Niðurstöður fundar leiðtoga Evrópuráðsins í Vínarborg

34. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 15:27:48 (1267)

[15:27]
     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir sem tekið hafa til máls í þessari umræðu þakka fyrir að fá þessa skýrslu og umfjöllun um hana. Mér hefur fundist hún fróðleg og jákvæð sú umræða sem hér hefur farið fram. Ég vona líka að breytt þingsköp muni hafa þau áhrif að við fáum oftar slíkar skýrslur á dagskrá og umræður, vegna þess að ég tel að þau ákvæði sem áður giltu hafi oft hamlað því að áhugaverðar skýrslur hafi komist á dagskrá tímanlega og eðlilega, ef ég má nota það orð.
    Ég vil líka þakka framlag okkar forráðamanna, forseta og forsrh., á þessum fundi vegna þess að það er mjög til sóma fyrir okkar þjóð þegar þátttaka er með þeim hætti sem hér hefur komið fram.
    Ég vil taka undir það að ákvarðanir þjóðhöfðingja og forsrh. sem eru settar fram í 6 liðum hér á bls. 10 í skýrslunni eru mjög jákvæðar og mikilvægt ef eftir þessu verður unnið. Ég ætla í engu að gera upp á milli þessara þátta en fyrst og fremst að gera einn þátt sem þarna er nefndur að umræðuefni mínu, en nefni hins vegar tvo.
    Það er þá fyrst og fremst þessi liður, að marka þá stefnu að berjast gegn kynþáttahatri, útlendingahatri, gyðingahatri og vægðarleysi í skoðunum og samþykkja í því skyni yfirlýsingu og framkvæmdaáætlun, samanber ákvörðun sem tilgreind er í viðauka 3. Og svo það að fara þess á leit við Evrópuráðið að það kanni leiðir til að stuðla að þróun menningarmálaviðburða í Evrópu í samvinnu hins opinbera og samfélagsins almennt.
    Ég er ekki í neinum vafa um að þessir tveir þættir sem hér eru nefndir og eru þeir einu sem ég ætla að nefna í skýrslunni eru mjög samofnir og skiptir máli að þeim sé framfylgt og sá síðari styður í ríkum mæli aðgerðir í þeim fyrri. Á bls. 4 er sérstaklega nefnt að það verði hafið átak á meðal æskulýðs í samvinnu Evrópuráðsins og evrópskra æskulýðssamtaka til að efla umburðarlyndi og virðingu fyrir fólki og berjast gegn kynþáttamisrétti, útlendingaandúð og öðrum fordómum. Og það segir að til lengri tíma litið kunni þetta að verða veigamesti hluti áætlunarinnar. Ég tek undir þau orð að ég tel að þetta sé gífurlega veigamikið atriði sem þarna er nefnt.
    Og þá er ég kannski komin að tilefni þess að ég kveð mér hljóðs í þessari umræðu. Auðvitað tek ég undir þau orð sem hér hafa fallið um vonir manna um að þessi atriði, sem hér eru sett fram, skili sér í störfum Evrópuráðsins og tel þau mjög góðan vettvang, bæði umhverfis- og menningarlega og ekki síst varðandi mannréttindamál sem eru afar mikilvæg eins og hefur verið komið hér inn á. En við erum víðar í samstarfi og við höfum mjög rætt um samstarf á vettvangi Norðurlandaráðs sem hluta af starfinu í Evrópu. Og nokkur okkar eru nýkomin af þingi Norðurlandaráðs í Maríuhöfn og þar var einmitt afgreidd tillaga um norræna herferð í þessu efni. Ég vil sérstaklega geta þess út af þeirri spurningu sem hv. 18. þm. Reykv. setti hér fram.
    Í umræðu um tillögu sem flutt var á þinginu og fjallaði einmitt um að fara í norræna herferð til að berjast gegn útlendingaandúð kom það alveg sérstaklega fram hversu mikil forvarnaaðgerð í sjálfu sér væri framlag til viðburða og aðgerða á menningarsviði. Bæði í umræðum um tillöguna sem afgreidd var á þinginu og í sérstakri menningarmálaumræðu sem átti sér stað á þinginu var bent á að aukin áhersla á menningarmál sem þingið hefur ákveðið og aukin framlög til viðburða og aðgerða á menningarsviði séu mjög mikilvæg í umræðunni um útlendingaandúðina og það sem hefur verið að gerast og þróast í þeim efnum. Ekki síst hefur okkur sem höfum verið að vinna með þessi mál þótt mikilvægt m.a. allt sem hægt er að gera til þess að efla samfélagsþáttinn í menningarmálunum og þar á ekki síst stóran þátt Menningarsjóður Norðurlanda en menningarnefndin hefur lagt mjög mikla áherslu á eflingu hans.
    Ég vil aðeins leyfa mér þó þetta sé umræða um aðra skýrslu og í tilefni af því að þetta er sama mál einmitt að nefna að það kom fram í þessari umræðu að á Norðurlöndum hefur aukist mjög á liðnum árum að alvarleg vandamál hafi tengst útlendingaandúð og jafnvel kynþáttahatri og fleiri og fleiri gróf brot eigi rætur sínar að rekja til slíkrar andúðar og þar hafi verið bæði framdar hótanir, ofbeldisverk og jafnvel morð sem eigi rætur til þessa. Á Íslandi höfum við kannski ekki alveg farið varhluta af svona sjónarmiðum þó sem betur fer hafi alvarlegir atburðir ekki tengst þessum hugsanagangi eða viðhorfum af þessum toga svo vitað sé. En það gætir oft vissrar skinhelgi hjá okkur og þó að ég telji að almennt séu flestir mjög jákvæðir gagnvart búsetu útlendinga hér, þá erum við fremur fálát um hagi þeirra og áhugalaus um menningu þess fólks sem hér býr og hefur ákveðið að deila með okkur kjörum og eiga búsetu sína hjá okkur.
    Í sumum nágrannalöndum okkar hefur verið gripið til ýmissa aðgerða gegn þessari útlendingaandúð og kynþáttahatri og t.d. hefur sérstöku fjármagni verið veitt til aðgerða í Svíþjóð og pólitísku ungliðahreyfingarnar hafa tekið sig saman í Noregi til að berjast gegn þessum sjónarmiðum. Nágrannaþjóðir okkar hafa lagt áherslu á að flóttamenn og innflytjendur finni sinn sess í samfélaginu og virðing sé jafnframt sýnd upprunalegri menningu þeirra og það er lögð áhersla á kennslu á eigin tungumál og stuðningi við rekstur eigin félaga og þetta er afar mikilvægt. Frá sjónarmiði innflytjenda hefur þessi mynd breyst mjög á verri veg þrátt fyrir að stuðningi hins opinbera hafi verið viðhaldið. Mér finnst það eiga erindi hér að nefna þetta þar sem þetta hefur komið fram í umræðu sem við tókum þátt í fyrir tveimur dögum síðan og það kom glögglega í ljós að til að vinna bug á tilhneigingu til kynþáttafordóma og útlendingaandúðar skiptir þekking mjög miklu máli og jákvætt viðmót gagnvart því nýja og óþekkta.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri en vil að lokum geta þess að í umfjöllun menningarmálanefndar um tillöguna sem var einmitt til umfjöllunar þar, en ég er formaður þeirrar nefndar, þá kom það fram að það væri mjög mikilvægt að þessi herferð sem fyrirhuguð væri og nefnd er í tillögunni fái nafnið Norðurlönd gegn útlendingaandúð, það sé ekki tekið dýpra í árinni, vegna þess að það á erindi til miklu stærri hóps en ef notað væri kynþáttahatur eða einhver slík sterk orð. Það var líka lögð mikil áhersla á það í nefndinni að hraða vinnslu tillögunnar og hún er um að setja niður vinnuhóp sem undirbúi herferð og komi með tilbúnar tillögur til aðgerða. Og það var samþykkt í Norðurlandaráði í fyrradag að setja slíkan vinnuhóp á laggirnar, að hann sé lítill, að í honum sé fulltrúi frá norrænu ráðherranefndinni, frá Norðurlandaráði, frá norrænu æskulýðssamtökunum og frá samtökum norrænu félaganna á Norðurlöndum. Þessi vinnuhópur hefur fengið það verkefni að setja fram tillögur fyrir 15. febr. 1994 um áætlanagerð um norræna herferð um Norðurlönd gegn útlendingaandúð og að útvega nauðsynlega fjármuni til þess að slík herferð geti náð fram að ganga.
    Eins og ég sagði þá var unnið hratt með þessa tillögu í nefndinni og Norðurlandaráð samþykkti tillöguna og ákvað líka að fylgja henni fast eftir og þegar í gærmorgun hafði verið tilnefnur af hálfu samstarfsráðherra einn fulltrúa í þessa nefnd og menningarmálanefnd kom saman og tilnefndi einn fulltrúa jafnframt. Og það átti að leita eftir því í gær vegna þess að æskulýðssamtökin og norrænu félögin á Norðurlöndum áttu þarna fulltrúa að það yrði strax gengið frá tilnefningu fulltrúa þeirra þannig að nefndin færi strax af stað og yrði strax tilkynnt um hana.
    Ég vænti þess að tillögur og hugmyndir um aðgerðir sem þarna komi fram verði hvati til okkar til að taka á þessum málum líka hjá okkur og vekja okkur til vitundar um hvað betur mætti fara í samskiptum okkar og nýbúanna sem hér hafa ákveðið að koma og lifa okkur við hlið.