Niðurstöður fundar leiðtoga Evrópuráðsins í Vínarborg

34. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 14:54:34 (1264)

[14:54]
     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Mig langar til að leggja örfá orð í belg í umræðu um þessa skýrslu hæstv. forsrh. um Evrópuráðið og vil byrja á því að þakka honum fyrir skýrsluna og það efni sem hér er lagt fyrir þingið, svo og greinargerð hans með skýrslunni.
    Ég tel að það sé afar mikilvægt fyrir Alþingi að taka þetta mál til umræðu í kjölfar þess leiðtogafundar sem haldinn var í Vínarborg í október sl. þar sem fjallað var um Evrópuráðið, hlutverk þess og framtíð. ( Forseti: Forseti biður um kyrrð í salnum.) Ég held að það sé of sjaldan sem við gefum okkur tíma til þess að ræða hlutverk alþjóðlegra stofnana sem við tökum þátt í og erum aðilar að, hlutverk þeirra og tilgang okkar með þátttöku í þessu alþjóðlega samstarfi og hvað við höfum út úr slíku samstarfi.
    Við erum æðioft spurð að því hvað Íslendingar séu að gera í samstarfi sem þessu. Við erum spurð

að því sem eintaklingar hvað við séum að gera á erlendri grund þegar við tökum þátt í þessum fundum, fundum slíkra stofnana eða nefndafundum á þeirra vegum eða hvað það nú er sem krafist er sem aðilar að viðkomandi stofnunum. Við erum jafnframt spurð oft og tíðum: Hvað er Evrópuráðið? Það virðist nú einu sinni vera svo að fjölmargir séu ekki svo áhugasamir um ýmsa alþjóðlega samvinnu og samstarf okkar að þeir fylgist nákvæmlega með því og blanda þá kannski saman hinum einstöku stofnunum, Evrópuráði, Evrópubandalagi, EFTA, EES og hvað þetta nú heitir allt saman og er og þess vegna m.a. er full ástæða til þess að nota þau tækifæri sem gefast til þess að gera grein fyrir þessu starfi og þátttöku okkar í því.
    Við sem höfum tekið þátt í samstarfi af þessu tagi erum sjálfsagt flest sammála um að það sé mikilvægt, bæði fyrir okkur sem einstaklinga, fyrir þingið okkar, fyrir Alþingi, fyrir þjóð okkar og vonandi einnig fyrir það samstarf sem við erum að taka þátt í, að við Íslendingar þó fáir séum og smáir höfum eitthvað að segja í þessu alþjóðlega samstarfi, höfum eitthvað að gefa og getum veitt leiðsögn og leiðbeiningu jafnframt því sem við tökum á móti og erum þiggjendur í samstarfi af þessu tagi.
    Við erum þá líka spurð: Hverju getum við komið til leiðar og hvað getum við látið af okkur leiða? Það er kannski einmitt hvað mikilvægast í umræðu um þessa skýrslu. Hvað getum við gert, hver er tilgangur Evrópuráðsins og hver er tilgangur með okkar þátttöku? Ég vil þess vegna lýsa ánægju með það sem fram kemur hér í ávarpi forsrh. Íslands á þessum leiðtogafundi þar sem hann hefur lagt áherslu á ýmis efni sem ég get tekið fyllilega undir og eru kannski í dag stærstu verkefni Evrópuráðsins að fjalla um, t.d. verndun þjóðernisminnihluta eða verndun minnihlutahópa og að minnihlutahópar eigi sinn rétt og þess réttar sé gætt. Í ávarpi hans er einnig lögð áhersla á aðgerðir gegn kynþáttahatri og útlendingaandúð og öðru slíku sem við Íslendingar höfum einnig lagt mikla áherslu á að ætti ekki að viðgangast hvorki í okkar þjóðfélagi né annars staðar og undir þessi áhersluatriði í ávarpi forsrh. Íslands get ég svo sannarlega tekið. Þar að auki kemur einnig fram í þessari skýrslu sú skoðun að það sé mikilvægt að Íslendingar séu þátttakendur í alþjóðlegu samstarfi af þessu tagi og kannski ekki síst einmitt í Evrópuráðinu. Reyndar er þar í skýrslunni verið að vitna til niðurstöðu nefndar sem vann á vegum ríkisstjórnarinnar og fjallaði um öryggis- og varnarmál, en þar er einmitt undirstrikað að Ísland eigi að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi þar sem við getum gert það til jafns við aðra án þess t.d. að þurfa að leggja fram herafla. Og það er einmitt í samtökum eins og Evrópuráðinu sem við getum verið virkir þátttakendur með okkar atkvæði og okkar málfrelsi og tillögurétt og á þann hátt lagt okkar skerf af mörkum til að tryggja frið og frelsi í Evrópu.
    Með þeirri þátttöku okkar gefst okkur eins og hér segir líka færi á því að taka þátt í að byggja upp hina nýju Evrópu sem menn tala gjarnan um, þ.e. þá möguleika sem nú eru uppi að sameina Evrópu og þá kannski helst undir merkjum Evrópuráðsins eftir þær breytingar sem orðið hafa í Mið- og Austur-Evrópu við fall kommúnismans. Við hljótum þess vegna að velta líka fyrir okkur í því nýja umhverfi hver séu áhersluatriði okkar, hvernig getum við orðið að liði. Ég hef tekið þátt í störfum Evrópuráðsins í þremur nefndum. Þær tvær nefndir sem ég hef lagt meiri áherslu á að starfa í fjalla einkum um efnahagsmál og umhverfismál og einmitt báðir þeir málaflokkar hafa verið mjög áberandi í starfi Evrópuráðsins að undanförnu í tengslum við hinn mikla áhuga Mið- og Austur-Evrópuríkja að taka þátt í þessu samstarfi og með því ef til vill að leggja áherslu á það sem virðist vera mikið baráttumál þessara þjóða að í þessum löndum ríki lýðræði, frelsi og jafnrétti. Með þátttöku í Evrópuráðinu telja þessar þjóðir sig hafa fengið nokkurs konar stimpil á að mannréttinda sé vissulega gætt í viðkomandi ríkjum og Evrópuráðið hefur viðhaldið ströngum skilyrðum þannig að á aðild að því má kannski líta sem nokkurs konar nálarauga eins og það er orðað í þessari skýrslu.
    En það eru einmitt þessir þættir, efnahagsmálin og umhverfismálin, sem eru eitt af stóru vandamálunum og viðfangsefnunum hjá Mið- og Austur-Evrópuþjóðunum og þar hljótum við að reyna að leggja okkar af mörkum eftir því sem við getum og teljum okkur reyndar hafa nokkurt erindi inn í þá umræðu.
    Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hér yfir Alþingi Íslendinga. Það vita auðvitað hv. þingmenn hvernig málum háttar hjá okkur og hvað við getum lagt fram en það er kannski þetta sem við þurfum að koma til skila til þjóðarinnar að við eigum erindi inn í umræðuna og getum e.t.v. kennt þessum þjóðum sem nú eru að fást við algerleg nýtt umhverfi, nýtt efnahagsumhverfi, ný sjónarmið og ný viðhorf. Hvernig lýðræði og frelsi er í raun uppbyggt og það frjálsa hagkerfi sem við teljum okkur þó vilja undirstrika og leggja áherslu á að þessar þjóðir þurfi að koma á hjá sér.
    Ég get sagt frá því sem minni reynslu eftir að hafa átt viðræður við ýmsa þingmenn frá þessum þjóðum að vegurinn að þessu markaðsfrelsi frá hinu kommúníska eða miðstýrða þjóðfélagi yfir í markaðsþjóðskipulagið er grýttur og ekki að undra þó að það kunni að verða ýmsar hindranir á veginum eins og reyndar sýnir sig. Atvinnuleysi hjá þessum þjóðum eða í þessum löndum er gífurlegt og ýmiss konar efnahagsleg vandamál er við að glíma. Og einmitt vegna þess hversu menn voru bjartsýnir á að þessi þjóðskipulagsbreyting, eða kannski má kalla það byltingu, gæti gengið hratt fyrir sig þá hafa menn líka orðið fyrir vonbrigðum. Sumar þjóðirnar hafa líka í kosningum orðið að upplifa það að arftakar fyrri kommúnistaflokka hafa aftur fengið verulegt afl atkvæða vegna þess að þolinmæði þjóðarinnar hefur verið svo lítil, væntingarnar svo miklar um skjótar breytingar. Þetta höfum við heyrt í máli þingmannanna og við skiljum það auðvitað, en spurningin er þá líka sú sem vakar: Er of geyst farið eða var hægt og er hægt að fara einhvern veginn öðruvísi í þessa breytingu? Sjálfsagt verða þessi umskipti að gerast nokkuð hratt, eins hratt eins og mögulegt er til þess að þau geti gengið fram því að hæg þróun úr þessu gerbreytta þjóðskipulagi

hafi ekki verið möguleg eða ekki fyrir hendi. Þó er forvitnilegt að fylgjast með því hvað gerist t.d. í Kína og í öðrum ríkjum sem enn búa við það þjóðskipulag. Hvernig gengur þeim að feta sig yfir í annað þjóðskipulag, annað hagkerfi, án þess að þar verði alger bylting? Kannski gerist það ekki öðruvísi en með byltingu, um það er ekki hægt að segja á þessari stundu.
    Mig langar til þess í framhaldi af þessum vangaveltum mínum um þjóðskipulag og uppbyggingu þess að geta þess að ég veitti því sérstaka athygli þegar forseti okkar Íslendinga, frú Vigdís Finnbogadóttir, ávarpaði Evrópuráðið 28. sept. sl. þá bauð hana velkomna til Evrópuþingsins forseti þingsins og gat þess m.a. í ávarpsorðum til forseta Íslands að hann hefði verið hér í heimsókn á sl. sumri og að margt hefði vakið athygi sína m.a. umhverfismál á Íslandi, hvernig Íslendingar umgengjust náttúruna, hvernig Íslendingar reyndu að umgangast sín auðæfi með virðingu fyrir þeim og á þann hátt að þau skiluðu sér til þjóðfélagsins og við reyndum að ganga þannig um náttúruauðæfin að við gengjum ekki of nærri þeim. Einnig nefndi hann sérstaklega að hann hefði veitt því athygli hversu vel Íslendingar byggju, ef maður má nota orðið ,,lífsstandard``, hversu lífsstandardinn væri hér hár eða það stig sem við teljum okkur vera á væri hér hátt efnahagslega og það væri sérstaklega athyglisvert að enginn virtist líða skort eða fátækt og bætti við að e.t.v. væri það vegna þess að það virtist heldur enginn lifa við óhófleg eða óeðlileg auðæfi. Það væri sem sagt jöfnuðurinn sem ríkti í þessu þjóðfélagi, hið félagslega réttlæti og jöfnuður og lýðræði sem hér ríkti sem væri mest áberandi. Þetta fannst mér athyglisvert í ávarpi hans og segir okkur auðvitað að stundum er glöggt gests augað. Það væri líka hægt að taka nokkra umræðu um það hér á hvaða braut við erum. Tekst okkur að varðveita þetta félagslega réttlæti? Tekst okkur að varðveita þann jöfnuð og það lýðræði sem ríkir í landinu án þess að nokkur verði raunverulega fátækur eða óhóflega ríkur?
    Því miður höfum við heyrt þær sögur einmitt frá Austur-Evrópuþjóðunum að þar sé að gæta þessarar tilhneigingar og það sé e.t.v. hluti af þeirri óþolinmæði sem þar ríkir nú að þegnarnir horfa upp á það að hið kapítalíska markaðskerfi, sem þeir eru að reyna að koma upp, fari svo hratt fram að þar sé orðin áberandi misskipting auðs. Þá er það ekki hin rétta og eðlilega þróun sem við viljum stuðla að. Við skulum hins vegar reyna að leggja okkar af mörkum til þess að þjóðfélögin verði byggð upp með félagslegu og efnahagslegu réttlæti og jafnræði eins og mögulegt er.
    Þetta eru þeir þættir, hæstv. forseti, sem ég vildi undirstrika og draga fram í þessari umræðu. Ég sé að tími minn er að renna út og hef ekki ástæðu til að lengja mál mitt mjög en vil aftur endurtaka þakkir mínar til hæstv. forsrh. fyrir þessa skýrslu og fyrir hans ræðu og ekki síst þau áhersluatriði sem komu fram í hans ávarpi sem ég nefndi fyrri ræðu minni. Mig langar að lokum að árétta þær spurningar sem m.a. komu fram í máli hv. 18. þm. Reykv., Kristínar Ástgeirsdóttur, þegar hún gerði grein fyrir viðhorfi sínu til þessarar skýrslu áðan um hvernig hæstv. forsrh. sér fyrir sér að við getum tekið þátt í þessari svokölluðu víðtæku herferð meðal æskulýðs í Evrópu þar sem lögð er áhersla á, undir yfirumsjón Evrópuráðsins, að eiga samvinnu við æskulýðssamtök um alla Evrópu, í hverju ríki og í hverju byggðarlagi eins og hér er tekið til orða til að knýja á eða til þess að koma fram og opna augu þjóða fyrir því að gætt sé að réttindum minnihlutahópa, þjóðernisminnihluta, og að opna augu fyrir því hvernig menn geta komið í veg fyrir að öfgakennd þjóðernishyggja og kynþáttahatur, útlendingahatur og hvað það nú allt er sem við virkilega höfum áhyggjur af og berum ugg í brjósti vegna, verði ráðandi í þjóðfélögunum. Hvernig geta menn aukið skilning ungs fólks um heim allan fyrir mannréttindum og lýðræði sem er einmitt einkunnarorðin og undirstöðuatriðin í stefnu og störfum Evrópuráðsins.