Hæstiréttur Íslands

34. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 15:51:26 (1270)


[15:51]

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég hafði óskað eftir því að hæstv. forsrh. yrði viðstaddur ræðu mína og hann hafði haft góð orð um það. Ég veit að hann er í húsinu þannig að ég óska eftir því að reynt væri að gera honum viðvart.
    Í öðru lagi hafði ég óskað eftir því að hæstv. umhvrh. yrði einnig viðstaddur þessa umræðu og hæstv. fjmrh. Hæstv. fjmrh. tjáði mér að hann væri bundinn með ráðstefnu en ég reikna með að hann sé laus núna vegna þess að umræðan hefur haldið áfram seinna en ætlað var og ég vil þess vegna setja fram þá ósk að kannað verði hvort hæstv. umhvrh. eða hæstv. fjmrh. geta komið til umræðunnar.
    Hæstv. dómsmrh. var nokkuð undrandi á því hvers vegna við óskuðum eftir því að þetta mál yrði rætt hér sérstaklega. Ráðherrann taldi að hér væri eingöngu um að ræða breytingar sem ættu að greiða fyrir áfrýjun mála. Hins vegar er ráðherranum fullkunnugt um það að í frv. er fleira að finna. Í frv. er ákveðið að fjölga í Hæstarétti. Þetta er því fyrst og fremst frv. um það að Hæstiréttur Íslands sé skipaður níu dómurum. Í greinargerð frv. kemur síðan fram skýrt að rökin fyrir því að fjölga í Hæstarétti séu að minnka vinnuálagið í réttinum.
    Það er öllum hv. þm. kunnugt að dómarar í Hæstarétti tóku sér 48 yfirvinnutíma fasta og hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. samþykktu þá ósk og hafa óskað eftir heimild á fjáraukalögum til þess að greiða þá yfirvinnu þó þegar sé farið að greiða hana. Síðan kemur hæstv. ríkisstjórn með frv. þar sem óskað er eftir fjölgun í réttinum til að minnka álagið. Þetta tvennt passar illa saman, að hefja þessar einstöku yfirvinnugreiðslur til hæstaréttardómara, fram hjá Kjaradómi, og rökstyðja þær með vinnuálagi, sem voru einu rökin sem heyrðust í réttinum, og flytja svo frv. sem felur það í sér að minnka eigi vinnuálagið í réttinum. Það stendur á bls. 2 í frv., í upphafi kaflans um helstu efnisatriði frv., þau eru talin tvö. Það fyrra er að leitast við að létta nokkuð álagi af æðra dómstiginu sem hefur farið stigvaxandi á undanförnum árum. Síðan er það rakið hver fjöldi mála hafi verið og færð að því mjög ítarlega rök á næstu síðum í greinargerðinni að með því að fjölga í réttinum sé hægt að minnka álagið.
    Í því sambandi er rétt að skoða það einnig að sú skipan hefur verið að einn af dómurunum hefur eina viku í hverjum mánuði um langt árabil starfað við Mannréttindadómstól Evrópuráðsins. Þessi dómari hefur þess vegna verið fjarri réttinum sem nemur u.þ.b. fjórðungi ársins. Þessi dómari hefur nú verið skipaður í EFTA-dómstólinn en hann fær ekki lausn frá embætti við Hæstarétt, heldur er honum eingöngu veitt leyfi. Það er í sjálfu sér athyglisverð ákvörðun og má færa rök að því að hún sé ekki eðlileg, en hún verður sérkennileg í ljósi þess að þessi háttvirti hæstaréttardómari verður þegar hann kemur til baka úr þessu leyfi 65 ára gamall og getur þá samkvæmt þeim reglum sem í gildi eru hætt strax í réttinum á fullum eftirlaunum. Með því að fara þessa sérkennilegu leið, að dómari við Hæstarétt Íslands er áfram í embætti hæstaréttardómara á Íslandi um leið og hann situr í dómstól EFTA en ákvarðanir þessara tveggja dómstóla geta skarast, getur viðkomandi dómari náð þeim réttindum hæstaréttardómara að hætta á fullum launum við 65 ára aldur. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. dómsmrh. hvort gengið hafi verið eftir því að þessi dómari komi aftur til starfa og hvort hann hafi gefið yfirlýsingu um það að hann muni koma aftur til starfa við réttinn að loknu þessu leyfi eða hvort hann ætlar virkilega að nýta sér það að vera í burtu frá réttinum í tvö ár, þurfa aldrei að koma þangað aftur og hætta svo á fullum launum árið 1995.
    Ég vil einnig segja það hér, þó það eigi kannski betur heima undir umræðunni um það frv. sem við þingmenn Alþb. höfum flutt, að ákvarðanir núv. hæstv. dómsmrh. um skipun manna í Hæstarétt eru vægast sagt umdeilanlegar. Það er alveg ljóst þegar þær ákvarðanir eru skoðaðar að í a.m.k. einu ef ekki fleiri tilvikum hafa flokkspólitísk sjónarmið þar ráðið. Ég ætla að tala alveg skýrt í þeim efnum, það er ekki hægt að færa fagleg rök fyrir því að Pétur Hafstein sýslumaður hafi haft lengri embættisferil eða skarað fram úr þeim öðrum umsækjendum sem um það embætti sóttu. Hann var hins vegar traustur sjálfstæðismaður, hann hafði skrifað blaðagrein til stuðnings hæstv. dómsmrh., þegar hæstv. dómsmrh. var að slást fyrir formannssæti sínu í Sjálfstfl. og var auðvitað af þekktum ættum forráðamanna í Sjálfstfl. Ég vil segja það við núv. formann Sjálfstfl. og fyrrv. formann Sjálfstfl., núv. hæstv. dómsmrh., það er ekki traustvekjandi hve margir af núverandi dómurum í Hæstarétti hafa gegnt trúnaðarstörfum á vegum Sjálfstfl., verið þar virkir flokksmenn, annaðhvort í háskóla eða síðar.
    Við þurfum að reyna að kappkosta að Hæstiréttur sé hafinn yfir slíkt. Ég hef gagnrýnt það áður að þegar dómsmrh. Alþfl. sat svo hér um rúmlega eitt ár og það kom í hans hlut að skipa einn dómara í Hæstarétt, þá vildi svo sérkennilega til að hann valdi þann úr hópi umsækjenda sem var þekktum alþýðuflokksættum. Son þingmanns Alþfl. og fyrrv. ráðherra Alþfl. Það hefur kannski verið tilviljun. Kannski hefur sá maður skarað fram úr öllum umsækjendum hvað snertir embættisreynslu og aðra hæfni. Ég held þó ekki, með allri virðingu fyrir þeim lögfræðingi og þeim dómara. Það nær auðvitað ekki nokkurri átt að þegar dómsmrh. eru að velja menn í réttinn og fara með þetta vald þá skuli því vera beitt á þennan veg.
    Ég held ég fari nokkurn veginn rétt með að meira en helmingur af þeim, eða u.þ.b. helmingur af þeim sem nú sitja í réttinum hafi þannig gegnt trúnaðarstöðum eða verið virkir í flokksstarfi Sjálfstfl. og skyldra samtaka fyrr á ævinni.
    Ég nefni þetta hér vegna þess að við vitum að Hæstiréttur hefur í æ ríkari mæli verið að fara inn á þær brautir að túlka lög og stjórnarskrá út frá sjónarmiðum sem ekki eru beint lögfræðileg, heldur snerta kannski almenn heimspekileg viðhorf til stjórnskipunar, efnahagsmála, mannréttinda og þar með efnahagslegra réttinda. Rétturinn hefur þar með orðið pólitískari. Sumir hafa haldið því fram að hann hafi um of dæmt með ríkisvaldinu á hverjum tíma í slíkum ákvörðunum sínum og Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmaður, ef ég man rétt, hefur skrifað um það sérstaka bók þar sem hann hefur rakið slík tilvik. Ég ætla ekki að taka afstöðu í því máli en nefni það eingöngu hér að það eru fjölmörg dæmi um það að hlutverk réttarins hefur í æ ríkari mæli orðið víðtækara en hið þrönga faglega hlutverk lögfræðinnar gæti gefið til kynna.
    Mér finnst því alls ekkert sjálfgefið í ljósi þess að núv. hæstv. dómsmrh. fái frá þinginu heimild til að ráðstafa fjórða dómaraembættinu í Hæstarétti án þess að hér fari fram á þinginu ítarleg umræða um það með hvaða hætti við eigum að skipa dómara í Hæstarétt. Þess vegna finnst mér eðlilegt að áður en þetta frv. verður afgreitt frá þinginu komi það frv. sem hv. þm. Svavar Gestsson er 1. flm. að til umfjöllunar og afgreiðslu í þinginu.
    Ég óskaði eftir nærveru hæstv. forsrh. vegna þess, virðulegur forsrh., að fyrr á þessu ári kom það fram að Hæstiréttur hafði sent til forsrn. yfirvinnureikninga um 48 fasta yfirvinnutíma og óskaði eftir því að fá þá greidda og hæstv. forsrh. sagði, ef ég man rétt, að hann hefði ekki talið rétt að deila við dómarana um þá niðurstöðu og sent reikninginn áfram til fjmrn. sem svo greiddi hann.
    Í þessu frv. hins vegar, virðulegi forsrh., er farið fram á það að fjölga dómurum í Hæstarétti um einn og meginrökin sem koma fram í grg. frv. eru að minnka vinnuálagið í réttinum. Það eru færð margvísleg rök að því hvernig það geti verið hagkvæmara, sparað tíma og vinnu að taka upp þá skipan sem hér er lýst. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. forsrh.: Telur hann þá ekki óeðlilegt að Hæstiréttur geti haldið áfram að taka sér 48 fasta yfirvinnutíma þegar ríkisstjórnin hefur lagt fram frv. sem hefur þann megintilgang m.a. að minnka yfirvinnuna í réttinum eða er það virkilega þannig að það sé skoðun hæstv. forsrh. og fjmrh., sem ég hafði einnig óskað eftir að væri viðstaddur þessa umræðu, að samþykkt þessa frv. hafi engin áhrif á yfirvinnuna í Hæstarétti og muni ekki leiða til neinna breytinga á launakjörum þeirra? Ef það væri niðurstaða viðkomandi ráðherra þá væri verið að lýsa þeirri skoðun að krafa Hæstaréttar um 48 stunda yfirvinnu sé ekki byggð á neinu faglegu mati á vinnuframlagi, heldur sé eingöngu hefðbundin kjarakrafa um kauphækkun. Þess vegna, virðulegur dómsmrh., snertir þetta frv. hér alveg skýrt þær deilur sem risið hafa um sjálftöku Hæstaréttar sem svo hefur verið nefnd, kauphækkun sem hæstaréttardómarar tóku sér með því að senda yfirvinnureikninga til forsrn. og eru einu aðilarnir sem heyra undir Kjaradóm sem þannig hafa hagað sér.
    Ég vil í þessu sambandi lýsa því hér að á fundi umhvn. í morgun kom það fram að fjmrn. hefur haft þá afstöðu gagnvart Veðurstofunni að þær breytingar sem gerðar voru á kjörum veðurfræðinga og fólu í sér að tekið var upp bakvaktakerfi og ýmislegt annað sem tilheyrir auknu vinnuálagi á Veðurstofunni og leiddi til verulegra kauphækkana hjá veðurfræðingum í reynd, svipað og gerst hefur með hæstaréttardómarana --- í öðru tilvikinu er um nýtt skipulag bakvakta og mat á meira vinnuálagi að ræða, í hinu tilvikinu er um yfirvinnu að ræða --- en afstaða fjmrn. er sú að veita ekki fjármagn til þess að standa undir þessari breytingu á kjörum veðurfræðinga. Þess vegna upplýstu forráðamenn Veðurstofunnar það á fundi umhvn. í morgun að í fjáraukalagafrv. sem hér hefur verið lagt fram af hálfu ríkisstjórnarinnar er ekki beðið um fjárveitingu til þess að greiða þessi auknu laun veðurfræðinganna. Í fjárlagafrv. er heldur ekki óskað eftir því. Afstaða ráðuneytanna gagnvart Veðurstofunni er í þessu tilviki sú að Veðurstofan eigi að spara með því að skera niður í rekstri. Varðandi Hæstarétt er hins vegar farin sú leið að koma til þingsins og biðja um heimild í fjáraukalögum til þess að greiða þá kauphækkun sem felst í yfirvinnunni. Ég hefði viljað spyrja hæstv. fjmrh., en í fjarveru hans hæstv. forsrh.: Hvar er samhengið í þessum tveimur ákvörðunum? Að samþykkja umyrðalaust kröfu hæstaréttardómara um kauphækkun vegna yfirvinnu en hafna því að veita Veðurstofunni auknar fjárveitingar til að standa undir þeim samningum sem þar voru gerðir, ef ég man rétt, fyrr á þessu ári. Forsrh. gæti svarað: Ég deili ekki við dómarana af því að hér voru hæstaréttardómarar sem hér áttu í hlut. Það tel ég ekki gilt svar vegna þess að launakjör hæstaréttardómara eru ekki ákveðin af þeim sjálfum, þau eru ákveðin af Kjaradómi. Hæstaréttardómarar eru ekki dómarar í eigin launamálum, hafa aldrei verið og verða ekki fyrr en við breytum lögum hér. Þetta er þess vegna enn merkilegra fyrir þá sök að afstaða ríkisstjórnarinnar, a.m.k. í þeim frumvörpum sem hún hefur lagt fram er að segja við Veðurstofuna: Ef þið viljið greiða veðurfræðingunum hærri laun þá verðið þið að spara það af öðrum rekstrarlið eða með sértekjum. Ég spyr þess vegna: Hví er ekki það sama látið gilda um Hæstarétt? Að segja að ef Hæstiréttur vill taka sér yfirvinnu þá verður hann að ná því inn með sparnaði af öðrum rekstrarútgjöldum eða með sértekjum. Það auðvitað gengur ekki upp, sérstaklega á þeim tímum þegar afstaða ríkisvaldsins gagnvart launum opinberra starfsmanna er með þeim hætti sem lýst hefur verið að láta hæstaréttardómarana fá þessa sérmeðhöndlun en hafa aðra afstöðu gagnvart þeim samningum sem gerðir voru við veðurfræðinga.
    Þess vegna er þetta mál auðvitað allt þannig að sjálftaka Hæstaréttar á þessari yfirvinnu er að leiða hér út í hreinar ógöngur, hæstv. forsrh. Ógöngur í aðhaldi í ríkiskerfinu eins og sést á þessari mótsögn sem ég hef rakið í fjáraukalagafrv. og í fjárlagafrv. gagnvart þessum tveimur stofnunum, Hæstarétti og Veðurstofu, og svo líka auðvitað út í þær ógöngur að fyrrverandi hæstaréttardómari hefur höfðað mál sem hefur verið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem hann heldur fram þeim skilningi sínum að yfirvinnugreiðslan sé eingöngu hefðbundin launahækkun og eigi þess vegna að gilda einnig um launagreiðslur til

þeirra hæstaréttardómara sem látið hafa af störfum. Menn sjá auðvitað í hendi sér hvar Hæstiréttur er staddur þegar einn af fyrrverandi dómurunum sér sig knúinn til þess að leita til dómstólanna með það mál sem hann hefur flutt. Ef hann vinnur málið þá er sjálfsagt að fjmrn. áfrýi til Hæstaréttar. Þá verður að ryðja Hæstaréttinn allan til þess að dæma í því máli og verður sjálfsagt mjög erfitt að velja dómara í réttinn vegna þess að launakjör þeirra manna sem gegna tímabundið í réttinum fara eftirlaunakjörum þeirra sem eru í réttinum. Þannig að þeir sem með hefðbundnum hætti hafa setið í réttinum sem varadómarar væru þá um leið að dæma í eigin sök eða í eigin máli, eigin hagsmunum, eftir því hvort þeir felldu dóminn með eða á móti fyrrverandi dómara.
    Þess vegna, virðulegi forsrh., tel ég nú skynsamlegast að samþykkja þá brtt. við fjáraukalögin sem við höfum flutt til þess að þessi þvæla verði á enda. En málið verði ekki látið vinda upp á sig eins og það hefur verið að gera í umhvn. þegar upplýsingarnar um Veðurstofuna koma fram í dagsljósið.
    Virðulegi forseti. Ég vil ítreka spurningu mína um það hvort fjölgun dómara í réttinum, leiði ekki sjálfkrafa til þess að yfirvinnutími hæstaréttardómaranna, verði þeir á annað borð viðurkenndir, verði lækkaðir og í öðru lagi vil ég ítreka spurningu mína um misræmið sem er á milli afgreiðslunnar í frv. ríkisstjórnarinnar á Veðurstofunni annars vegar og Hæstarétti hins vegar. Í þriðja lagi vil ég ítreka þá skoðun mína að það er ekki hægt að afgreiða þetta frv. fyrr en fengist hefur afstaða þingsins til þess frv. um Hæstarétt Íslands sem þingmenn Alþb. hafa flutt og hv. þm. Svavar Gestsson er 1. flm. að.