Flutningur ríkisstofnana

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 15:24:00 (1300)


[15:24]
     Guðmundur Hallvarðsson :
    Virðulegur forseti. Hér hefur verið rætt um flutning á ríkisfyrirtækjum út á land og er þá ekki allt sem mönnum sýnist þar um. Það er til að mynda rætt um málefni Landhelgisgæslunnar, að það sé rétt að flytja hana til Keflavíkur. Sem þýðir einfaldlega að það þarf að fara í stórkostlegar hafnarframkvæmdir til að flytja Landhelgisgæsluna þangað suður eftir. Í annan stað er rétt að benda mönnum á að Landhelgisgæslan hefur ekki greitt eina krónu í hafnargjöld til Reykjavíkurhafnar. Skip Landhelgisgæslunnar hafa verið gjaldfrí í Reykjavíkurhöfn. Menn halda kannski að það kosta ekki mikið fjármagn að flytja Landhelgisgæsluna til Keflavíkur. En málið er með öðrum hætti og ég held að ágætir dreifbýlisþingmenn ættu að athuga sinn gang og vera ekki með meira kapp en forsjá í þessu máli.