Útfærsla landhelginnar

32. fundur
Miðvikudaginn 10. nóvember 1993, kl. 15:32:54 (1210)

[15:32]
     Björn Bjarnason :
    Frú forseti. Hér er fjallað um stefnumótun Íslands varðandi frekari útfærslu landhelginnar og réttindi Íslendinga á úthafinu og hvernig eigi að standa að því máli og lagt til að Alþingi álykti að kjósa sjö manna nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka til að kanna möguleika á frekari útfærslu íslensku efnahagslögsögunnar.
    Nefndin geri einnig tillögur um hvernig aflað skuli ýtrustu réttinda Íslendingum til handa á hafsvæðum sem liggja að íslensku efnahagslögsögunni á úthafinu og hvernig þeirra verður best gætt. Síðan er því nánar lýst hvernig nefndin á að starfa og hún eigi að skila áliti eigi síðar en 1. mars 1994.
    Það hefur komið fram í umræðunum að á þskj. 3 er lagt til að Alþingi kjósi sjö alþingismenn til að starfa með ríkisstjórninni að framgangi þess máls sem þar er fjallað um, um gæslu íslenskra hafsbotnsréttinda. Það hefur einnig komið fram að þann 23. sept. sl. skipaði hæstv. sjútvrh. nefnd sem á að skila áliti væntanlega upp úr áramótunum sem snertir þessi mál, þ.e. réttindi Íslendinga til veiða utan okkar lögsögu. Við erum því að fjalla um þrjú mál, náskyld, og í öllum tilvikum er verið að tala um það að alþingismenn setjist í nefnd til þess að sinna þessum málum. Ég tek undir það með hv. 1. þm. Norðurl. v., sem kom fram í hans máli áðan, að ég tel eðlilegt þar sem tillögunni á þskj. 3 var vísað til utanrmn. og gerð er tillaga um að þessari tillögu verði einnig vísað til nefndarinnar, að nefndin hljóti að líta á þessi mál í samhengi og skoði hvernig og hvort unnt sé með einum eða öðrum hætti að sameina þau eða samtengja þannig að ekki sé verið að sinna báðum þessum málum samtímis af nefndum sem kjörnar eru á hinu háa Alþingi. Ég tel einnig að með hliðsjón af því sem fram hefur komið í umræðunum varðandi þá nefnd sem hæstv. sjútvrh. hefur skipað og þar sem hún á að skila áliti nægilega snemma til þess að unnt sé að taka afstöðu til hennar tillagna á þessu þingi, þá sé eðlilegt að hv. utanrmn. hafi hliðsjón af því við ákvarðanir sínar. Þar eiga sæti fulltrúar þingflokka, m.a. einn af utanríkismálanefndarmönnum, hv. þm. Geir H. Haarde er formaður þeirrar nefndar.
    Mér finnast því skynsamlegustu vinnubrögðin í þessu máli þau að við reynum að samtengja þetta allt og vonandi koma okkur saman um heildstæða stefnumótun þannig að unnt sé að vinna að framgangi þessara miklu mála. Það er rétt sem fram hefur komið hér að það er tímabært að gera það. Það hefur einnig verið gert af hálfu Íslands, það hefur komið fram í máli hæstv. utanrrh. og hæstv. sjútvrh. að það hafa verið lagðar fram tillögur á vettvangi Sameinuðu þjóðanna varðandi þessi mál á grundvelli hafréttarsáttmálans. Ég hef það að vísu við þann málatilbúnað að athuga að ég hefði talið eðlilegt að áður en þær tillögur voru kynntar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og lagðar fram í nafni Íslands að um málið hefðu farið fram umræður á vettvangi Alþingis og menn hefðu getað rætt um það betur heldur en gert hefur verið og hefðu vitað betur um hvað það mál snýst allt saman. Það hefur verið unnið að kynningu á þeim tillögum á vettvangi utanrmn. og sjútvn. Nefndirnar héldu tvo fundi sameiginlega í sumar eða síðsumars eftir að deilan varð við Norðmenn um veiðarnar í Smugunni. Í þeirri deilu hefur reynt á þessa stefnumörkun okkar og þar hafa menn verið að ræða um það, eins og fram hefur komið í umræðum áður, hvort við séum að falla frá því að gæta hagsmuna sem strandríki og taka frekar upp hagsmunagæslu sem úthafsríki. Það hefur einnig komið fram að það sé nauðsynlegt að samræma þetta hvort tveggja og því er ég sammála, það eigi að vera samræmd stefna Íslands sem taki mið af íslenskum hagsmunum almennt og við eigum að gæta þess að þegar við lendum í deilum eins og þeim sem við höfum lent í varðandi veiðarnar í Smugunni, þá eigum við ekki að fórna hagsmunum okkar sem strandríkis. Við eigum að gæta þess í samræmi við þann málatilbúnað sem við höfum haft uppi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.
    Hér er sem sagt um mál að ræða sem hlýtur að vera sameiginlegt hagsmunamál okkar allra hvar sem við stöndum í stjórnmálaflokkum. En hitt blasir við, með hliðsjón af þeim tillögum sem fyrir liggja og því starfi sem unnið er á vegum sjútvrn. með þátttöku þingmanna, að það hlýtur að verða hlutverk utanrmn. sem fær þessi mál til meðferðar að um leið og menn reyna að komast að sameiginlegri niðurstöðu um efni málsins þá sé vinnubrögðum þannig háttað að kraftarnir nýtist sem best. Þess vegna tel ég skynsamlegast, eins og raunar hefur komið fram, að tillagan á þskj. 3 og tillagan á þessu þskj. verði unnar að einhverju leyti í sameiningu í hv. utanrmn. og síðan verði þess beðið hvað kemur frá þeirri nefnd sem hæstv. sjútvrh. skipaði og með hliðsjón af því verði síðan unnið að stefnumörkun á síðari hluta þingtímans í vetur.