Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

34. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 14:26:28 (1256)

[14:26]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi eru yfirlýsingar hæstv. forsrh. um þróunarsjóðinn harla léttvægar. Hæstv. forsrh. sagði hér í sérstakri ræðu sem hann flutti í nóv. 1992 að það frv. yrði lagt fram innan nokkurra vikna og yrði afgreitt á því þingi. Það vita allir að svo var ekki gert.
    Hæstv. forsrh. sagði í sumar þegar gengið var fellt að frv. um þróunarsjóð yrði eitt af fyrstu málum þingsins og hefði forgang. Nú er þingið búið að taka hér til meðferðar yfir 200 mál og þróunarsjóðurinn er ekki enn kominn fram þannig að allar yfirlýsingar hæstv. forsrh. um það efni eru því miður harla lítils virði. Það er hins vegar ekki kjarni máls sem við erum að fjalla um hér. Kjarni máls er sá að það eru gildandi lög í landinu sem ákveða að stjórn Hagræðingarsjóðs eigi að fara með aflaheimildirnar með tilteknum hætti. Stjórnin hefur ekki gert það núna í um það bil tvo mánuði. Verði sú brtt. sem hér hefur verið flutt felld, þá stendur stjórnin frammi fyrir því að vilji þingsins er alveg skýr og orð hæstv. forsrh. eru ekki vilja Alþingis æðri.
    Í þriðja lagi, virðulegi forsrh., fór hér fram að ráðherranum fjarstöddum nokkur umræða fyrr í dag um 43. gr. þingskapalaga, sem kveður á um það að lagafrv. sem hefur verið fellt sé ekki hægt að bera upp aftur á sama þingi. Og á því var vakin athygli að andi þessarar greinar þingskapalaganna sé auðvitað sá að séu efnisatriði þessa lagafrv. borin upp sem sérstök brtt. og felld, þá gildi það að sjálfsögðu. Ella væri hægt fyrir einstaka þingmenn að taka lagafrumvörp upp sem hafa verið felld með brtt. Þannig að ríkisstjórnin stendur frammi fyrir því og það er við því, hæstv. forsrh., sem við viljum fá svar. Með hvaða rökum telur forsrh. að stjórn Hagræðingarsjóðs geti ekki hafist handa ef tillagan verður felld hér á eftir og í öðru lagi, hvernig ætlar hann að koma inn með málið aftur með tilvísan til 43. gr. þingskapalaga?