Útfærsla landhelginnar

32. fundur
Miðvikudaginn 10. nóvember 1993, kl. 15:07:31 (1207)

[15:07]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég kveð mér fyrst og fremst hljóðs til þess að lýsa stuðningi við anda þessarar tillögu. Ég lít svo á að það sé mjög mikilvægt fyrir Ísland að gæta ýtrustu réttinda sinna. Hafið er undirstaða þess að við lifum hér og getum haldið uppi þjóðríki á þessu landi okkar. Þess vegna er það á hverjum tíma mjög mikilvægt að passa upp á réttindi þjóðarinnar og reyna að vinna þeim hljómgrunn og standa vörð um þau svo sem kostur er.
    Ég tel líka að það sé mjög mikilvægt og á það vil ég leggja sérstaka áherslu, að efla pólitíska samstöðu um þær aðerðir sem gripið verður til. Sigrar Íslendinga í landhelgismálinu hingað til hafa fyrst og fremst verið unnir á því að það hefur myndast þjóðarsamstaða og samstaða allra stjórnmálaflokka um meginlínur og ég tel að við eigum að kappkosta það svo sem frekast er unnt að halda hver í höndina á öðrum og vinna saman að málinu.
    Hér er að vísu um þingmannatillögu að ræða og vissulega hefði verið öflugra ef hæstv. ríkisstjórn hefði haft forgöngu í málinu, en gott er nú samt úr því að svo var ekki að þingmenn sinni þessu verkefni. Ég vil vara við því að menn séu með yfirboð og ég held að við ættum að forðast það en kappkosta að sækja fyllsta sanngjarnan rétt.
    Hér er fyrst og fremst talað um útfærslu landhelginnar og á þskj. 3 er önnur hliðstæð tillaga um gæslu íslenskra hafsbotnsréttinda og flm. þeirrar tillögu er hv. 4. þm. Reykv., Eyjólfur Konráð Jónsson. Hann hefur verið óþreytandi að hamra á réttindum Íslendinga á hafsbotninum. Ég verð að viðurkenna að stundum hef ég efast um það að fullyrðingar hans væru raunhæfar, þó ekki alltaf, en mér segir nú svo hugur um að barátta hans í þessu efni eigi eftir að halda nafni hans á lofti löngu eftir að hann er horfinn héðan af þingi sem ég vona að verði ekki í bráð. Ég tel að við stöndum í mikilli þakkarskuld við hann fyrir það hvað hann hefur verið eljusamur í þessu efni.
    Ég tel að þegar þessar tillögur báðar berast utanrmn., þá eigi að leggja vinnu í það að útvíkka tillögu Eyjólfs Konráðs Jónssonar og taka inn í hana efnisatriði úr þeirri tillögu sem hér er til umræðu á þskj. 161 og afgreiða síðan á Alþingi myndarlega ályktun um þetta efni. Í báðum tillögunum er lagt til að kjósa sjö alþingismenn í nefnd og í staðinn fyrir að hafa nefndirnar tvær held ég að það sé eðlilegra að sameina þetta og hafa í einni tillögu en afgreiða málið frá utanrmn., og tel ég víst að svo verði gert.
    Mér finnst kenna helst til mikillar einföldunar hjá bæði frsm. tillögunnar og jafnvel hjá hæstv. utanrrh. þegar þeir tala um að engin þversögn geti falist í því að sækja rétt sinn sem strandríki í einu laginu og svo í öðru laginu sem úthafsveiðiþjóð. Ég er ekki að segja að það hafi gerst enn þá en það er eðlilegt að hafa þetta í huga og passa sig að gera ekki fullyrðingar Norðmanna réttar. Ég vil taka það fram, frú forseti, að ég styð skynsamlega sókn á fjarlæg mið og okkur ber efnahagsleg nauðsyn til, en sú sókn verður að vera með þeim hætti að hún spilli ekki réttarstöðu okkar sem strandríkis. Ég tel að sú sjálfsbjargarviðleitni sem íslenskir sjómenn og útgerðarmenn hafa sýnt sé þakklætisverð og nauðsynleg og stjórnvöldum og okkur öllum beri skylda til að styðja þá, náttúrlega innan skynsamlegra marka varðandi fiskvernd, varðandi veiðiaðferðir o.s.frv. Við eigum nú í deilum við Norðmenn út af veiðum í Smugunni þar sem Norðmenn eru kannski helst til heimaríkir. Ég tel yfirleitt að deilur eigi að leysa með samningum og ég vænti þess að þessi deila við Norðmenn verði leyst með samningum þegar málið hefur þroskast nægilega. Ég tel að það sé ekki svo enn þá og menn eigi ekki að flýta sér um of að koma á samningum en auðvitað verður þetta að enda með samkomulagi áður en mjög langt um líður.
    Stjórnvöld verða að sjálfsögðu að gá að því að fyrirgera ekki rétti eða möguleikum til annarra veiða. Norðmenn hafa á okkur ákveðið tak varðandi síldveiðar, þ.e. ef þeir halda Norðurlandssíldinni niðri með því að veiða hana í því magni að hún hafi ekki skilyrði til þess eða hún þurfi ekki að ganga á Íslandsmið, þá hafa þeir út af fyrir sig möguleika á því að hefna sín með töluvert afgerandi hætti á okkur. Þetta tel ég að við ættum ekki að hætta á, heldur eigum við að semja um þetta og semja um loðnuna þegar tími er til kominn.
    Ég ætla, frú forseti, ekki að hafa þessi orð mikið fleiri en ég vil lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að hv. utanrmn. eigi að sameina þessar tvær tillögur sem ég hef nefnt hér á þskj. 3 og á þskj. 161 og leggja fyrir Alþingi myndarlega ályktun um gæslu íslenskra hafsbotnsréttinda og frekari útfærslu landhelginnar.