Hæstiréttur Íslands

34. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 16:24:28 (1273)

[16:24]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þetta var misskilningur hjá hv. þm. Framkvæmdarvaldið hefur aldrei ákvarðað laun hæstaréttardómara. Það hefur jafnan verið Kjaradómur og þess gætt að það sé Kjaradómur. Hætta mín var sú að ef ég fór að túlka bréf hæstaréttardómara með tilteknum hætti þá hefði framkvæmdarvaldið í fyrsta skipti í sögunni farið að ákveða laun dómaranna. Það var túlkun hæstaréttardómaranna á niðurstöðu Kjaradóms að það fælist í niðurstöðu Kjaradóms að þessar greiðslur skyldi greiða sem varð til þess að ég fór ekki að amast við því að framkvæmdin ætti sér stað eins og dómararnir höfðu túlkað kjaradóminn. Framkvæmdarvaldið hefur aldrei sem slíkt ákveðið laun dómaranna með sama hætti og æðsti maður stjórnsýslunnar, forsrh., hefur aldrei ákveðið laun forsrh. Það hefur verið settur sérstakur dómstóll til þess og það var einmitt vegna þess að þetta var dómstóll sem ríkisstjórnin vildi ekki og forðaðist eins og heitan eldinn að breyta niðurstöðum Kjaradóms með bráðabirgðalögum. Það gerði ríkisstjórnin ekki. Hún setti hins vegar reglur um það eftir hvaða viðmiðunum Kjaradómur skyldi dæma vegna þess að samkvæmt lögum um Kjaradóm þá getur Kjaradómur hvenær sem er kveðið upp nýjan dóm ef viðmiðunarreglurnar sem Kjaradómur á að vinna eftir hafa breyst. En dómsniðurstöðunni vildu menn ekki breyta með lögum og það er einmitt þessi misskilningur sem var hjá hv. þm. að framkvæmdarvaldið hefur aldrei ákvarðað laun hæstaréttardómaranna. Ég vildi ekki lenda í þeirri stöðu að vera sá fyrsti til að gera það.