Alþjóðleg skráning skipa

32. fundur
Miðvikudaginn 10. nóvember 1993, kl. 14:29:04 (1202)

[14:29]
     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Aðeins nokkur atriði. Mér finnst hv. 4. þm. Norðurl. e. gera dálítið lítið úr fjölda þeirra erlendu sjómanna sem eru á íslenskum farskipum. Í janúar í fyrra voru þeir hvorki meira né minna en 120 og þeim hefur ekki fækkað. Þannig að það er álitlegur hópur nú af erlendum mönnum í áhöfn íslenskra farskipa.
    Eins og réttilega var bent á er hér mestan part um að ræða flutninga til og frá landinu og ég á þess vegna afar erfitt með að skilja hvaða hagur er í því að fá þennan flota heim til skráningar ef síðan eiga engar tekjur af honum að vera, ef hann á ekki að greiða stimpilgjöld, skráningargjöld og skatta. Er það til þess að forstjóri Eimskipafélags Íslands eigi að fá 2 millj. kr. á mánuði í staðinn fyrir þessa milljón sem hann er með núna? Í hvað á hagnaðurinn að fara? Ég held að menn verði aðeins að gera sér grein fyrir hvað þeir eru að tala um.
    Auðvitað eiga þessi félög að greiða skatta í hlutfalli af ágóða sínum eins og aðrir. Ég vil spyrja: Hvers á Flugfélag Íslands að gjalda ef á sama tíma er verið að tala um að leggja virðisaukaskatt á fargjöld Flugfélags Íslands? Hvers konar samhengi er í þessum hlutum? Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn taki á þessum málum á annan hátt en gert er í Danmörku þar sem flotinn er um heim allan í alls kyns verkefnum fyrir hinar ýmsu þjóðir heims. Hér er alls ekki á nokkurn einasta hátt um sambærilegan rekstur að ræða. Ef menn ætla að lifa samkvæmt þessari biblíu sinni um framboð og eftirspurn og samkeppni þá verða íslensk flutningafyrirtæki og útgerðir að gera sér grein fyrir því hvort það borgar sig að vera að þessu eða ekki. Ef það ekki borgar sig þá er samkvæmt öllum uppskriftum samkeppnisþjóðfélagsins út í bláinn að vera að því.