Útfærsla landhelginnar

32. fundur
Miðvikudaginn 10. nóvember 1993, kl. 15:16:23 (1208)

[15:16]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég vil byrja á því að taka undir þakkir til flm. fyrir að hreyfa þessari umræðu hér í þinginu en ítreka eins og fram hefur komið af hálfu hæstv. utanrrh. að mjög eðlilega og ákveðið hefur verið unnið mörg undanfarin ár að gæslu þessara réttinda hvort heldur við erum að horfa á almenn fiskveiðiréttindi eða hafsbotnsréttindi okkar. Þetta hefur verið gert með ýmsu móti eins og hæstv. utanrrh. hefur rakið. Síðasta skrefið var stigið í septembermánuði sl. en þá var skipuð sérstök nefnd til þess að endurskoða gildandi lög um veiðar íslenskra skipa utan fiskveiðilandhelgi Íslands. Í erindisbréfi nefndarinnar, sem skrifað var 23. sept., segir svo:
    ,,Veiðar á úthafinu hafa færst í vöxt, bæði veiðar Íslendinga á nálægum sem fjarlægum miðum og veiðar erlendra skipa utan íslensku 200 mílna efnahagslögsögunnar. Slíkar veiðar eru því orðnar miklu brýnna hagsmunamál nú en fyrirsjáanlegt var árið 1976. Samhliða þessu hefur verslun með óunninn fisk

aukist verulega á síðustu árum. Hefur það í mörgum tilfellum orðið til þess að veikja möguleika á því að ná fram ábyrgri nýtingu auðlindarinnar, m.a. vegna þess að ekki er vitað hve mikið er veitt úr viðkomandi stofnum. Jafnframt hefur mikil þróun orðið í hafréttarmálum. Efnisreglur hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna um efnahagslögsögu, úthaf og verndun og stjórnun hinna lífrænu auðlinda úthafsins hafa hlotið viðurkenningu sem þjóðréttarreglur. Nánari þjóðréttarreglur á ýmsum þessum sviðum eru nú í mótun á vegum Sameinuðu þjóðanna og undirstofnana þeirra, svo sem varðandi deilistofna, miklar fartegundir og útflöggun fiskiskipa. Hefur Ísland haft forustu ásamt fleiri strandríkjum varðandi tillöguflutning í þessum efnum og er í þeim tillögum m.a. gert ráð fyrir ríkri skyldu fiskveiðiþjóða til stjórnunar og eftirlits með veiðum fiskiskipa sinna á alþjóðlegu hafsvæði.
    Af framangreindum orsökum er þörf á að fram fari mat á því hvernig hagsmunir Íslands varðandi veiðar á úthafinu verði best tryggðir til lengri tíma litið og hvaða löggjöf er nauðsynleg í þeim efnum. Ráðuneytið telur æskilegt að störfum nefndarinnar verði hraðað þannig að fjalla megi um tillögur að nýjum lögum um veiðar íslenskra skipa utan efnahagslögsögu Íslands á komandi þingi.``
    Hér er með öðrum orðum hafið nefndarstarf þar sem verið er að fjalla um flest þau atriði sem um getur í tillögu hv. flm. Í þessari nefnd eiga sæti forustumenn allra þingflokka á Alþingi og sömuleiðis forustumenn allra helstu hagsmunasamtaka í sjávarútvegi. Ég vil taka undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram í umræðunni að ég tel mjög mikilvægt að við leitum eftir sem víðtækastri samstöðu hér á Alþingi og í sjávarútveginum um allar frekari aðgerðir í þessu efni. Það er engum vafa undirorpið að sá árangur sem við höfum náð á alþjóðavettvangi í landhelgisbaráttunni á fyrst og fremst rætur að rekja til þess að þjóðin bar gæfu til að standa saman í þessum efnum.
    Við höfum verið brautryðjendur með þeim árangri að hafa tryggt okkar eigin landhelgi og enn fremur með þeirri afleiðingu að nú fara veiðar að stærstum hluta til fram innan lögsögu ríkja eða undir ákveðinni stjórn. Það er svo komið að aðeins 8% af heildarfiskaflanum í heiminum er veiddur á alþjóðlegu hafsvæði og enn minni hluti er veiddur úr stofnum sem ekki lúta ákveðinni stjórnun. Þróunin hefur mjög ákveðið verið í þá átt að veiðar í heiminum fara annaðhvort fram innan lögsögu eða úr stofnum sem samkomulag hefur tekist um stjórnun á og framtíðarhagsmunir okkar eru því vitaskuld fyrst og fremst fólgnir í því að tryggja stöðu okkar að því er varðar stjórnun á mikilvægum stofnum.
    Haustið 1991 fékk ég bréf frá þáverandi sjávarútvegsráðherra Kanada sem óskaði eftir samstarfi okkar Íslendinga um það að taka á rányrkju, einkanlega Evrópubandalagsþjóðanna, fyrir utan fiskveiðilögsögu Kanada. Við töldum það vera í samræmi við okkar hagsmuni að taka á þessu máli með Kanadamönnum og í framhaldi af því skipuðum við okkur í fimm ríkja forustusveit á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þar sem nú er verið að fjalla um möguleika á frekari reglum um stjórnun veiða á flökkustofnum og deilistofnum. Hér er í raun og veru verið að fjalla um möguleika á því að ná samkomulagi um alþjóðareglur til fyllingar þeim réttindum sem kveðið er á um í hafréttarsáttmálanum. Þar er bæði fjallað um réttindi og skyldur ríkja varðandi veiðar utan lögsögumarka, en mjög skortir á allar efnisreglur sem styðjast má við um það hvernig framfylgja eigi þeim rétti og koma fram þeim skyldum sem þar er kveðið á um. Og á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna eru menn nú fyrst og fremst að reyna að komast að niðurstöðu um það með hvaða hætti unnt er að fylgja þessum reglum eftir og gera þær virkar. Öll frekari útfærsla okkar á landhelginni eða setning löggjafar um stjórnun veiða utan lögsögumarkanna hlýtur að byggjast á þeim rétti sem við höfum unnið með tilurð hafréttarsáttmálans. En þó að hann kveði einungis á um 200 mílna efnahagslögsögu er eins og hér hefur komið fram í umræðunni einnig um að ræða réttindi utan lögsögumarkanna, fyrst og fremst að því er varðar hafsbotnsréttindin, en einnig að því er varðar réttindi strandríkja þegar um er að ræða stofna sem bæði eru innan og utan lögsögumarka og á grundvelli hafréttarsáttmálans hljótum við að byggja frekari löggjöf okkar um þessi efni.
    Hér hefur af hálfu 1. flm. verið bent á áhuga Kanadamanna um að setja löggjöf um stjórnun veiða utan lögsögumarkanna sem ég tel vera mjög áhugverða. Sams konar hugmyndir hafa verið til að mynda í Chile um setningu löggjafar til þess að tryggja stjórnun utan lögsögumarka. Ég tel að það sé mjög eðlilegt að við á grundvelli hafréttarsáttmálans hugum að réttarstöðu okkar og frekari hagsmunagæslu á þessu sviði. Sú nefnd sem skipuð hefur verið af hálfu sjútvrn. með fulltrúum allra flokka og hagsmunasamtaka í sjávarútveginum mun fjalla um þessi mál og leggja fram tillögur. Ég vona að það takist síðar á þessu þingi og þá verður hægt að fjalla um þau viðfangsefni með eðlilegum hætti.