Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

33. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 12:18:54 (1234)

[12:18]
     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Vegna þess að hér hafa farið fram orðaskipti sem eru býsna mikilvæg varðandi efnisafgreiðslu þeirrar brtt. sem hér liggur fyrir til atkvæðagreiðslu og ég er ekki viss um að allir hv. þm. hafi haft tóm til að átta sig á hinni formlegu stöðu málsins og einhverjir þingmanna kannski verið fjarverandi umræðuna en þurfa að gera upp hug sinn til atkvæðagreiðslunnar eða afstöðu sinnar hér á eftir, þá fer ég eindregið fram á að atkvæðagreiðslunni verði frestað þar til eftir hádegisverðarhlé þannig að mönnum gefist aðeins tóm til að bera saman bækur sínar áður en gengið er til atkvæðagreiðslu. Ég held að það sé sanngjörn ósk í ljósi þeirra orðaskipta sem fóru fram og mikilvægis málsins og það ætti ekki að þurfa að hafa nein áhrif á tilhögun fundarhaldsins og afgreiðslu málsins, því fyrir liggur að af okkar hálfu í stjórnarandstöðunni er ekki nokkur áhugi á því að tefja framgang þessa máls og við erum tilbúin til að láta afgreiðslu á því fara fram í dag með afbrigðum eins og kunnugt er. En ég fer fram á að við þessari ósk verði orðið og atkvæðagreiðslan fari fram eftir hlé.