Tilkynning um dagskrá

33. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 12:23:14 (1237)

[12:23]
     Ólafur Ragnar Grímsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Eins og hv. þm. Svavar Gestsson lýsti hafa þingmenn Alþb. flutt hér frv. um Hæstarétt og 1. flm. þess er hv. þm. Svavar Gestsson.
    Nú hefur það gerst að hæstv. ríkisstjórn hefur líka flutt hér frv. um Hæstarétt. Það liggur einnig fyrir þinginu brtt. um meðferð fjármála Hæstaréttar varðandi fjáraukalög fyrir árið 1993. Það er alveg óhjákvæmilegt að þegar dómsmrh. fer að mæla hér fyrir máli um Hæstarétt þá komi ýmsir þættir í stöðu réttarins hér til umfjöllunar. Þess vegna finnst mér ekki heppilegt að öðrum þingmálum, sem þingmenn hefðu í sjálfu sér ekki athugasemdir við eða vildu ræða með öðrum hætti, sé blandað inn í þá umfjöllun. Mér finnst þess vegna æskilegt að frv. um Hæstarétt Íslands verði hér sjálfstæður dagskrárliður en önnur frumvörp ekki þar með og mælist til þess við forseta að það verði gert og mér finnst reyndar eðlilegt að sú umræða fari fram í tengslum við það frv. sem hv. þm. Svavar Gestsson er 1. flm. að.