Niðurstöður fundar leiðtoga Evrópuráðsins í Vínarborg

34. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 15:14:05 (1266)

[15:14]
     Björn Bjarnason :
    Frú forseti. Ég vil eins og aðrir ræðumenn þakka hæstv. forsrh. fyrir þá skýrslu sem hann hefur hér kynnt og flutt okkur. Ég vil einnig þakka hv. 18. þm. Reykv. fyrir það frumkvæði sem hún hafði að því að biðja um þessa skýrslu og þar með þessar umræður. Ég tel að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur að ræða mál af þessu tagi hér í þinginu og að gögn af fundum sem þessum, leiðtogafundum, liggi fyrir á íslenskri tungu og séu öllum þeim aðgengileg sem hafa áhuga á að kynna sér þau og kynna sér það sem gerist á fundum eins og þessum. Og það færi vel á því að taka þetta upp varðandi fleiri þætti í alþjóðlegu samstarfi okkar Íslendinga, t.d. eins og varðandi Atlantshafsbandalagið. Í byrjun næsta árs verður leiðtogafundur þess og færi vel á því að þingnefndir sem sinna slíkum málum hefðu frumkvæði að því að að stofna til umræðna hér á þinginu um slíka fundi og fá á íslensku skýrslur um fundina.
    Ég tel að það sé rétt sem hér hefur komið fram í máli ræðumanna, að þessi leiðtogafundur í Vínarborg hafi þjónað mikilvægum tilgangi. Þetta er fyrsti leiðtogafundurinn í sögu Evrópuráðsins sem stofnað var 1949 eins og fram hefur komið. Á fundinum fluttu leiðtogar 29 aðildarríkja ræður. Það voru þrír sem ekki sáu sér fært að sækja fundinn.
    Ég vil láta þess getið hér, frú forseti, að á fundi forsætisnefndar þings Evrópuráðsins sem haldinn var í síðustu viku var fjallað um þennan leiðtogafund og þar kom það sérstaklega fram í máli forseta þingsins, Miguel Martínez, forseta Evrópuráðsins, að ræða forsrh. Íslands hefði vakið sérstaka athygli hans fyrir það hve dyggilega hæstv. forsrh. tók undir helstu stefnumál Evrópuráðsþingsins varðandi leiðtogafundinn. Þegar menn lesa ávarp hæstv. forsrh. á leiðtogafundinum þá sjá menn að hann víkur þar að þeim málefnum sem hæst hefur borð í störfum Evrópuráðsþingsins og tengjast þessum leiðtogafundi. Og mér finnst það rétt, frú forseti, að ég komi þakklæti forsætisnefndar og forseta þings Evrópuráðsins á framfæri hér á Alþingi við forsrh. og láti það koma fram að það var mikils metið af forsætisnefnd þingsins hvernig að málum var staðið í málflutningi íslensku sendinefndarinnar.
    Það eru nokkur atriði sem standa upp úr þegar ályktun leiðtogafundarins er skoðuð. Það er í fyrsta lagi, með leyfi forseta, þessi kafli: ,,Evrópuráðið eru helstu stjórnmálasamtök Evrópu sem geta innan vébanda varanlegra stofnana sinna boðið velkomin til starfa á jafnréttisgrundvelli þau lýðræðisríki Evrópu sem frelsuð hafa verið undan oki kommúnismans. Af þeirri ástæðu skiptir aðgangur þessara ríkja að Evrópuráðinu meginmáli við uppbyggingu Evrópu í samræmi við grundvallarreglur samtakanna.``
    Þarna er vikið að þeirri staðreynd að Evrópuráðið er sá sameiginlegi vettvangur Evrópuríkjanna og sá skipulagsbundni vettvangur Evrópuríkjanna þar sem hin nýfrjálsu ríki í Austur- og Mið-Evrópu hafa getað gengið til samstarfs við lýðræðisríkin og átt þess kost að kynnast starfsháttum og þeim reglum sem við í lýðræðisþjóðfélögum höfum komið okkur saman um á alþjóðlegum vettvangi, til þess að efla lýðræðislega stjórnarhætti og treysta mannréttindi. Það er mjög mikilvægt fyrir þessar þjóðir að geta átt aðild að samstarfi sem byggist á þessum grundvallarforsendum. Það er einnig mjög mikilvægt að þessar stofnanir Evrópuráðsins, þingið, ráðherranefndin, dómstóllinn eða mannréttindanefndin og aðrar stofnanir, standi þannig að málum að því sé fylgt eftir að þessi ríki standi við þær skuldbindingar sem þau gengust undir við aðildina, að virða mannréttindi og gæta réttinda borgaranna í hvívetna. Þetta er áréttað í Vínaryfirlýsingunni, m.a. þar sem því er lýst yfir að endurbæta skuli eftirlitskerfi mannréttindasáttmála Evrópu með því að sameina mannréttindanefndina og Mannréttindadómstólinn í einn fastskipaðan dómstól, sem starfi þannig að gangur mála sé greiður og að borgararnir geti á tiltölulega skömmum tíma fengið úrskurð frá dómstólnum um réttindi sín ef þeir telja á sér brotið. Síðan er það í ályktuninni sem vekur athygli og menn hafa gert hér að umtalsefni, þeir tveir þættir sem lúta annars vegar að málefnum þjóðernisminnihluta og hins vegar að útlendingahatri, kynþáttahatri, gyðingahatri og vægðarleysi í skoðunum. Þarna er verið að fara inn á nýjar brautir. Þarna er verið að leggja til að mannréttindaákvæði sáttmála Evrópu nái yfir ný svið sem ekki hefur verið fjallað um nægilega ítarlega, að mati þeirra sem að þessum ályktunum standa, og að ráðið fari inn á þessi svið með því að setja um þau sáttmála eða gera um þau sáttmála og vinni að athugunum innan einstakra aðildarríkja sem miði að því að tryggja rétt minni hlutanna og rétt þeirra sem sæta hatri vegna kynþáttar, uppruna síns eða trúarbragða og skoðana. Það segir hér í aðgerðaráætlun: ,,Stofnuð verði nefnd sérfræðinga á vegum hins opinbera sem gegni því hlutverki að endurskoða löggjöf, stefnu og

aðgerðir aðildarríkjanna í því skyni að vinna gegn kynþáttahatri, útlendingahatri, gyðingahatri og vægðarleysi í skoðunum, svo og að kanna hver reynslan hefur verið,`` svo að ég leyfi mér að vitna beint í þetta skjal, með leyfi virðulegs forseta.
    Ég tel nú að íslenska þýðingin sé almennari í þessu tilliti heldur en hinn enski texti. Að stofna slíka sérfræðinganefnd á vegum ríkisstjórna töldu menn innan vébanda Evrópuráðsþingsins, í þeim nefndum sem um þetta mál hafa fjallað, að sé í það þrengsta. Þingmenn kjósa að þarna sé ekki aðeins um embættismenn á vegum ríkisins að ræða, heldur verði litið til þess að velja í slíka sérfræðinganefnd menn sem njóta virðingar og viðurkenningar sem áhrifamenn varðandi baráttuna fyrir mannréttindum og gæslu hagsmuna einstaklinganna þannig að þessi nefnd láti verulega að sér kveða, en hún verði ekki nefnd embættismanna á vegum ríkisstjórnar sem kannski hafi ekki þess vegna það frumkvæði sem menn vænta af slíkum nefndum.
    Ég vildi láta þetta koma fram og beina því til hæstv. forsrh. að hann hugi að því þegar ríkisstjórn Íslands velur fulltrúa sinn í þessa nefnd að litið verði til þess hvort ekki sé hægt að velja mann eða menn með þeim hætti að tekið sé tillit til þess að þarna sé ekki endilega um opinbera embættismenn að ræða.
    Ég tel og vil íteka það sem áður hefur komið fram í máli mínu þegar ég hef rætt um stöðu og störf Íslands í Evrópuráðinu, að þá hafi þeim kannski ekki verið gert nægilega hátt undir höfði. Og að Evrópuráðið sé nú jafnvel mikilvægari vettvangur fyrir okkur Íslendinga heldur en oft áður og kannski nokkru sinni fyrr, með hliðsjón af framvindunni í málefnum Evrópu og þeirri staðreynd að við höfum einir Evrópuríkja ekki lýst yfir þeim ásetningi okkar að tengjast Evrópusamrunanum með þeim hætti sem hann er mótaður á vettvangi Evrópubandalagsins og á grundvelli Maastricht-samkomulagsins sem Evrópubandalagið hefur nú hrundið í framkvæmd. Við höfum ekki ákveðið að gerast þátttakendur í þeirri samrunaþróun, en við viljum hins vegar rækta og hafa góð pólitísk tengsl við Evrópuríkin. Ég held að við eigum að líta á Evrópuráðið í þessu tilliti og við eigum að stuðla að því eins og frekast er kostur að þau tengsl verði náin og mikil þannig að við höfum aðgang að pólitísku samstarfi á vettvangi Evrópuráðsins. Og ég fagna því sérstaklega að forseti Íslands skuli hafa ávarpað þing Evrópuráðsins nú í september og að forseti Evrópuráðsþingsins skuli hafa komið hingað í opinbera heimsókn á sl.sumri.
    Ég vildi, frú forseti, nota þetta tækifæri til þess að beina því til hæstv. forsrh. að hann hugi að því hvernig verði staðið að skipun fulltrúa Íslands í þessa nefnd sem ég gat um. En ég vil einnig beina því til hæstv. forsrh. sem hann segir í ávarpi sínu á fundinum, sem er fskj. 1 í skýrslunni, með leyfi frú forseta:
    ,,Ég vil einnig víkja að eftirlitskerfi mannréttindasáttmála Evrópu. Ásamt félagsmálasáttmálanum og sáttmálanum til varnar gegn pyndingum og ómannúðlegri eða vanvirðindi meðferð eða refsingu, hefur mannréttindasáttmálinn gegnt lykilhlutverki við að vernda mannréttindi.``
    Þarna nefnir hann þessa þrjá meginsáttmála. Það er kunnugt að nú í sumar voru hér á ferðinni eftirlitsmenn varðandi það hvort Íslendingar uppfylli þau skilyrði sem sett eru í sáttmálanum, gegn pyndingum og ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Eftirlitsmennirnir gerðu úttekt á íslenskum fangelsum og e.t.v. fleiri stofnunum til þess að kanna hvernig við stöndum að því að uppfylla þennan sáttmála. En varðandi félagsmálasáttmálann, þá vil ég beina því sérstaklega til forsrh., þar sem hann leggur jafnríka áherslu og raun ber vitni á gildi hans og nauðsyn þess að menn standi við hann, að hann kanni hvernig það mál standi að því er Ísland varðar. Því eftirlitsnefnd og sérfræðinganefnd sem starfar á vegum Evrópuráðsins og kannar hvernig ríki standi að því að uppfylla félagsmálasáttmála Evrópu, hefur oftar en einu sinni gert athugasemdir við löggjöf hér á landi sem snertir réttindi manna varðandi aðild að félögum o.s.frv. Og nú síðast í vor voru gerðar alvarlegar athugasemdir við þessi mál að því er okkur Íslendinga varðar. Ég vildi mælast til þess við forsrh. að hann beitti sér fyrir því á vettvangi ríkisstjórnarinnar að það yrði reynt að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til okkar á þessu sviði og að stefna ríkisstjórnarinnar í þessum málum sé á þann veg að það samrýmist þeim ákvæðum sem um er getið í þessum sáttmálum. Það liggja fyrir bréf frá ríkisstjórn Íslands til Evrópuráðsins um þessi mál sem ég tel að þurfi endurskoðunar við vegna þeirra athugasemda sem gerðar hafa verið á vegum þessara sérfræðinga og embættismannanefndar sem fjallar um félagsmálasáttmálann. Það er mjög brýnt fyrir okkur Íslendinga að við hugum vel að því þegar við erum að leggja á ráðin og leggja öðrum þjóðum lífsreglurnar varðandi lýðræðislega stjórnarhætti og mannréttindi að við stöndum þannig alfarið að okkar málum að ekki sé ástæða til gagnrýni þegar litið er á þau af hlutlausum, erlendum aðilum, sérstaklega málum sem snerta mannréttindi og lýðræðislega stjórnarhætti.
    Ég fagna því að ríkisstjórnin hefur lagt fram frv. til þess að lögfesta mannréttindasáttmála Evrópu. Ef til vill væri ástæða til þess í framhaldinu að huga að því að lögfesta fleiri sáttmála, sem gerðir hafa verið á vettvangi Evrópuráðsins. En ég vildi nota þetta tækifæri, herra forseti, til þess að koma þessum ábendingum á framfæri við forsrh. í almennum umræðum um leiðtogafundinn, því forsrh. er hér sem þátttakandi í þessum umræðum og þess vegna kjörið tækifæri til þess að beina til hans almennum athugasemdum varðandi þátt Íslands í Evrópuráðinu og þá vil ég sérstaklega nefna eins og ég gerði félagsmálasáttmálann og spurninguna um þessa sérfræðinganefnd til þess að fylgjast með kynþáttahatri og öðru slíku.