Útfærsla landhelginnar

32. fundur
Miðvikudaginn 10. nóvember 1993, kl. 15:39:10 (1211)

[15:39]
     Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þær umræður sem hér hafa orðið og ágætar undirtektir við þessa tillögu. Í fyrsta lagi vil ég þakka hæstv. utanrrh. sem talaði fyrstur og taldi þetta að vísu vera litla tillögu en um mjög stórt mál og fór svo yfir ýmsa þætti sem að stjórnvöldum hafa snúið undanfarið í því sambandi.
    Þá er rétt að byrja á því að nota tækifærið og leiðrétta missögn sem ég fór með áðan. Ég stóð í þeirri trú að forusta í þátttöku Íslands á úthafsveiðiráðstefnu Sameinuðu þjóðanna væri skipuð starfsmönnum utanrrn. en upplýst er að lögfræðingur úr sjútvrn. mun vera í forustu fyrir fimm ríkja hópi af Íslands hálfu og vera aðalfulltrúi okkar í því starfi og er það vel.
    Ég vil sérstaklega taka undir það, og reyndar kom það skýrt fram í minni framsögu, sem hæstv. utanrrh. kom inn á, að ég held að menn eigi að skoða hagsmuni Íslands í þessu sambandi á mjög breiðum grunni. Við hljótum að ætla okkur það sem ein af þeim þjóðum heimsins sem hvað mest á undir sjávarútvegi af öllum að sækja og gæta okkar hagsmuna á sem allra breiðustum grundvelli í þessu sambandi. Ég tel að í raun sé engin tvöfeldni og engin mótsögn fólgin í því að reyna að sækja okkar hagsmuni jafnt sem strandríki og að svo miklu leyti sem raunhæft er og eftirsóknarvert líka, sem þjóð sem nýtir sér veiðimöguleika utan landhelgi.
    Það er að sjálfsögðu stórmál fyrir okkur að okkar hlutdeild í veiðum úr þeim stofnum sem að einhverju leyti eru utan og innan okkar lögsögu og á hafsvæðunum í nágrenni við okkar lögsögu, verði sem

allra mest. En staðreyndin er auðvitað sú, og það verðum við Íslendingar einfaldlega að horfast í augu við, að fram á síðustu missiri þá höfum við ekki verið gerendur í þeirri þróun. Við höfum siglt í kjölfar annarra þjóða sem uppgötvað hafa veiðislóðir og tekið til við að nýta veiðimöguleika, jafnvel alveg upp undir okkar lögsögumörkum. Þannig var það til að mynda að nánast eins og fyrir tilviljun bárust hingað fréttir og myndbandsupptökur af stórkostlegum veiðum Frakka á blálöngu á Franshóli, sem er bókstafalega á lögsögumörkuðunum. Þetta kveikti svo í íslenskum skipum sem fóru þarna til veiða og blönduðu sér í hóp þeirra frönsku skipa sem þarna voru fyrir. Auðvitað má það vera okkur nokkuð umhugsunarefni hvernig þessir hlutir hafa gengið til á síðustu missirum, að við höfum alls ekki, að mínu mati, náð að vera nógu mikið í fararbroddi og nógu miklir gerendur í því að rannsaka og nýta möguleika sem okkur standa opnir til veiða hér, jafnvel alveg upp undir okkar eigin lögsögumörkum.
    En vonandi er þar að verða breyting á. Í raun og veru má segja að það hafi orðið sprenging í þessum málum á sl. ári eða þessu ári, með stórauknum veiðum utan landhelginnar og auðvitað stórauknu aflaverðmæti sem af þeim veiðum er að koma.
    Ég vil taka það fram, vegna orða bæði hæstv. utanrrh. og síðar hæstv. sjútvrh., að mér er að sjálfsögðu ljóst að þessum málum hefur vissulega verið sinnt af stjórnvöldum á undanförnum árum og skárra væri það nú, það er engu öðru haldið hér fram. Ég held hins vegar að það sé alveg ljóst að of lítil umræða hefur verið um þessi mál innan lands fram á síðustu mánuði og reyndar hef ég það milliliðalaust eftir þeim embættismönnum sem þessu hafa sinnt á undanförnum árum fyrir Íslendinga að þeir hafi uppgötvað sig oft á tíðum ansi einmana í því að reyna að halda uppi merkinu, eftir að mesti áhuginn dofnaði innan lands og í almennri umræðu um þessi mál í kjölfar útfærslu landhelginnar á áttunda áratugnum, að undanskildum að sjálfsögðu einstökum eldhugum sem haldið hafa uppi umræðum um þessi mál.
    Ég held að hitt sé einnig ljóst sem hv. þm. Björn Bjarnason nefndi, formaður utanrmn., að það hefur á köflum skort á að nægjanlegt samráð hafi verið og samstarf um þessi mál milli stjórnvalda, þ.e. framkvæmdarvaldsins og Alþingis. En að sjálfsögðu ber að virða það sem vel hefur verið gert og það sem unnið hefur verið að þessum málum, bæði hafsbotnsréttindamálum og öðrum málum á undanförnum missirum.
    Þá vil ég þakka þann stuðning sem kom fram í máli hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar, Páls Péturssonar og reyndar fleiri við tillöguna. Ég held að það sé líka ágæt hugmynd sem hv. 1. þm. Norðurl. v. Páll Pétursson nefndi, að utanrmn. vinni þannig að þessum tillögum að þær verði sameinaðar eða skoðaðar sameiginlega og það var önnur meginástæðan fyrir því að ég valdi að gera tillögu um að þetta mál skyldi ganga til utanrmn. að það gæti orðið samferða þeirri tillögu sem fyrir liggur um hafsbotnsréttindin. Vissulega hefði eins mátt rökstyðja að þetta mál ætti heima í sjútvn. þar sem formleg úrfærsla landhelginnar mundi í sjálfu sér væntanlega, hér eftir sem hingað til, byggja á grundvelli laga og reglugerða útgefnum af sjútvrn. En með það í huga að þetta mál tengist ekki síður úthafsveiðum og hugsanlegum alþjóðlegum samningum á því sviði, sem er á verksviði utanrrn. og utanrmn., og til að báðar tillögurnar geti meðhöndlast á sama vettvangi þá kaus ég að leggja þetta til. Ég tel undirtektir hv. þingmanna og ekki síst formanns utanrmn. hafi gefið fullt tilefni til bjartsýni á að það hafi verið vel ráðið.
    Ég tek svo undir það sem hæstv. sjútvrh. kom inn á, að það er mjög áhugavert fyrir okkur Íslendinga að fylgjast grannt með og ekki bara það heldur vera fullir þátttakendur í þeirri þróun mála sem er á ferðinni og verulegur rekspölur er á, t.d. eins og hæstv. sjútvrh. nefndi meðal þjóða eins og Kanadamanna og Chilebúa og ég hygg reyndar einnig fleiri þjóða, margra sem taka þátt í ,,líkt þenkjandi ríkja hópnum``, eins og það á víst að íslenskast, samanber hæstv. utanrrh. hér áðan, þ.e. þess hóps strandríkja sem hefur valið til forustu fimm ríki fyrir sína hönd og Ísland er eitt af þeim. Í þeim hópi eru önnur ríki eins og Kanada, Argentína, Nýja-Sjáland og Chile og fleiri, allt í allt ein 50--60 ríki sem telja sameiginlegum hagsmunum sínum borgið í því samstarfi. Þarna þurfum við að fylgjast vel með og vera fullgildir þátttakendur og virkir þátttakendur í þróun mála.
    Ég held að hv. 3. þm. Vesturl. hafi einnig hitt naglann á höfuðið þegar hann sagði að það sem væri ekki síst brýnt í þessum málum að samræma stefnu íslenskra stjórnvalda og fara yfir hana á nýjan leik í ljósi þróunarinnar og þess sem gerst hefur og með það að markmiði og leiðarljósi að gæta íslenskra hagsmuna sem best á breiðum grundvelli. Út á það gengur í raun og veru þessi tillaga og allt það starf sem hér er til umræðu eða rætt er um. Hér eru á ferðinni á þrennum vígstöðvum náskyld eða tengd mál, eins og hv. 3. þm. Reykv. réttilega nefndi, það er tillaga á þskj. 3, það er þessi tillaga og það er það nefndarstarf sem vitnað hefur verið til á vegum hæstv. sjútvrh.
    Ég held að það sé vel ráðið að utanrmn. hafi það sérstaklega í huga í starfi sínu að þessum málum að samræma þetta starf og eftir atvikum sameina eða afgreiða með einhverjum samræmdum hætti þessar tillögur og hafa það jafnframt til hliðsjónar hver afrakstur verður af nefndarstarfi hæstv. sjútvrh. enda á eðli málsins samkvæmt að hafa um þetta mál samráð við utanrmn. Á því hvílir bein lagaskylda og þess vegna hlýtur það að vera á sínum stað og nákvæmlega það að meðferð þessara mála og samræming starfs á þessu sviði sé þá á hendi hv. utanrmn.
    Fleira ætla ég ekki að segja um þetta, hæstv. forseti, ég þakka fyrir þessar umræður og þær undirtektir sem tillagan hefur fengið.