Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

33. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 10:55:33 (1214)

[10:55]
     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (frh.) :
    Herra forseti. Ég var að gera grein fyrir þeim hluta frv. og okkar nál. og brtt. sem lúta að málum Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins. Ég vil byrja á því að fagna því að ríkisstjórnin skuli vera komin á fætur, hún var sein til í morgun, en batnandi mönnum er best að lifa.
    Ég var búinn að gera grein fyrir því hvernig meðferð þessara veiðiheimilda hafði verið í grófum dráttum af hálfu hæstv. ríkisstjórnar þangað til á þessu vori eða þessu sumri en vegna þess hvernig bráðabirgðalögunum er háttað þá tóku gildi, eins og áður sagði, óbreytt eldri ákvæði laga um Hagræðingarsjóð nú 1. sept. sl. Þau kveða á um það rétt eins og þau gerðu í fyrrahaust að stjórn sjóðsins skuli við upphaf fiskveiðiárs hefja sölu á veiðiheimildunum. Nú er það að vísu ljóst að fjárlagafrv. gerir ekki ráð fyrir tekjum af þeirri sölu, aldrei þessu vant, því undanfarin tvö haust hefur ríkisstjórnin hugsað sér að fjármagna rekstur Hafrannsóknastofnunar með tekjum af þessari sölu, því hæstv. ríkisstjórn hafði hugsað sér að leggja fram frv. um breytingar á lögum um Hagræðingarsjóð, nánar tiltekið frv. um svonefndan þróunarsjóð sjávarútvegsins sem m.a. er afrakstur tillagna tvíhöfða nefndarinnar frægu og var þar gert ráð fyrir því að lagaheimild kæmi til þess að úthluta veiðiheimildunum eða ráðstafa þeim án endurgjalds.
    Nú er hins vegar ljóst að ekkert bólar enn á því frv. Nýjustu fréttir benda jafnvel til þess að ríkisstjórnin muni alls ekki koma sér saman um nokkurn skapaðan hlut í þessum efnum og uppi eru vaxandi vangaveltur um það að lögin um stjórn fiskveiða verði látin gilda óbreytt, sem sagt að ríkisstjórnin hafi einfaldlega gefist upp við það með öllu að koma sér saman um nokkurn skapaðan hlut í sjávarútvegsmálum. Ef marka má blaðafregnir undanfarna daga þá er alveg eins við því að búast. Þess vegna standa þessi mál náttúrlega þannig að það er með öllu óásættanlegt og í raun og veru alveg óskiljanlegt að ríkisstjórnin skuli nú telja það í lagi að draga það mánuðum saman að ganga frá þessum málum. Ég minni á að í fyrrahaust var stjórn Hagræðingarsjóðs svo kaþólsk að hún taldi sig ekki geta orðið við tilmælum um að hinkra við, þó ekki væri nema daga eða vikur, að hefja sölu á veiðiheimildum Hagræðingarsjóðs meðan kannað væri hvort samstaða væri á Alþingi um að nýta þær til jöfnunar. En nú bregður svo við að liðnir eru næstum tveir og hálfur mánuður síðan fiskveiðiárið hófst og stjórnin hefur haldið að sér höndum með það að framkvæma lögin eins og þau gilda í dag. Og þá hlýtur maður auðvitað að spyrja: Eru menn þá svona ójafnir fyrir lögunum? Ef tilmæli berast frá sjútvn. eða stjórnarandstöðunni um að það sé hinkrað með sölu á veiðiheimildunum þá er þeim umsvifalaust hafnað en þegar hæstv. ríkisstjórn er í vandræðum og kemur sér ekki saman um málin og það líða vikur og það líða mánuðir, þá virðist stjórn Hagræðingarsjóðs geta dregið það mánuð eftir mánuð að framkvæma lögin eins og þau eru í gildi. Það þýðir ekki að láta menn komast upp með það að hafa þessi mál í þessum farvegi. Því höfum við í minni hlutanum lagt fram brtt. við lögin þar sem lagaheimildar er aflað til þess að útdeila veiðiheimildum Hagræðingarsjóðs á fiskveiðiárinu 1993-- 1994 til jöfnunar til þeirra útgerða sem mesta skerðingu hafa tekið á sig með sama hætti og bráðabirgðalögin gerðu ráð fyrir, gáfu heimild til að meðhöndla það sem eftir var af veiðiheimildum sl. fiskveiðiárs. Það mun þá reyna á það hvort hæstv. ríkisstjórn ætlar að halda áfram þeim leik, eins og hún hefur gert, að þverbrjóta góðar venjur hvort sem heldur er í lagasetningunni sjálfri eða framkvæmd laga af þeim einum ástæðum að tillögurnar eru fluttar af stjórnarandstöðunni.
    Telur hæstv. sjútvrh., sem lög um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins heyra undir, það til fyrirmyndar hvernig með þessi mál hefur verið farið á þessu hausti? Telur hæstv. sjútvrh. sem í reynd ber ábyrgð á málaflokknum að meðferð stjórnar Hagræðingarsjóðs á lögunum eða framkvæmd laganna um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins standist þegar það stendur ótvírætt í gildandi lögum að það skuli hefja sölu veiðiheimildanna við upphaf fiskveiðiárs? Nú er að verða kominn miður nóvember og stjórnin hefur ekkert aðhafst í þessum efnum. Á grundvelli hvaða réttarheimilda hegðar stjórnin sér þannig? Er það með vilja, vitund og stuðningi sjútvrh.? Er hæstv. sjútvrh. þar með að leggja að stjórninni að ástunda lögbrot? Þetta voru þau svör sem við fengum í fyrrahaust, stjórnarandstaðan, að það væri skýlaust lögbrot að fresta því að hefja sölu veiðiheimildanna. Þess vegna væri ekki hægt að verða við tilmælum okkar eða tilmælum sjútvn. um það að þessi mál yrðu skoðuð. Það yrði að hefja sölu á veiðiheimildunum strax í septembermánuði.
    En ef það er í skjóli ríkisstjórnarinnar sem það er núna gert sem flokkaðist sem lögbrot í fyrra þá er best að það komi hér fram og þeir svari fyrir þá ábyrgð, hæstv. forsrh. eða hæstv. sjútvrh. nema báðir væru.
    Það mun auðvitað koma í ljós við atkvæðagreiðslur á eftir hver hugur stjórnarsinna er í þessum efnum og það verður óneitanlega nokkuð skrautlegt ef til að mynda þingmenn landsbyggðarinnar og sjávarútvegskjördæma, þó þeir eigi að teljast stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar, fella það að lagaheimilda verði aflað til þess að útdeila veiðiheimildum Hagræðingarsjóðs í jöfnunarskyni.
    Ég tel, hæstv. forseti, í sjálfu sér ekki ástæðu til að rökstyðja ítarlega eða útskýra innihald þessara brtt. sem við flytjum hér, þær eru efnislega í reynd nánast samhljóða þeim ákvæðum sem í bráðabirgðalögunum frá sl. vori fólust, þ.e. að aflaheimildum Hagræðingarsjóðs nú vegna fiskveiðiársins 1. sept. 1993 til 31. ágúst 1994, skuli að frádregnum þeim aflaheimildum sem sveitarstjórnir kunna að neyta forkaupsréttar á skv. 7. gr. --- og þar mun væntanlega Bíldudalur einn eiga í hlut --- að þessum veiðiheimildum skuli úthlutað án endurgjalds til þeirra fiskiskipa sem orðið hafa fyrir mestri skerðingu við úthlutun aflamarks á yfirstandandi fiskveiðiári. Áframhaldið er svo tæknilegs eðlis þar sem fjallað er um það nánar með hvaða hætti þessi framkvæmd skuli útfærð. En efnislega er þetta aðalatriðið að veiðiheimildunum verði úthlutað án endurgjalds til þeirra fiskiskipa sem orðið hafa fyrir mestri skerðingu við úthlutun aflamarks á yfirstandandi fiskveiðiári. Ég held að það þurfi í sjálfu sér ekki að útskýra það frekar. Ef menn óska frekari skýringa þá er væntanlega hægt að svara því síðar við umræðuna, en framkvæmdin yrði sem sagt með sambærilegum hætti og ráðstöfun þess hluta veiðiheimildanna sem óseldar voru sl. vor þegar bráðabirgðalögin tóku gildi.
    Að svo mæltu, herra forseti, þá held ég að ég ljúki máli mínu. Ég ítreka það að afstaða okkar í minni hlutanum byggir ekki á andstöðu við efnisatriði frv. að svo miklu leyti sem þau lúta að því að uppfylla skyldur ríkisvaldsins í tengslum við kjarasamningana heldur er það sökum málsmeðferðarinnar og framgöngu ríkisstjórnarinnar varðandi bráðabirgðalagasetnginuna sem við kjósum að sitja hjá við afgreiðslu málsins.