Niðurstöður fundar leiðtoga Evrópuráðsins í Vínarborg

34. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 15:38:15 (1268)

[15:38]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Herra forseti. Ég vil í upphafi færa hv. þingmönnum þakkir fyrir málefnalega og drjúga umræðu þeirra um þessa skýrslu og þennan fund og Evrópuráðið í heild. Ég er ekki í vafa um það að þessi fundur var til þess fallinn að styrkja stöðu Evrópuráðsins og reyndar staðfesta stöðu þess því að það hefur komið fram og kom fram á þessum fundi að þessi vettvangur er hvað mikilvægastur fyrir þær þjóðir sem nú eru að sækja fram á nýjum tíma. Þeim eru að hluta til lokaðar dyr annars staðar, til að mynda í Atlantshafsbandalaginu og Evrópubandalaginu og þannig mun það verða um nokkurt skeið áfram. Það er fyrirsjáanlegt. Þess vegna er mikilvægi Evrópuráðsins því meira og það mikilvægi knýr þessar þjóðir til að gera kröfur til sjálfra sín, kröfu sem Evrópuráðið eitt getur sett þeim. Evrópuráðið er að verða með þessum nýju aðildarríkjum, með sögu sinni, stefnu og starfsramma, sá vettvangur sem kannski mun duga okkur best í því að tryggja lýðræði og mannréttindi í okkar heimshluta á næstu árum.
    Auðvitað kom fram á þessum fundi þó nokkur bölsýni hjá einstökum fundarmönnum vegna þess með hvaða hætti einstök Evrópuríki líta til hinna nýfrjálsu ríkja og sumum þótti sem Evrópuríkin brygðu seint eða illa við beiðni þessara ríkja eða komast í náið samfélag þeirra og tryggja þar með framtíðarstöðu þeirra því að þrátt fyrir það að við tölum um það hér að kalda stríðinu sé lokið og allt sé breytt, þá finnum við það glöggt í ræðum þessara manna að óöryggið er enn þá mikið í þeirra ranni og þeir vilja nota þann tíma sem gefst til þess að styrkja stöðu sína til frambúðar.
    Varðandi þá þætti sem sérstaklega hafa verið nefndir, þá ætla ég ekki að geta um það, hv. þm. hafa fjallað um það að mínu viti með tæmandi hætti. Ég vil þó nefna að mér finnst það vera rétt ábending sem kom fram hjá hv. 3. þm. Reykv. um með hvaða hætti væri rétt að standa að skipun þeirrar sérfræðinganefndar sem áformað var að setja á laggirnar. Ég tel að það sé skynsamlegt að túlka þar samsetningarmöguleika með þeim hætti sem hv. þm. gerði þannig að menn bindi sig ekki um of fast við embættismenn og sérfræðinga þó að orðalagið gæti gefið tilefni til þess, þá tel ég að það sé eðlilegt að menn líti til þeirra sjónarmiða sem komu fram í máli hv. þm. varðandi skipun nefndanna.
    Varðandi það sem hv. þm. hafa rætt um það sem að æskunni snýr og þeirri herferð sem samþykkt er að beita sér fyrir, þá kom það fram á þessum fundi og reyndar í samtölum við einstaka forsrh. á þessum fundum að sumum þeirra hafi komið mjög á óvart hve dulin andúð á tilteknum kynþáttum og minnihlutahópum hafi verið undirliggjandi í þeirra heimalöndum. Þeir hefðu getað sagt eins og við þykjumst geta sagt nú að slíku sé ekki fyrir að fara hjá sér en svo hafi komið á daginn að undirliggjandi andúð og jafnvel hatur hafi verið miklu, miklu meira en menn þóttust sjá til að mynda einstökum Norðurlöndum. Þess vegna held ég að þessari hugmynd sé hleypt af stað af mikilli alvöru og ég held að það sé rétt eins og kom fram hér fyrr í dag frá hv. 18. þm. Reykv. að við eigum ekki að ríghalda í þann geislabaug sem við höldum að sé yfir okkar höfðum í þessum efnum, heldur taka fullan þátt í þessari uppfræðsluherferð og ég tel víst að af okkar hálfu hljóti menntmrn. að vera þar í forsvari og ég vænti þess að þeir hv. þm. sem mest fara með málefni Evrópuráðsins í umboði okkar hv. þm. muni hafa sig í frammi og það væri haft gott og náið samráð við þá um mótun þessarar stefnu sem aðgerðaráætlunin sem kynnt er á bls.

13 í skýrslunni fjallar um.
    Varðandi þann þátt sem hv. 3. þm. Reykv. nefndi um atriði sem lúta að félagsmálasáttmálanum og einstakar athugasemdir sem hafa borist vegna þess með hvaða hætti við höfum staðið að málum í þeim efnum, þá er það rétt að í bréfum sem á ríkisstjórnarinnar vegum hafa verið send vegna deilna um þessi efni, þá kom fram tiltekin afstaða. Ég hygg að með nýgengnum dómum og þeim breytingum sem eru að verða varðandi sjónarmið í þessum efnum, þá hljóti menn að skoða mjög nákvæmlega afstöðu sína og hugmyndir sem lúta að þessum þáttum sérstaklega. Við skulum þó gera okkur grein fyrir því að þetta eru vandmeðfarin mál og viðkvæm og það er nauðsynlegt að ræða þau í góðri sátt við til að mynda launþegahreyfinguna og ég held reyndar að það sé líka á þeim vettvangi sem vaknar ríkari skilningur á þessu.