Meðferð einkamála

34. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 17:11:39 (1287)

[17:11]
     Dómsálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Ég mæli fyrir þriðja frv. sem tengist þeim breytingum á meðferð áfrýjunarmála sem verið hafa til umræðu hér í dag. Helstu markmið með þessu frv. til laga um breyting á lögum um meðferð einkamála eru að draga úr málafjölda fyrir Hæstarétti og flýta meðferð áfrýjunarmála.
    Á undanförnum áratugum hafa orðið verulegar breytingar á meðferð einkamála fyrir héraðsdómi þar sem tekið hefur verið tillit til tækniþróunar, dregið úr óþarfa formsatriðum og kröfur til málsaðila eða lögmanna þeirra um undirbúning mála í hendur dómstóla hafa verið auknar. Tilgangur þessara breytinga hefur m.a. verið að gera dómstólum kleift að takast á við stórfellda fjölgun dómsmála sem hefur leitt af sér hættu á seinagangi við rekstur mála. Þessu hefur ekki að öllu leyti verið fylgt eftir með endurskoðun á reglum um málsmeðferðina fyrir Hæstarétti eða reglum um heimildir til málskots þar sem hafa löngum verið mjög væg skilyrði fyrir málskoti þótt vissar breytingar hafi orðið í þeim efnum á síðari árum. Helstu efnisbreytingum sem frv. gerir ráð fyrir frá gildandi lögum má skipta í þrennt:
    Í fyrsta lagi gerir frv. ráð fyrir að skilyrði fyrir rétti til að áfrýja smærri málum verði hert og að gera réttinn til málskots háðan leyfi Hæstaréttar í þeim tilvikum.
    Í öðru lagi byggja ákvæði frv. á því að þótt rétturinn til áfrýjunar verði að nokkru leyti skilyrtur, verði hvergi nærri girt fyrir endurskoðun á þeim úrlausnum héraðsdómstóla sem slík skilyrði mundu ná til. Koma bæði til ákvæði frv. um heimildir Hæstaréttar til að veita áfrýjunarleyfi m.a. á þeirri forsendu að tilefni geti verið til að ætla að niðurstöðum héraðsdóms yrði breytt við áfrýjun til Hæstaréttar og að Hæstiréttur mundi þannig meta hvort annmarkar séu á úrlausn héraðsdóms í smærri málum og veita leyfi til að áfrýja þeim ef svo væri. Meðferð á beiðnum um áfrýjunarleyfi fæli þannig í sér að úrlausnir í smærri málum kæmu til vissrar endurskoðunar fyrir æðra dómi en samkvæmt ákvæðum frv. yrði sú endurskoðun framkvæmd með tiltölulega einföldum og skjótvirkum hætti.
    Í þriðja lagi gerir frv. ráð fyrir allnokkrum breytingum á meðferð áfrýjaðra einkamála fyrir Hæstarétti en tilgangur þeirra er að einfalda og flýta meðferð einkamála fyrir Hæstarétti.
    Ég hygg að óumdeilt sé að þær réttarfarsbreytingar sem gerðar hafa verið að undanförnu hafi skilað ótvíræðum árangri og bætt meðferð mála og greitt fyrir því að aðilar dómsmála geti fengið skjóta úrlausn þeirra. Á það hefur hins vegar skort að nægjanlegar skipulagsbreytingar hafi verið gerðar til þess að greiða fyrir áfrýjun mála. Þessi þrjú frv. sem hér hafa verið til umræðu miða að því að leysa þann vanda. Hæstiréttur hefur afgreitt á tveimur síðustu árum mun fleiri mál en áður, en ljóst er að til þess að vinna upp þann hala sem myndast hefur og tryggja styttri málsmeðferðartíma og réttaröryggi borgaranna að því leyti, er nauðsynlegt að koma fram breytingum af því tagi sem hér er mælt fyrir um.
    Réttarfarsnefnd sem unnið hefur að þessum málum að beiðni ráðuneytisins hefur einnig til meðferðar heildarlöggjöf um dómstólaskipan í landinu og þess er að vænta að niðurstaða þess starfs verði kunn innan ekki langs tíma. Ég get ekki á þessu stigi sagt nákvæmlega fyrir um hvenær það verður. Formaður þessarar nefndar er Hrafn Bragason hæstaréttardómari. Að öðru leyti er sjálfsagt að við meðferð þessa máls í hv. allshn., sem ég vænti að fái frv. til meðferðar, að gefa frekari upplýsingar um þessi störf og önnur þau atriði sem hv. þm. kunna að óska eftir.
    Ég vil svo að lokum, herra forseti, leggja til að þessu frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.