Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

33. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 12:15:49 (1232)

[12:15]
     Ólafur Ragnar Grímsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég tel að sú fyrirspurn sem hv. þm. Jóhann Ársælsson bar fram sé svo mikilvæg fyrir lagasetningu og störf Alþingis að hæstv. forseti verði að gefa formlegan úrskurð af forsetastól. Það sem hér um ræðir er að efnislega hefur málið komið hér inn í formi þingmáls sem brtt. Ef sú brtt. verður felld, þá er spurningin sú: Er engu að síður hægt að taka nákvæmlega sama efnisatriði upp á þinginu sem frv.? Ef svar hæstv. forseta er já við því, þá vek ég athygli forseta á því að þar með er forseti nánast að ónýta 43. gr. þingskapalaganna, því þá væri einfaldlega hægt að flytja felld frv. sem brtt. við önnur frv. hér í þinginu. Þess vegna hef ég alltaf skilið þetta ákvæði á þann veg að um væri að ræða efnisatriðin skýr, hvort heldur menn kysu að klæða þau í búning lagafrumvarps eða formlegrar brtt. og þetta atriði alveg óháð þessu máli, virðulegi forseti, verður að vera alveg skýrt svo að ekki komi upp deilur um það síðar. Þess vegna óska ég eftir því að forseti gefi út formlegan úrskurð áður en atkvæðagreiðslan fer fram, hver skilningurinn á að vera út frá þeim möguleikum sem ég hef hér lýst. Ef forseti segir já, ríkisstjórnin getur komið með frumvörp þótt þessi breytingartillaga verði felld, þá er verið að opna á það að hvaða þingmaður sem er geti endurflutt efnisatriði felldra lagafrumvarpa hér í þinginu sem einfaldar brtt.