordómalaust yfir skoðun á þessum málum. Það held ég að skipti mestu máli. Hér eru mikil hagsmunamál á ferð og ég er ekki viss um að hv. þm. Egill Jónsson hafi ígrundað það nógu gaumgæfilega hvað t.d. sé samgönguhagsmunum Vopnafjarðar fyrir bestu þegar hann hagar máli sínu eins og hann

gerði áðan að reyna að afgreiða málið með því að það þurfi ekki fleiri slaufur og fleiri fundi um þetta mál því í raun og veru séu hinar stóru ákvarðanir þegar teknar.
    Við skulum a.m.k. bíða með að glíma um það þangað til hingað kemur aftur inn á borðið endurskoðun vegáætlunar og þá sérstaklega drög að nýrri langtímaáætlun í vegagerð vegna þess að þetta er langtímaverkefni. Þetta er ekkert sem verður hrist fram úr erminni á einum eða tveimur eða fáeinum árum eða sjá þingmenn Austurl. það fyrir sér að allt það fjármagn sem til þarf af þeirra hálfu, og þó að þetta kæmi úr stórvegasjóði að verulegu leyti, verði til reiðu á einhverjum fáeinum árum? Staðreyndin er sú að í gildandi vegáætlun er engin fjárveiting í þetta verk í Austurlandskjördæmi nema brúna á Jökulsá á Dal. Það stendur ekki til að leggja neitt í uppbyggingu þess hluta leiðarinnar yfir öræfin sem er í Austurlandskjördæmi á þeim fjórum árum eða þremur sem eftir standa af gildandi vegáætlun ef ég man rétt. Ég bið þá hv. þm. sem kunna þetta betur, ef einhverjir skyldu vera, að leiðrétta mig. Ég man að ég gáði sérstaklega að þessu við afgreiðslu síðustu vegáætlunar til þess að sjá hvort samræmi væri í því sem annars vegar væri þarna lagt af mörkum af hálfu Norðurl. e. og hins vegar því sem Austurl. skilar inn í samhengi. Það kom mér reyndar nokkuð á óvart miðað við það kapp sem hæstv. samgrh. hefur lagt á þetta mál, að af hálfu Austfjarðakjördæmis var ekki lagt í þetta neitt á gildistíma núv. vegáætlunar nema í brúna yfir Jökulsá sem vissulega var þarft og mikið mál.
    Þannig liggur þetta nú að mínu mati, hæstv. forseti. Að lokum aftur þetta: Ég óska eindregið eftir því og bind vonir við það að hvað sem líður mismunandi viðhorfum manna í þessu og hvort sem þeir hafa fyrir fram í þessu einhverja sannfæringu eða ekki sem kann vel að vera, þá leyfi menn þó málinu að njóta þess að það fái rækilega skoðun í hv. samgn. og þar verði þá kallaðir til viðtals þeir aðilar sem hér eiga ekki síst ríkra hagsmuna að gæta svo sem fulltrúar byggðarlaganna á viðkomandi svæði og samtaka sveitarstjórnanna í viðkomandi kjördæmum og það verði rækilega farið yfir það í hvaða farvegi þessi mál eru og hvort ekki megi þar betur að gera. Það var a.m.k. viðhorf manna og trú á þeim aðalfundum Samtaka sveitarstjórnanna sem ég hef áður vísað til og hljóta að vera nokkuð marktækir um viðhorf heimamanna á þessum slóðum.
    Ég held að ég sjái ekki ástæðu til, hæstv. forseti, að hafa um þetta fleiri orð í sjálfu sér, það er flest komið fram sem hér þarf að koma fram. Mér er það óneitanlega nokkuð hugleikið að þessi mál fái vandaða skoðun og farsæla niðurstöðu því þarna er á ferðinni það landshorn sem að mörgu leyti hefur orðið hvað mest út undan og er sem stendur hvað mest út undan miðað við fyrirliggjandi áform um uppbyggingu í vegamálum. Norðausturleiðin frá Húsavík og til Vopnafjarðar er ein af lengri leiðum af því tagi þar sem mikil verkefni bíða og lengsta malarleið sem fyrirfinnst nú í landinu með sáralitlu eða nánast engu bundnu slitlagi og á þessu svæði býr þó þrátt fyrir allt fólk, hvað sem hver segir, um 2.500 manns og á sína heimtingu á því að það sé ekki klippt af með þessum hætti sem í raun og veru einhliða áhersla á uppbyggingu leiðarinnar yfir öræfin gerir, hvað sem hver segir. Það liggur þannig. Það þýðir líka að menn lenda í þeim ógöngum að ætla sér að baksa við að halda opnum tveimur leiðum til að tengja saman þessa landshluta en ekki einni með tilheyrandi viðbótarrekstrarkostnaði. Og talandi um jákvæða reynslu af því að reyna að halda leiðinni yfir Möðrudalsöræfi sl. vetur þá er ég ekki viss um að þeir hafi verið því sammála, a.m.k. meðan á því stóð, vegagerðarmennirnir sem lokuðust inni með tækin sín í blindhríð á Möðrudalsöræfum í 500 m hæð yfir sjó og sátu fastir sólarhringum saman í vetur.