Flutningur ríkisstofnana

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 15:27:13 (1303)


[15:27]
     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Sú skýrsla sem hér hefur verið til umræðu bendir á ýmsar hugmyndir að flutningi ríkisstofnana út á land og margar eru mjög athyglisverðar og fyllilega þess virði að þær séu íhugaðar nánar. Ég hef hins vegar verið að komast að þeirri niðurstöðu smám saman með því að fara yfir þessi mál einmitt í ljósi þess sem hv. 2. þm. Norðurl. v. sagði hér áðan að það er ríkjandi mikið tregðulögmál í þessum efnum. Ég held að áhrifamesti tilflutningur starfa út á land felist fyrst og fremst í því að staðsetja nýjar ríkisstofnanir úti á landi. Það er svo mikið tregðulögmál og ýmsir ,,praktískir`` annmarkar á því

að taka upp heilar ríkisstofnanir að ég held að það sé miklu vænlegri leið til árangurs að staðsetja nýjar ríkisstofnanir úti á landi til viðbótar því jafnframt að færa tiltekin verkefni sem unnin eru innan ríkisstofnana, inni í ráðuneytunum, inni í stofnunum hér í Reykjavík, færa þau út á land líkt og gert hefur verið t.d. hjá Byggðastofnun og líkt og fjmrn. hefur markað stefnu um með því að færa ýmis skrifstofuverkefni sem unnin hafa verið í Reykjavík út á land.