Vegasamband allt árið milli Austurlands og Norðurlands

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 18:07:38 (1191)

[18:07]
     Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er mikill misskilningur hjá hv. þm. Agli Jónssyni að í mínum huga sé einhver kali eða beiskja yfir því að það hafi tekist að auka vegaframkvæmdir með því einu að skipta um samgrh. Manna fegnastur og kátastur yrði ég ef það hefði raunverulega tekist að auka umtalsvert vegaframkvæmdir fyrir aflafé Vegagerðar. Það sem hefur gerst er það að í grófum dráttum hefur tekist að halda í horfinu því framkvæmdastigi í vegamálum sem verið hefur um nokkurt árabil en nú með stórfelldum lántökum í stað eigin aflafjár Vegagerðarinnar áður. Það munu verða eftirmæli hæstv. núv. samgrh. og stuðningsmanna hans sérstakra, eins og hv. þm. Egils Jónssonar, að haldi svo sem horfi, þá skilji þeir Vegagerðina eftir í yfir 3 milljarða skuld við ríkissjóðs þegar þessu kjörtímabili lýkur. Nú er ég ekki að segja þar með að það geti ekki verið réttlætanlegt að taka lán til þess að flýta verkefnum ef það er skynsamlega að því staðið, en að monta sig af auknum vegaframkvæmdum á grundvelli lántaka sem síðan á að fara að greiða niður á næsta kjörtímabili er í raun og veru að pissa í skóinn sinn. Það er a.m.k. sjálfshól sem litlar innstæður eru fyrir. Ef hv. þm. kæmu hreint til dyranna eins og þeir eru klæddir og viðurkenndu að það ætti að halda uppi vegaframkvæmdum með lántökum en segðu að eftir sem áður teldu þeir það samt skynsamlegt vegna aðstæðna, þá mundi ég virða þá sem menn að meiri. En þessi aumlega aðferð, að reyna að slá sér upp á því að hér sé verið að auka vegaframkvæmdir en með því einu að taka lán sem í framtíðinni á svo að greiða niður, það er satt best að segja ekki til þess fallið að guma af.
    Varðandi það hvort þarna hafi verið tekin prinsippákvörðun eða prinsippákvörðun ekki um vegastæðið þá skulum við ekkert vera að þrátta um það, það kemur í ljós hversu traust í sessi sú ákvörðun verður, hvort menn breyta henni. Allar ákvarðanir eru þannig eðli málsins samkvæmt að þeim er hægt að breyta af þar til bærum yfirvöldum og til þess er tími. Allt hefur sinn tíma. En það stendur sem ég sagði og hv. þm. reyndi ekki að bera á móti því, að Austfjarðakjördæmi leggur engar fjárveitingar í þessa tengingu yfir öræfin að slepptri brúnni yfir Jökulsá á Dal sem kemur úr stórverkefnasjóði á þessu ári. Það segir sitt um það á hvaða rekspöl þetta mál er af hálfu þingmanna Austurlands.