Alþjóðleg skráning skipa

32. fundur
Miðvikudaginn 10. nóvember 1993, kl. 13:55:27 (1198)

[13:55]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég held að við stöndum hér frammi fyrir miklum vanda og ég er ekki sannfærð um að þessi þáltill., þó samþykkt yrði, mundi leysa hann. Þetta mál snýst auðvitað um það að alþjóðleg skráning farskipa og raunar fiskiskipa líka opna mönnum leið til að manna skipin ódýru vinnuafli. Um það snýst allt málið. Hræddust er ég við að mjög er vitnað hér í dönsku skipaskráninguna. Það sem Danir gerðu var tvíþætt. Þeir stóðu frammi fyrir því eins og aðrir að flotinn hafði meira og minna farið yfir í þægindafána vegna hás rekstrarkostnaðar. Um það snýst allt þetta dæmi. Dönsku útgerðirnar töldu sig ekki vera samkeppnisfærar. Þá var gripið til þessarar skráningar sem heitir Dansk International Skibsregister eða DIS eins og hún er kölluð og það var gert með því að lækka ýmsar álögur á skipin og veita útgerðunum fullt frelsi til ákvörðunar --- og heyrið þið nú, hv. þm. og frú forseti --- að veita útgerðarmönnum fullt frelsi til ákvörðunar þjóðernis skipverja DIS-skipa. Út í þetta hafa öll stærstu farskipafélögin farið, að manna skipin fólki gjarnan úr þriðja heiminum. Afleiðingar þess hafa í mörgum tilvikum orðið hinar skelfilegustu og er frægt ferjuslysið sem varð á Óslóarfirðinum fyrir örfáum árum þar sem menn eru sannfærðir um að 153 eða 154 farþegar fórust vegna þess að boðleiðir voru brostnar þar sem áhöfnin skildi ekki norskt mál og ekkert mál nema sitt eigið og björgunaraðgerðir fóru allar í vaskinn vegna þess að menn kunnu ekki að lesa á björgunartæki. Þannig er ástandið.
    Ef við lítum yfir í íslenska flotann samkvæmt upplýsingum frá 1. febr. 1993, það má vera að þær hafi eitthvað breyst, þá hefur skipum sem gerð eru út af útgerðum innan Sambands íslenskra kaupskipaútgerða fækkað úr 51 skipi í 30 skip. Árið 1980 voru 48 þessara skipa skráð á Íslandi. Nú eru skipin sem sigla undir íslenskum fána einungis 11. Og það eru einungis fjögur skipa Eimskipafélagsins sem nú sigla undir íslenskum fánum. Stöðum á þessum skipum hefur auðvitað fækkað og samkvæmt sömu upplýsingum frá 1. febr. 1993 hefur á sl. þremur árum sá stöðufjöldi sem Íslendingar hafa gegnt á skipunum fækkað úr 375 í 253 og hlutdeild Íslendinga í mönnuninni fallið úr 81,5% í 74,2%. Þar kemur jafnframt fram --- og þetta eru upplýsingar frá m.a. Farmanna- og fiskimannasambandinu --- að ársstörfum íslenskra farmanna hefur fækkað um 183 stöður á sl. þremur árum ef gert er ráð fyrir að hver staða jafngildi einu og hálfu ársstarfi. Ég held að þetta verði hiklaust þróunin taki slík skráning gildi því ég trúi því ekki augnablik að útgerðirnar sjái sér neinn kost í því að skrá skipin hér á landi ef þeim er gert, eins og mér heyrðist á hv. flm., að jafnt erlendir sem innlendir menn verði að semja samkvæmt kjarasamningum íslensku verkalýðsfélaganna. Ég trúi því ekki því þá get ég ekki skilið hvaða hag útgerðirnar sjá sér í því að skrá skipin hér. Þær skrá skipin erlendis til þess að losna við háar launagreiðslur og annan rekstrarkostnað sem er hærri hér heldur en annars staðar.
    Um þetta hafa orðið umræður hér í þinginu áður. Í umræðum hér, reyndar um samning við Efnahagsbandalagið um fiskveiðimál, sem fóru fram 12. jan. sl. spurðist ég fyrir um hvort búið væri að staðfesta samning um flugmál og skipaflutninga sem lýst er í plaggi sem samgrn. hafði þá gefið út, en þar er sagt frá viðræðum sem þá áttu sér stað um svokallaða EURO-skráningu. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Á EUROS-skipunum verði heimilt að helmingur undirmanna verði frá þróunarríkjunum á kjörum sem ríkja í heimalöndum þeirra og að EB-farmenn á EUROS-skipum verði að hluta eða öllu leyti skattfrjálsir og skattar þeirra gangi til útgerðanna.``

    Um þetta sagði hv. 1. þm. Vestf., Guðjón A. Kristjánsson, sem þá sat hér á þingi, m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Mönnum kann að finnast það ankannalegt að tala um að það skuli fella niður tekjuskatt af fyrirtækjum sem jafnvel eru með hagnað, eins og sum skipafélög hér á landi, en þetta er samt staðreynd hins alþjóðlega umhverfis, að menn verða að geta keppt á jafnréttisgrundvelli. Verði það ekki mun að því koma að hér verður engin farskipaútgerð. Henni verður allri flaggað út. Menn þurfa að taka á þessu máli.``
    Þetta sagði hv. 1. þm. Vestf. Hann gerir sér auðvitað grein fyrir því að hér er mikill vandi á ferðum. En hvort það á að leysa hann með dönsku aðferðinni sem eins og hann réttilega talar um m.a. gerir ráð fyrir að létta sköttum og skyldum af útgerðunum og jafnvel farmönnunum sjálfum er meira vafamál. Danir hafa farið þá leið að gera samkomulag milli danskra stjórnvalda og danskra stéttarfélaga farmanna um að veita dönskum farmönnum á DIS-skipum skattfrelsi og einnig að aflétta launatengdum gjöldum af launum þeirra svo að þeir gætu boðið fram þjónustu sína á DIS-skipum á nettólaunum, þ.e. án skatta og launatengdra gjalda í samkeppni við farmenn frá Austur-Evrópu og þriðja heiminum.
    Ég sé ekki annað en þetta sé nákvæmlega það sem hefur gerst í Danmörku. En þess skal auðvitað getið að Danir eru Evrópubandalagsþjóð. Ég hef stórkostlegar efasemdir um hvort það sama skuli gilda um okkur hér. Ég get ekki annað en óttast að verði slík skráning tekin upp, og reyndar kannski hvort sem er og það viðurkenni ég, þá stöndum við frammi fyrir því að farskipaflotinn sé beinlínis allur að fara úr landi. Ég á eftir að sjá að hann flykkist heim aftur ef gera á sömu kröfur um mannaráðningar eins og við gerum og teljum við hæfi hér á hinum sæmilega siðmenntuðu Norðurlöndum. (Forseti hringir.) Frú forseti. Er ég búin með tíma minn? ( Forseti: Svo mun vera.) Þá held ég að ég verði að taka til máls seinna. Ég skal ekki níðast á tíma en ég ætla að taka aftur til máls og koma aðeins að þeim mannskap sem ráðinn hefur verið á þessi skip. Ég bið því um orðið aftur, frú forseti.