Alþjóðleg skráning skipa

32. fundur
Miðvikudaginn 10. nóvember 1993, kl. 13:40:50 (1197)

[13:40]
     Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um alþjóðlega skráningu skipa. Þetta er 104. mál á þskj. 107 og flm. ásamt mér er hv. 3. þm. Vesturl., Jóhann Ársælsson. Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa hið fyrsta nauðsynlegar aðgerðir svo að koma megi á alþjóðlegri skráningu skipa hér á landi. Samið verði og lagt fyrir Alþingi frumvarp til laga um alþjóðlega skipaskráningu þar sem:
    a. opnað verði fyrir alþjóðlega skráningu kaupskipa með sambærilegum hætti og tíðkast í Danmörku,
    b. leyfð verði alþjóðleg skráning, B-skráning, fiskiskipa sem úrelt hafa verið úr íslenska fiskiskipaflotanum eða keypt eru erlendis frá án þess að hafa veiðileyfi í íslenskri lögsögu.
    Jafnframt láti ríkisstjórnin undirbúa nauðsynlegar skattalagabreytingar vegna hinnar alþjóðlegu kaupskipaskráningar og aðrar lagabreytingar sem þörf er á. Stefnt verði að því að lögfesta viðkomandi breytingar fyrir þinglok vorið 1994.``
    Að mati okkar flm. mælir margt með því að grípa til ráðstafana af því tagi sem tillagan gengur út á eða grípa til ráðstafana í þeim tilgangi að hindra útflöggun kaupskipa og gera það kleift að skrá á íslenskri skipaskrá fiskiskip sem ekki hafa veiðileyfi í íslenskri lögsögu.
    Það er skemmst frá því að segja að á undanförnum árum hefur fækkað stórlega í þeim hluta íslenska kaupskipaflotans sem skráður er á Íslandi. Ef skoðuð er þróun þessara mála nokkur ár aftur í tímann þarf ekki að fara langt aftur til þessa að finna hér á skrá um 50 kaupskip í kringum 1980. Árið 1991 taldi íslenski kaupskipaflotinn 41 skip, en af þeim voru aðeins 17 á skrá hér á landi. Nú hefur þessi þróun gengið enn lengra og svo er komið að kaupskipin sem hér eru skráð eru innan við 10 talsins.
    Það virðist því ljóst að verði ekkert að gert stefnir í að skráning kaupskipa hér á landi og sigling þeirra undir íslenskum fána muni brátt heyra sögunni til. Það er skoðun okkar flutningsmanna að raunhæfasta leiðin til að sporna við þessu og tryggja að tekjur og störf í tengslum við kaupskipaflotann falli Íslendingum í skaut sé að koma á einhvers konar fyrirkomulagi alþjóðlegrar skipaskráningar eða ráðstöfunum af sambærilegum toga og gerir íslenskum útgerðum það nægjanlega hagfellt að skrá skipin hér.
    Við teljum að sú leið sem Danir hafa valið sé miklu betur til þess fallin að vernda starfskjör innlendra sjómanna og líklegra að um hana eða einhverja útfærslu af því tagi geti orðið sátt heldur en þá leið sem valin hefur verið í Noregi. Einnig er ástæða til að athuga það fyrirkomuag sem Svíar hafa tekið upp í þessu efni og er í raun skylt hinu danska fyrirkomulagi. Þar er að vísu ekki um að ræða sérstaka skipaskrá eða alþjóðlega skrá heldur ákveðið skattalegt hagræði sem kaupskipaútgerðirnar sem sigla á alþjóðlegum leiðum njóta og hefur gert það að verkum að Svíum hefur tekist allbærilega að halda í sinn kaupskipaflota og manna hann með sænskum sjómönnum.
    Ég vil taka það skýrt fram að að mati okkar flutningsmanna tillögunnar kemur ekki annað til greina en að lögvarinn verði réttur íslenskra stéttarfélaga til að gera kjarasamninga um borð í íslenskt skráðum skipum. Með öðrum orðum teljum við að þar eigi að ganga tryggilegar frá hnútunum heldur en gert er jafnvel í dönsku skránni þannig að ljóst sé að sú kvöð fylgir íslenskri skráningu á skipi, hvort sem hún er alþjóðleg eða innlend, að um borð gildi íslenskir kjarasamningar og íslensk stéttarfélög fari ein með samningsrétt fyrir hönd áhafnarinnar. Ef menn gefa eftir þetta atriði, þá má spyrja hvað væri unnið með því yfirleitt að taka hér upp alþjóðlega skráningu því að það er ekki tilgangurinn með þessum breytingum að auðvelda íslenskum útgerðum að manna skipin með erlendum áhöfnum, nema síður sé. Þvert á móti er það að okkar mati nauðsynlegt að grípa til ráðstafana til þess að tryggja að íslenskir sjómenn geti áfram mannað myndarlegan íslenskan kaupskipaflota.

    Það ber að vísu að taka það fram að þróunin í þessum málum hér á Íslandi hefur verið nokkuð önnur en á hinum Norðurlöndunum. Þannig hefur þrátt fyrir umtalsverða útflöggun skipa eftir sem áður tekist að manna flotann að verulegu leyti með íslenskum farmönnum og má væntanlega þakka það því að íslensk stéttarfélög og sjómannafélögin sérstaklega hafa verið betur á verði hér heldur en víðar í nágrannalöndunum. Þessi árangur er athyglisverður en hann breytir ekki því að útflöggun er í fullum gangi og íslenska ríkið er þar með að verða af tekjum. Skipin færast undan íslenskum réttarákvæðum og margt fleira óæskilegt tengist þessari þróun.
    Þess vegna er að okkar mati nauðsynlegt að taka á þessum málum með einhverjum hætti en ég undirstrika það og endurtek að það er okkar eindregin skoðun að það eigi að gera með það að markmiði að tryggja áframhaldandi forræði íslenskra stéttarfélaga varðandi kjör og lögverja rétt íslenskra aðila til að gera einir kjarasamninga með það í huga að tryggja þannig mannsæmandi kjör sjómanna sem við þetta starfa.
    Ég tek það fram að við flm. erum að sjálfsögðu opnir fyrir mismunandi möguleikum til að ná þessum tilgangi og ég teldi athyglisvert að skoða upp á nýtt þróun þessara mála bæði í Danmörku og Svíþjóð og annars staðar þar sem breytingar hafa verið gerðar á undanförnum árum í því skyni að reyna að hindra útflöggun og siglingu eða útgerð kaupskipa undir hentifána.
    Það er talsverð hreyfing á þessum málum og rétt er að minna á að lokum að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið og innri markaður Evrópubandalagsins kann að valda því að menn þurfi af þeim orsökum einnig að fara yfir þessi mál.
    Varðandi seinni lið tillögunnar sem snýr að alþjóðlegri skráningu fiskiskipa eða þeim möguleika að hér verði unnt að skrá íslensk fiskiskip á íslenskri skipaskrá eftir sem áður þó að þau missi veiðileyfi í íslenskri lögsögu, þá er þar fyrst til að taka að þetta vandamál er af allt öðrum toga heldur en snertir kaupskipin. Um útflöggun íslenskra skipa sem hafa hér veiðileyfi í lögsögunni er að sjálfsögðu ekki að ræða af augljósum ástæðum. Hitt vandamálið hefur komið upp þegar skip missa hér veiðileyfin eða ef keypt eru skip erlendis frá sem ekki hafa fengið veiðileyfi í íslenskri lögsögu, ekki hefur verið úrelt á móti eins og sagt er, þá hefur sú regla verið viðhöfð allt frá árinu 1987 að óheimilt sé að hafa þau skip skráð á Íslandi. Þetta stafar af þeirri framkvæmd laganna um stjórn fiskveiða að samkvæmt reglugerð frá sjútvrn. er það gert að skyldu að skipin ekki bara hverfi varanlega úr rekstri sem veiðiskip innan íslensku lögsögunnar eins og lögin mæla fyrir um heldur og séu þau tekin af skipaskrá. Það er rétt að undirstrika í þessu sambandi að lögin um stjórn fiskveiða gera ekki þetta skilyrði og það er reyndar hvergi að finna að lögum. Hins vegar hefur sú athyglisverða framkvæmd komist á af hálfu sjútvrn. að skylda menn til þess að taka skipin af íslenskri skipaskrá. Það má út af fyrir sig spyrja um réttarstöðu ráðuneytisins til að framkvæma lögin með þessum hætti, en það hefur engu að síður verið gert. Hér snýst málið um þá túlkun þeirra ákvæða laganna að skip skuli hverfa endanlega úr rekstri eins og sagt er til þess að önnur megi koma í staðinn og hefja veiðar innan íslensku lögsögunnar.
    Nú er það augljóst mál að skipin geta að öllu öðru leyti fullnægt skilyrðum um íslenska skráningu þó svo að þau hafi ekki veiðileyfi í íslenskri lögsögu. Þau geta fullnægt öryggiskröfum, þau eru í eigu íslenskra aðila og falla að öllu leyti að skilyrðum um íslenska skráningu nema að þessu einu að sjútvrn. á grundvelli reglugerðar sem byggir á lögum um stjórn fiskveiða krefst þess að þau séu tekin af íslenskri skipaskrá. Það má því færa rök fyrir því að ekki sé þörf á lagabreytingu til að heimila áframhaldandi skráningu þessara skipa hér ef menn vildu einfaldlega hverfa að því að breyta þessari framkvæmd. Siglingalögin og lög um skráningu skipa koma ekki í veg fyrir að svo sé. En ef menn vilja á hinn bóginn halda sig við þá framkvæmd að þessi skip skuli hverfa af íslenskri skipaskrá, hinni almennu skipaskrá, þá er að okkar mati eðlilegasta og einfaldasta lausnin að taka upp sérflokk fyrir þessa gerð fiskiskipa. Við getum kallað það B-skráningu til hagræðis, B-skráningu fiskiskipa, sem er þá sérstök skrá yfir þau fiskiskip íslensk sem ekki hafa leyfi til veiða innan íslenskrar lögsögu.
    Það er alveg óþarfi að rökstyðja það að af þessu stafar margs konar hagræði og ég sé ekki að því fylgi á hinn bóginn neinar hættur. Það er auðvelt að halda þessum skipum aðgreindum og það er auðvelt að halda í sömu reglur um úreldingu fiskiskipaflotans sem veiðileyfi hefur innan lögsögunnar ef menn vilja byggja á þeim grunni áfram. En það sem vinnst er það í fyrsta lagi að útgerðarfyrirtækin þurfa ekki að fara í skrípaleik af því tagi sem þau hafa neyðst til sum hver undanfarið að stofna pappírsfyrirtæki í erlendum löndum og skrá skipin þar. Þau þurfa ekki að leggja í þann kostnað sem því er samfara oft og tíðum að endurskrá skipin erlendis. Það getur kallað á kostnaðarsamar flokkunarskoðanir og fleira óhagræði sem þar með leggst á skipafélögin. Í þriðja lagi, og það er e.t.v. ekki minnst um vert hér, teljast skipin áfram íslensk í þeim skilningi að hverfi þau til veiða á fjarlægum miðum verandi á íslenskri skipaskrá þá mundi sú aflareynsla sem þau þar njóta teljast til aflareynslu Íslands en ekki þriðja lands sem ella er þegar þau eru skráð undir hentifána í Karíbahafinu eða einhvers staðar annars staðar.
    Ég held að það sé óhjákvæmilegt að taka á þessum málum. Þau hafa verið í ólestri eins og þetta hefur verið undanfarin ár. Nú er að vísu rétt að taka það fram að heyrst hafa flugufregnir um að í hugmyndum á borði ríkisstjórnarinnar um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sé ætlunin að breyta þessari framkvæmd og heimila skráningu þessara skipa á íslenskri skipaskrá þó þau hafi ekki veiðileyfi í íslenskri lögsögu en eins og kunnugt er bólar ekkert á slíkum frv. hér enn þá og við teljum því tímabært að

taka á þessu með sjálfstæðum hætti.
    Það er rétt að undirstrika það, hæstv. forseti, að í hvorugu tilvikanna varðandi kaupskipaskrána eða fiskiskipaskrána er verið að tala um að opna erlendum skipum leið inn á íslenska skipaskrá, að sjálfsögðu ekki. Hér er eingöngu um að ræða íslensk skip í skilningi íslenskrar eignaraðildar og lögin breyta því ekki neinu um það atriði.
    Við setningu laga um þessi mál, hvernig sem þau verða úr garði gerð, er nauðsynlegt að huga að því að þar verði einhvers konar ákvæði til bráðabirgða sem heimili endurskráningu þeirra skipa á Íslandi sem horfið hafa út af íslensku skipaskránni á undanförnum árum og með hvaða hætti sem um það yrði búið. En það er alveg ljóst að það hlýtur að vera einn megintilgangur breytinga af þessu tagi og markmiðið að ná þeim skipum, sem horfið hafa úr landi á undanförnum árum, hingað heim undir íslenska skráningu á nýjan leik og við leggjum til að það verði gert með þeim hætti að einhvers konar ákvæði til bráðabirgða yrðu höfð í lögum sem um þetta fjölluðu.
    Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu vil ég leyfa mér að leggja til að tillögunni verði vísað til 2. umr. og hv. samgn. Ég vænti þess að þessi mál fái þar vandaða skoðun. Það er full þörf á því að taka á báðum efnisþáttum málsins sem tillagan fjallar um. Ég vona og treysti fyllilega samgn. til að fjalla um það af skynsamlegu viti og leggja til afgreiðslu á þessu máli sem nær þeim megintilgangi sem tillagan gengur út á, að þessi skip, hvort heldur eru kaupskip eða fiskiskip, geti áfram verið á íslenskri skipaskrá, fallið undir íslensk lagaákvæði og íslenskan rétt og íslenskir sjómenn á íslenskum kjarasamningum geti mannað þennan flota.