Tilboð ríkisstjórnarinnar í GATT-viðræðunum

35. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 15:08:37 (1291)

[15:08]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Mér þykir það miður að hæstv. forsrh. skuli ekki reyna að svara einu orði því sem ég sagði að væri aðalspurning mín, þ.e. hvort niðurstöður úr þessum viðræðum utanrrh. og landbrh. yrði ekki kynnt þingmönnum og ræddar í viðkomandi nefndum þingsins, utanrmn. og landbn., áður en þær verða sendar. Okkur er öllum ljóst að niðurstaðan úr þessum samningaviðræðum getur haft gífurlega þýðingu fyrir atvinnulífið í landinu og verið þýðingarmeiri en jafnvel meiri hluti þeirra mála sem Alþingi er að fjalla um. Það að senda slíkar tillögur út án þess að nefndum þingsins gefist kostur á að ræða þær finnst mér alveg furðulegt og einnig ef t.d. hv. formaður landbn. telur ekki ástæðu til þess að landbn. sjái þessar tillögur, áður en þær verða sendar og verða orðnar bindandi fyrir okkur.