Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

34. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 14:44:22 (1262)

[14:44]
     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :

    Hæstv. forseti. Ég er alveg hjartanlega sammála hv. 1. þm. Norðurl. v. Það sem ég átti hins vegar við varðandi óskýra stöðu málsins snýr að stöðu samningaviðræðna milli stjórnarflokkanna um sjávarútvegsmálin og það hefði auðvitað verið eðlilegt að hér við þessa umræðu hefðu legið fyrir einhverjar upplýsingar um það hvers væri að vænta ef einhvers úr þeirri átt. Svo er ekki.
    Varðandi efnisafgreiðslu brtt. er það alveg skýrt eða á að geta verið öllum hv. alþm. alveg skýrt. Tillagan er einföld, gengur út á það að veiðiheimildum Hagræðingarsjóðs á yfirstandandi fiskveiðiári verði úthlutað án endurgjalds til þeirra fiskiskipa sem orðið hafa fyrir mestri skerðingu við úthlutun aflamarks á þessu fiskveiðiári. Einfaldara getur það ekki verið. Og það fer fram hér á eftir efnisleg atkvæðagreiðsla um þetta atriði. Við lítum svo á að verði þetta fellt þá hafi komið fram efnisleg afstaða Alþingis varðandi þetta ár og meðferð fiskveiðiheimildanna á þessu ári. Það er ekki hægt að líta öðruvísi á málið. Þess vegna lít ég svo á að hæstv. ríkisstjórn sé þá nauðugur sá kostur að leggja til einhverja aðra meðferð veiðiheimildanna ef hún ætlar að bera það fyrir Alþingi á nýjan leik hvernig með veiðiheimildir Hagræðingarsjóðs skuli fara á fiskveiðiárinu 1993--1994. Það er ekki hægt að bera fram á nýjan leik á sama þingi nákvæmlega sams konar efnislega meðferð málsins. Það er ómögulegt og lög banna það, fyrir utan siðferðislega hlið þess máls og þá virðingu sem menn mundu þá sýna Alþingi og efnislegum afgreiðslum á þinginu yfirleitt með slíku. Um þennan þátt málsins erum við hv. þm. Páll Pétursson og ég hjartanlega sammála.