Niðurstöður fundar leiðtoga Evrópuráðsins í Vínarborg

33. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 13:32:20 (1247)

[13:32]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Frú forseti. Skýrsla sú sem hér er lögð fram er tekin saman að ósk hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur og níu annarra hv. þm.
    Evrópuráðið var stofnað árið 1949 með það að markmiði að Evrópuríkin gætu með því að bindast fastari böndum staðið vörð um lýðræði, mannréttindi og frið. Í inngangi að stofnskrá ráðsins staðfesta aðildarríki þess trú sína á þau verðmæti, andleg og siðferðileg, sem eru hin sameiginlega arfleifð þessara þjóða og hin sönnu upptök einstaklingsfrelsis, stjórnmálalegs frjálsræðis og skipunar laga og réttar. Öll Evrópuríki geta öðlast aðild að ráðinu en skilyrði þess er að umsækjendur viðurkenni grundvallarreglur réttarríkisins og að öllum einstaklingum innan umdæmis þess skuli tryggð mannréttindi og grundvallarfrelsi.
    Starfsemi Evrópuráðsins á sviði mannréttindaverndar byggist að mestu leyti á mannréttindasáttmála Evrópu, félagsmálasáttmála Evrópu, sem nær yfir félagsleg og efnahagsleg réttindi, og sáttmála til varnar pyndingum og ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Annars vegar skuldbinda þessir sáttmálar aðildarríkin að þjóðarétti til að haga landslögum í samræmi við ákvæði sáttmálans. Hins vegar eru í öllum sáttmálunum ákvæði um eftirlit, eins og íslensk stjórnvöld hafa reyndar kynnst í dómum mannréttindadómstólsins vegna löggjafar og dóm- og stjórnsýslu hér á landi.
    Auk ráðherranefndar, sem er æðsta valdastofnun ráðsins og skipuð utanríkisráðherrum aðildarríkjanna, er þing Evrópuráðsins í Strassborg, sem liðlega tvö hundruð fulltrúar eiga sæti á, allt þingmenn tilnefndir af þjóðþingum aðildarríkjanna. Þingið, sem er ráðgefandi, kemur saman fjórum sinnum á ári og heldur einnig á hverju sumri sérstakan fund í einu aðildarríkjanna. Til aðstoðar við þingstörfin hefur þingið eigin skrifstofu. Á skrifstofu Evrópuráðsins í Strassborg starfa rúmlega 900 manns undir yfirstjórn aðalframkvæmdastjóra en skrifstofan þjónar ráðherranefndinni, þinginu og sérfræðinganefndum.
    Ísland gerðist aðili að Evrópuráðinu árið 1951 og fullgilti mannréttindasáttmála Evrópu árið 1953.

Dóms- og kirkjumálaráðherra hefur lagt fyrir Alþingi frumvarp til laga um að sáttmálinn verði lögtekinn hér, sem er nú til meðferðar hjá allsherjarnefnd.
    Til skamms tíma hefur Evrópuráðið einungis verið skipað Vestur-Evrópuríkjum. Eftir hrun kommúnismans í Evrópu hefur níu Mið- og Austur-Evrópuríkjum verið veitt aðild að ráðinu. Af þessu leiðir að vaxandi þáttur í starfsemi Evrópuráðsins er ýmiss konar aðstoð við fyrrum kommúnistaríki í Mið- og Austur-Evrópu við að efla lýðræðisþróun og mannréttindavernd, meðal annars með ráðgjöf, þjálfun og námskeiðum.
    Leiðtogafundurinn í Vínarborg 8. og 9. okt. sl. var hinn fyrsti í sögu Evrópuráðsins. Til hans var boðað að frumkvæði François Mitterrands Frakklandsforseta til að fjalla um framtíðarhlutverk ráðsins, nú þegar markmið þess um að koma á samvinnu allra Evrópuríkja er í augsýn. Jafnframt var talið nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að efla lýðræði, réttarríkið og virðingu fyrir mannréttindum. Þróun mála í Evrópu eftir lok kalda stríðsins hefur leitt í ljós að brýn þörf er á aðgerðum af því tagi. Um leið veldur hrun kommúnismans í Evrópu því að færi gefst á að knýja á um að grundvallarreglur lýðræðis og réttarríkisins gildi um alla álfuna og stuðli að friði og stöðugleika. Evrópuráðið, sem stofnað var í þessum tilgangi, er eðlilegur og einstakur vettvangur til að vinna að framgangi þessara markmiða. Þá var til þess ætlast að leiðtogafundurinn ákvæði að laga stofnanir og starfsemi Evrópuráðsins að breyttum aðstæðum í Evrópu, þróun annarra samtaka í álfunni og fjölgun aðildarríkjanna.
    Evrópuráðið getur augljóslega ekki sinnt öllum þörfum nýrrar Evrópu. Á vettvangi þess verður ekki unnið nema að takmörkuðu leyti að því að efla viðskipta- og efnahagssamvinnu, og í stofnskrá ráðsins er tekið fram að það fjalli ekki um hernaðarlegt öryggi. Önnur samtök starfa á þessum sviðum og eru betur til þess fallin. Þetta eru Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu, Evrópubandalagið, Vestur-Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið, en innan þess er nú rætt um nána samvinnu í öryggismálum milli bandalagsríkjanna og annarra Evrópuríkja.
    Stækkun Evrópubandalagsins og Atlantshafsbandalagsins austur á bóginn virðist hins vegar ekki vera líkleg í náinni framtíð. Ólíkt þessum samtökum á Evrópuráðið möguleika á að verða fyrstu alevrópsku samtökin og er það reyndar vel á veg komið.
    Evrópuráðið getur því lagt grunn að nýrri Evrópu, sem óhjákvæmilega verður að hvíla á grundvallarreglum réttarríkisins; á sönnu öryggi sem einungis lýðræðislegir stjórnarhættir geta tryggt. Þetta gerist ekki af sjálfu sér, heldur þarf þrýsting, bindandi skuldbindingar, eftirlit með framfylgd þeirra og skipulagða baráttu fyrir eflingu lýðræðis og mannréttinda.
    Auk langrar reynslu og skipulags Evrópuráðsins á þessum sviðum er sérstaða ráðsins í þessum efnum ótvíræð. Á Ráðstefnunni um öryggi og samvinnu í Evrópu er vissulega fjallað um mannréttindi, reyndar á sérstökum vettvangi innan vébanda ráðstefnunnar. Á leiðtogafundi Evrópuráðsins var ákveðið að halda áfram og auka tæknilega samvinnu um mannréttindamál við Ráðstefnuna um öryggi og samvinnu í Evrópu.
    Ráðstefnan um öryggi og samvinnu hefur verið opin nýjum aðildarríkjum óháð stöðu mannréttindamála í þeim. Í Evrópuráðinu gilda hins vegar ströng skilyrði fyrir aðild. Sérhvert aðildarríki skuldbindur sig til að tryggja öllum innan umdæmis þess mannréttindi og grundvallarfrelsi. Vegna strangra skilyrða fyrir aðild er Evrópuráðið í vissum skilningi eins konar nálarauga sem ríki verða að komast í gegnum til þess að verða gjaldgeng til fullrar þátttöku í evrópskri samvinnu.
    Á leiðtogafundi Evrópuráðsins kom fram að mönnum var ofarlega í sinni hvernig sá óstöðugleiki og þær nýju hættur í Evrópu, sem siglt hafa í kjölfar loka kalda stríðsins, sýndu að leiðin til lýðræðis og varanlegs stöðugleika væri vissulega grýtt. Þessir erfiðleikar undirstrikuðu sérstöðu og þýðingu Evrópuráðsins en leiddu jafnframt í ljós að enn væri langt í að markmiðum ráðsins væri náð í álfunni allri. Til þess hafi hrun kommúnismans veitt ráðinu einstakt tækifæri. Evrópuráðið hefði lykilhlutverki að gegna og einstaka möguleika á að koma á samvinnu allra Evrópuríkja. Ströng aðildarskilyrði þess hefðu þegar átt stóran þátt í þeirri eflingu mannréttinda og lýðræðis sem orðið hefði í álfunni eftir hrun kommúnismans. Um leið þyrfti ráðið að laga sig að þeim kröfum sem fjölgun aðildarríkja og breyttar pólitískar aðstæður fælu í sér.
    Í ávarpi mínu á leiðtogafundinum, sem fylgir þessari skýrslu, benti ég meðal annars á sérstöðu Evrópuráðsins meðal samtaka í álfunni og að leggja bæri ríka áherslu á að aðildarríki fullnægðu þeim kröfum sem aðild að ráðinu gerði til þeirra. Í því tilliti væri þýðingarmikið að fylgja eftir þeirri samþykkt þings Evrópuráðsins að fylgst skyldi náið með því að ný aðildarríki virtu skuldbindingar sínar. Eftirlit með framfylgd þeirra er nýtt og mikilvægt verkefni sem þingið hefur tekið að sér.
    Ég tiltók í ávarpinu tvö mál sem fælu í sér alvarlega hættu fyrir mannréttindahugsjón Evrópuráðsins. Hið fyrra var að skilgreina yrði réttindi þjóðernisminnihluta og sjá til þess með virkum hætti að þau væru virt. Þessu markmiði yrði að ná. Átökin í fyrrverandi Júgóslavíu og víðar, sem og hætta á þjóðernisólgu á enn öðrum stöðum í Evrópu, eru skýr áminning um nauðsyn þess að vernda réttindi þjóðernisminnihlutahópa. Við bætist hættan á að stöðugleiki í álfunni bresti við útbreiðslu átaka af þessu tagi.
    Hitt málið, sem ég lagði áherslu á, var áætlun um aðgerðir gegn kynþáttahatri, útlendingaandúð, gyðingahatri og vægðarleysi í skoðunum, en allt varpar þetta skugga á viðleitni til að tryggja frið og frelsi í Evrópu. Forsætisráðherra Noregs, Gro Harlem Brundtland, lagði upphaflega til að Evrópuráðið gerði slíka

áætlun og samþykkt hennar er einn mikilvægasti árangur leiðtogafundarins að mínu mati.
    Enn fremur lýsti ég stuðningi við nauðsynlega endurskoðun á eftirlitskerfi mannréttindasáttmálans vegna fjölgunar aðildarríkja Evrópuráðsins.
    Í yfirlýsingu leiðtogafundarins, Vínaryfirlýsingunni, er ráðherranefnd ráðsins falið að semja á næstunni drög að rammasamningi sem fastsetji grundvallarreglur um réttindi þjóðernisminnihluta. Jafnframt var nefndinni falið að hefja undirbúning að gerð viðauka við mannréttindasáttmálann til þess að tryggja réttindi einstaklinga í menningarlegum efnum, einkum réttindi einstaklinga sem tilheyrðu minnihlutahópum. Á leiðtogafundinum tókst þannig að ýta málinu úr vör með málamiðlun en enn er augljóslega langt í land að samkomulag náist um aðgerðir til að leysa úr vanda þjóðernisminnihluta. Ágreiningur um skilgreiningaratriði má ekki standa í veginum eða mótbárur ríkja sem hafa minnihlutahópa innan landamæra sinna.
    Eins og áður sagði er með Vínaryfirlýsingunni hrint af stað áætlun um aðgerðir gegn kynþáttahatri, útlendingaandúð, gyðingahatri og vægðarleysi í skoðunum. Til að fylgja málum eftir var ákveðið að stofnuð yrði föst sérfræðinganefnd sem endurskoðaði löggjöf og stefnu aðildarríkjanna gegn misrétti af þessu tagi og gerði tillögur um úrbætur og aðgerðir. Þá verður hafið átak meðal æskulýðs í samvinnu Evrópuráðsins og evrópskra æskulýðssamtaka til þess að efla umburðarlyndi og virðingu fyrir fólki og berjast gegn kynþáttamisrétti, útlendingaandúð og öðrum fordómum. Til lengri tíma litið kann þetta að verða veigamesti hluti áætlunarinnar.
    Endurskoðun á eftirlitskerfi mannréttindasáttmála Evrópu verður háttað þannig að saminn verður viðauki við sáttmálann sem felur meðal annars í sér að mannréttindanefndin og mannréttindadómstóllinn verða sameinuð í einn dómstól. Markmiðið er að auka skilvirkni eftir fjölgun aðildarríkja Evrópuráðsins og er stefnt að undirritun viðaukans á ráðherranefndarfundi í maí á næsta ári.
    Meiri óvissa ríkir nú í Evrópu en verið hefur um langt skeið. Auk átakanna í fyrrverandi Júgóslavíu og hættu á útbreiðslu þeirra er skemmst að minnast valdaránstilraunarinnar í Moskvu í byrjun október síðastliðins. Leiðtogafundur Evrópuráðsins, sem átti sér stað nokkrum dögum eftir þann atburð, samþykkti sérstaka ályktun um Rússland. Þar var lýst samstöðu með stuðningsmönnum umbótastefnu Borisar Jeltsíns, forseta, og látin í ljós sú ósk að staðið verði áfram af festu að lýðræðisþróun í landinu. Megináhersla var lögð á að haldnar yrðu svo fljótt sem auðið væri frjálsar kosningar sem gerðu rússnesku þjóðinni kleift að tjá sig um framtíð sína. Enn fremur var staðfest að ríki Evrópuráðsins væru staðráðin í að veita umbótaferlinu í Rússlandi virkan stuðning með því meðal annars að leggja aukna áherslu á það í samvinnuverkefnum ráðsins með Rússlandi að veita aðstoð við mótun lýðræðislegra stofnana og réttarkerfis, þar sem lögð væri áhersla á virðingu fyrir mannréttindum og skipun laga og réttar.
    Íslensk stjórnvöld gáfu út yfirlýsingu hinn 4. okt. síðastliðinn þar sem lýst var alvarlegum áhyggjum vegna þeirra átaka sem þá áttu sér stað í Moskvu. Jafnframt var ítrekaður stuðningur við Boris Jeltsín, forseta Rússlands, sem væri lýðræðislega kjörinn leiðtogi rússnesku þjóðarinnar.
    Vissulega á Jeltsín forseti stuðning skilinn og réttilega eru þeir fordæmdir sem hefja vopnaða aðför að lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum. Þegar upp er staðið snýst þó meginmálið ekki um einstaklinga, heldur grundvallarreglur lýðræðisins.
    Ég hygg að ég sé nú kominn alllangt í að fjalla um þessa skýrslu og reyndar finnst mér ég kannast við textann sem ég er nú þegar tekinn að lesa og ég hygg, virðulegur forseti, að ég láti staðar numið en ég tek þátt í umræðum hér á eftir sem ég vona að verði málefnalegar og góðar.