Alþjóðleg skráning skipa

32. fundur
Miðvikudaginn 10. nóvember 1993, kl. 14:04:04 (1199)

[14:04]
     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Hv. 1. flm. þessarar þáltill. gerði prýðilega grein fyrir henni hér áðan og ég ætla ekki að endurtaka það. Ég flyt þessa þáltill. ásamt honum og vil segja það í upphafi að ég tel að við eigum engra góðra kosta völ í þessu máli. Það hefur a.m.k. enginn bent á leiðir í þessu sem eru ekki umdeilanlegar. Það er búið að vera að gerast á undanförnum árum að íslenskir útgerðaraðilar hafa verið að flagga þessum skipum út. Spurningin er hvort við reynum að gera eitthvað til þess að snúa þessari þróun til baka eða hvort við eigum bara að horfa á þessa þróun halda áfram.
    Mér finnst til umræðu að skoða allar leiðir sem menn eru til með að leggja inn í umræðuna og ég er tilbúinn til að setjast yfir það með öðrum að skoða nýjar leiðir og aðrar heldur en hér eru lagðar til. En ég tel að það sé ádeiluvert ef við reynum ekki að gera eitthvað til að stöðva þessa þróun og snúa henni við. Það er um að ræða mjög mörg störf fyrir Íslendinga í þjónustunni á flutningaskipunum og ég vil meina að þó svo við legðum eitthvað á okkur til að styrkja þessa flutninga þá gæti það verið verjanlegt. Í þessari tillögu er talað um að lækka skráningargjöld og önnur gjöld vegna skipanna, og það er verið að tala um að koma jafnvel til móts við þessi fyrirtæki í sambandi við skattamál.
    Það er ástæða til að benda á það að hægt hefur á þessum breytingum frá því fyrir nokkrum árum síðan. Ég tel að það sé ástæða til að halda að ef þessum skipafélögum verði gefinn betri kostur heldur en nú er með íslenskum skráningum alfarið þá geti það dugað til til að stöðva þessa óheillaþróun. Ég er alveg harður á þeirri skoðun að við megum ekki fara út í það að leyfa íslenska skráningu skipa þar sem útgerðarmönnum væri gefinn frjáls kostur á því að ráða fólk til starfa á nánast hvaða kjörum sem er. Mér finnst það alls ekki koma til greina. Og það er alls ekki það sem við erum hér að tala um. Við erum að tala um að reyna að finna þarna einhvers konar millileið sem gæti orðið til að stöðva þessa óheillaþróun.
    Af því að hv. 14. þm. Reykv. nefndi að það hefðu orðið slys vegna þess að menn hefðu verið búnir að ráða á skip fólk sem ekki skildi málið og þess vegna hefðu boðleiðir slitnað og annað því um líkt, þá held ég að það sé einmitt það sem getur gerst ef ekkert er gert í þessum málum, þ.e. að skip séu að þjónusta hér landið meira og minna, og eru undir einhverjum hentifánum, og þá eru engar reglur sem við getum haft áhrif á í sambandi við ráðningu manna á þau skip. Þannig að við komum ekki í veg fyrir það með því að gera ekki neitt hér heima, það er alveg ljóst mál. Spurningin er þá bara hvort menn hafa aðrar tillögur til að skoða. Það tel ég sjálfsagt að gera komi þær fram.
    Ég vil að lokum segja það að ég tel að þarna sé á ferðinni tilraun til að fá menn til að setjast yfir þessi mál og skoða þau með það fyrir augum að stöðva þessa óheillaþróun og þá væri það vel ef það tækist að stöðva hana og ég tala nú ekki um ef við gætum snúið henni við þannig að það yrðu íslenskir starfsmenn í meiri mæli á þeim skipum sem þjónusta þessar leiðir.