Niðurstöður fundar leiðtoga Evrópuráðsins í Vínarborg

33. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 13:57:52 (1249)

[13:57]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Vegna þeirra spurninga sem hv. þm. kom með, þá vil ég nefna það sérstaklega út af hinni fyrri, hvort það hafi verið andstaða við þau sjónarmið að tryggja bæri afstöðu þjóðernisminnihlutahópa, þá hygg ég að það sé ekki hægt að segja að það hafi verið andstaða á fundinum. Hins vegar mætti segja að í túlkun sumra fulltrúanna hafi komið fram ákveðinn sveigjanleiki við það. Mér fannst þess gæta til að mynda í túlkun forsætisráðherra Tyrklands og reyndar forsætisráðherra Spánar og reyndar hjá nokkrum fleirum að menn túlkuðu þetta örlítið með nokkuð öðrum brag heldur en við mundum kannski vilja kjósa að það væri túlkað. Þessar þjóðir telja sig hafa við erfiðleika að etja innan sinna vébanda. Það er ekki hægt að segja að þær hafi beinlínis verið í andstöðu við þessar hugmyndir, en þær höfðu á þeim mismunandi túlkun.
    Varðandi hitt, þá lítum við þannig á að við stöndum kannski betur en flestar aðrar þjóðir gagnvart þessum þáttum sem hér er verið að fjalla um, kynþáttafordóma, gyðingahatur, útlendingahatur og vægðarleysi í skoðunum --- við getum svo sem verið nokkuð vægðarlaus í skoðunum á köflum --- en ég get tekið undir það með hv. þm. að það er þó ástæðulaust fyrir okkur að telja að við séum yfir alla hafin í þeim efnum og ég hygg að við eigum að taka fullan þátt í og fylgja eftir til að mynda kynningarstarfi sem á að miðast að æskulýði í Evrópu. Ég hygg að við eigum ekki að telja okkur vera neitt undanskilin í þeim efnum.