Flutningur ríkisstofnana

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 15:22:58 (1299)

[15:22]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Eitt er að gera tillögur um flutning ríkisstofnana, annað er að framkvæma þær, og síðan er spurningin um að standa á því sem er þó til staðar um dreifingu á verkefnum út um landið. Ég hef aldrei gert mér miklar vonir um að sá pappír sem hér var verið að mæra mundi leiða til mikils. Ekki verður bjartsýnin meiri eftir svör hæstv. forsrh. En svo tekið sé dæmi af því sem er að gerast í þessum málum, þá er t.d. verið að höggva niður Rafmagnseftirlit ríkisins í landinu, leggja niður útibú Rafmagnseftirlits ríkisins á Austurlandi og það á mjög hæpnum forsendum sem iðnn. er vel kunnugt um. Það er þróunin sem í gangi er. Ætli það sé ekki fleira af þessum toga sem er á leiðinni í ljósi þeirra fjárveitinga sem tillögur liggja nú fyrir um í þinginu?