Flutningur ríkisstofnana

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 15:16:52 (1295)


[15:16]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Eins og fram kom hjá fyrirspyrjanda var skilað um mitt sl. sumar tillögu eða nefndaráliti og tillögu um flutning ríkisstofnana út á land. Ég tel að sú nefnd sem þar starfaði og í áttu sæti Gunnlaugur Stefánsson alþm., Hrafnkell A. Jónsson, formaður verkalýðsfélagsins Árvakurs, Kristín Ástgeirsdóttir alþm., Margrét Frímannsdóttir alþm., Tómas Ingi Olrich alþm., Valgerður Sverrisdóttir alþm. og Þorv. Garðar Kristjánsson, fyrrv. alþm., hafi starfað vel og skilað vönduðu áliti og vönduðum tillögum sem Alþingi og ríkisstjórn eiga að geta byggt á. Það er líka rétt sem hv. fyrirspyrjandi sagði að málið er í eðli sínu á forræði einstakra fagráðherra en mér þykir ekkert óeðlilegt að málið gæti borð þannig að þinginu að það kæmi fram í þáltill. þar sem annars vegar yrði um að ræða almenna stefnuyfirlýsingu í byggðamálum sem lyti að starfi nefndarinnar og stefnu sem öllum þingflokkum hefur verið kær og á hinn bóginn muni Alþingi fela ríkisstjórninni að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að hrinda tillögunni í framkvæmd þannig að viljayfirlýsing þingsins gæti komið fram án þess þó að einstök fagráðuneyti væru búin að mynda sér fasta og ákveðna afstöðu varðandi þær einstöku stofnanir sem undir einstök fagráðuneyti heyra.
    Ég held að það sé kostur að vilji þingsins liggi glöggur fyrir í þessum efnum og þess vegna hygg ég að þessi aðferð geti vel átt við í þessu máli og mun beita mér fyrir því að þannig verði málið afgreitt frá ríkisstjórninni.