Hæstiréttur Íslands

34. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 16:50:40 (1282)

[16:50]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Það er afskaplega erfitt, með fullri virðingu, að tala við hv. þm. því að annaðhvort heyrir hann ekki, skilur ekki eða kemur hér upp og segir eitthvað allt annað heldur en hann heyrir og skilur. Það er bara tvennt til. Hv. þm. hafði sagt að hæstaréttardómarar hefðu verið að opna smugu. Ég benti honum á það sem hann vissi sjálfur að sú smuga var löngu, löngu opnuð. Og þegar Kjaradómur var kveðinn upp á nýjan leik eftir setningu bráðabirgðalaga, sem hafa verið staðfest, þá um leið hækkaði yfirvinna allra þessara embættismanna með sama hætti, sem Kjaradómur ætlaði að lækka og breyta. Hæstv. fyrrv. ráðherra, hv. þm., veit því nákvæmlega og betur en flestir aðrir að þessu hafði verið framfylgt með þeim hætti um margra ára skeið, þannig að smugan var fyrir hendi. Það voru nefnilega bara aðilar eins og Hæstiréttur og Alþingi og ríkisstjórn sem höfðu ekki fundið þessa smugu eða farið eftir henni. Aðrir höfðu gert það, einkum æðstu embættismenn ríkisins með atbeina ráðherranna, þar með talins hv. þm., fyrrv. ráðherra Ólafs Ragnars Grímssonar, sem ekki síst sem fjmrh. hafði alla reikningana, fékk yfirvinnuna reglubundið inn til sín eins og fjmrh. gera eða eiga a.m.k. að gera og við vissum nákvæmlega að þessi smuga var nýtt og það var verið að greiða yfirvinnu sem var langt umfram það sem Kjaradómur hafði nokkru sinni ætlast til.