Alþjóðleg skráning skipa

32. fundur
Miðvikudaginn 10. nóvember 1993, kl. 14:08:53 (1200)

[14:08]

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vil ítreka að ég er ekki að amast við þessari tillögu sem auðvitað veldur því að menn setjast þó niður og reyna að leysa þessi mál. En það stendur óneitanlega hér í a-lið í tillögunni að opnað verði fyrir alþjóðlega skráningu kaupskipa með sambærilegum hætti og tíðkast í Danmörku. Og þar er það þannig að útgerðarfélögunum er í sjálfsvald sett hvort þau ráða innlenda eða erlenda menn.
    Ég verð að segja alveg eins og er að ég er sammála hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni um það að mér finnst ankannalegt að tala um að veita útgerðarfélögum á borð við Eimskip sérstök skattahlunnindi. Ég veit ekki til þess að það góða félag sé spurt hvort skipafloti þess sé með þeim æskilegasta hætti sem vera má miðað við þá samninga sem það félag hefur gert. Ég vil ekki eiga mikinn þátt í því að gefa því sem hefur verið kallað ,,kolkrabbi`` stundum á hátíðarstundum í þessu landi sérstök skattafríðindi. Ég held að þau skattafríðindi mættu koma niður á einhverjum öðrum og ég skal ræða það seinna.
    Það fólk sem alltaf er að tala um samkeppni sem lausn allra mála sýnist stundum afskaplega lítið viljugt til samkeppni. Ég vil minna á umræður sem hér fóru fram á hinu háa Alþingi þegar Ríkisskip voru seld og átti nú heldur að bæta um í samkeppninni. Hvað gerðist? Það var ekki liðið ár frá því að það fyrirtæki lagði upp laupana þegar Eimskipafélagið var búið að hirða eitt og sjálft allar Ameríkusiglingar. Við sem höfðum einhverjar efasemdir um þetta, m.a. ég og hv. 4. þm. Reykv. ef ég man rétt, urðum ekki hissa, við þóttumst sjá þessa þróun fyrir. Grunnurinn að öllu þessu er auðvitað aðeins eitt orð: græðgi. Gróðafíkn. Taumlaus og án tillits til alls annars. Íslendingum á ekkert að vera að vanbúnaði að halda uppi siglingum farskipa, auðvitað ekki. En við þurfum ekki að fara þessa sömu leið og allir aðrir að sigla undir einhverjum ókennilegum fánum. Og til þess að losna svo við það og hefja einhverja alþjóðaskráningu hér uppi á Íslandi, þá held ég að við fáum ekki mikla bót í þeim efnum ef skipin geta ekki haldið því til streitu að ráða ódýrt vinnuafl, því um þetta snýst þetta allt saman. Ég er hér með bók sem ég fékk senda eftir umræðurnar í vetur frá sænsku verkamannasamböndunum sem heitir ,,Manneskjur sem útflutningsvara`` og ég vil ráðleggja hv. þingmönnum að lesa um líf og kjör filippseyskra farmanna --- ég sé að hv. 4. þm. Norðurl. e. á bókina líka og þá er það gott --- en það er íhugunarefni hvort við Íslendingar ætlum að halda áfram því sem við erum byrjuð á, að arðræna fólk frá þriðja heiminum á þennan mjög svo ógeðfellda hátt.
    Í umræðunum í janúar sl. spáði ég því við litlar undirtektir hv. þm. að ekki liði á löngu þar til fiskiskipaflotinn færi að feta sömu slóð. Það gerðist sjö mánuðum seinna að eitt af skipum Þormóðs ramma var skráð á einhverri eyju einhvers staðar sem enginn hefur heyrt nefnda. Ég er satt að segja furðu lostin að sjómannasamtökin skuli ekki standa hér fyrir utan hrópandi á Alþingi að hindra þessa þróun. Ég hélt að það gæti ekkert hver sem er verið skipverji, hvorki á farskipum né fiskiskipum. Ég hélt að til þess þyrfti einhverja kunnáttu, ég hélt að fólk þyrfti að hafa verið á hafinu, þekkja það og það sem í því er og ég hélt að menn ættu líf sín og limi undir því að sú þekking sé fyrir hendi. Ég hef hingað til haldið að Íslendingar hafi notið þeirra gæfu að eiga góða sjómenn sem búa yfir mikilli kunnáttu og mér finnst það skelfileg tilhugsun ef það á að fara að fylla skipin af fólki sem hvorki getur skilið tungumál skipstjóra sinna né annarra þeirra sem þeir þurfa að hafa viðskipti. Þessir menn ráðast á þessi skip til þess að hægt sé að kúga þá sjálfa og hafa af þeim það sem við gerum kröfur til fyrir okkar eigin sjómenn og farmenn.
    En ég skal ekki hafa á móti þessari till. til þál., mér er ljóst að um þessi mál verður að fara að ræða áður en hér horfir til auðnar í hópi farmanna og ef að líkum lætur gæti farið að týnast úr frystiskipaflotanum því vitaskuld er ódýrara að ráða fólk sem ekki þarf að bjóða nein mannréttindi um borð í þessum skipum. En ég vona að hv. sjútvn. sem sjálfsagt fær þetta mál til meðferðar hafi samband við alla aðila sem hlut eiga að máli og enginn flýti sér í afgreiðslu þessara mála, ég held að hér þurfi að vanda alla vinnu vel. Ég harma auðvitað það að geta ekki boðið upp á neina lausn, ég viðurkenni eins og hv. 3. þm. Vesturl. að enginn kostur er góður í þessu máli, ekki neinn kostur sem við höfum komið auga á og ég skal verða fyrst til að viðurkenna það. En ég held að þessi kostur, svokallaði danski kosturinn, sé ekki sérlega æskilegur fyrir okkur Íslendinga.